Allt þetta hófst í Hafnarfirði. Stóra upplestrarkeppnin!

Fréttir

Ingibjörg Einarsdóttir er upphafsmaður Stóru upplestrarkeppninnar og hefur fylgt þessu merka framtaki allt frá upphafi en saga keppninnar spannar alls 24 ár. Ingibjörg situr í framsæti Vitans, hlaðvarpi Hafnarfjarðarbæjar, að þessu sinni. Í viðtalinu heyrum við um bakgrunn Ingibjargar sem hefur alla tíð búið í Reykjavík en tengst Hafnarfirði sterkum böndum í starfi. Frá sjö ára aldri var hún staðráðin í því að verða kennari en alls kenndi hún í 25 ár. Síðar varð Hafnarfjarðarbær starfsvettvangur Ingibjargar þar sem hún starfaði á skólaskrifstofu í 20 ár eða frá 1996.

Ingibjörg Einarsdóttir er upphafsmaður Stóru upplestrarkeppninnar og hefur fylgt þessu merka framtaki allt frá upphafi en saga keppninnar spannar alls 24 ár. Ingibjörg situr í framsæti Vitans, hlaðvarpi Hafnarfjarðarbæjar, að þessu sinni. Í viðtalinu heyrum við um bakgrunn Ingibjargar sem hefur alla tíð búið í Reykjavík en tengst Hafnarfirði sterkum böndum í starfi. Frá sjö ára aldri var hún staðráðin í því að verða kennari en alls kenndi hún í 25 ár. Síðar varð Hafnarfjarðarbær starfsvettvangur Ingibjargar þar sem hún starfaði á skólaskrifstofu í 20 ár eða frá 1996.

IMG_1844

Skáld keppninnar 2019 voru þau Ævar Þór Benediktsson og Anna Sigrún Snorradóttir. Hér má sjá Ingibjörgu með Ævari.

Hófst sem tilraunaverkefni um upplestur

Stóra upplestrarkeppnin á upphaf sitt í Hafnarfirði veturinn 1996-1997 sem tilraunaverkefni um upplestur en hefur síðan breiðst út um allt land. Keppnin snýst ekki um að komast fyrstur í mark heldur um þjálfun og vanda sig í upplestri. Vandvirkni, virðing og ánægja eru einkunnarorð keppninnar. Í þættinum deilir Ingibjörg með hlustendum kraftaverkasögum um börn sem voru seinlæs en stóðu svo uppi sem sigurvegarar. Börnum af erlendum uppruna hefur einnig vegnað vel í keppninni. Í þættinum spjallar Ingibjörg um upphaf, tilgang og mikilvægi þess að rækta ylhýra íslenska tungu með þjálfun og vönduðum upplestri ásamt því að viðra nýjar hugmyndir um framtíð keppninnar sem hefur haldist nánast óbreytt í nær aldarfjórðung. 

Þessi merkilega keppni hefst ár hvert á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember og lýkur í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi, eða í umdæmi hverrar skólaskrifstofu. Lokahátíðin í Hafnarfirði er ávallt haldin í Hafnarborg í apríl og í ár fer hún fram 26. maí en vegna Covid19 þurfti að færa hátíðina aftur um tvo mánuði. Þess ber að geta að viðtal við Ingibjörgu var tekið upp í mars.

Hlusta á þáttinn:

Hlaðvarpið Vitinn – spjall við áhugaverða einstaklinga sem starfa í þágu bæjarins

Í Vitanum er spjallað við áhugaverða einstaklinga sem starfa í þágu bæjarins. Þannig er tekin fyrir þjónusta sveitarfélagsins, áhugaverð þróunarverkefni og viðfangsefni á fjölbreyttu sviði. Hlaðvarpið opnar á ítarlegri umfjöllun um einstaka verkefni, þjónustu og mál sem eru mikið í umræðunni hverju sinni. Hægt er að nálgast alla þætti Vitans HÉR en einnig á hlaðvarpsveitum á borð við Spotify , Simplecast og Podcast Addict. Unnið er að því að gera Vitann aðgengilegan á fleiri veitum.

Ábendingagátt