Mikil jákvæðni gagnvart hafnfirsku leikskólastarfi

Fréttir

Meginniðurstöður sýna að foreldrar leikskólabarna í Hafnarfirði virðast almennt jákvæðir gagnvart hafnfirsku leikskólastarfi. Hlutfall foreldra sem eru ánægðir með leikskólann hefur farið hækkandi frá því að fyrsta mæling var gerð skólaárið 2017-2018. 

Foreldrar eru mjög jákvæðir í garð leikskóla í Hafnarfirði.
Mat á skólastarfi er virkur þáttur í starfi leikskólanna og hefur mikla vigt fyrir leikskólastarfið. 

Nú liggur fyrir skýrsla Skólavogar sem byggir á niðurstöðum viðhorfskönnunar sem lögð var fyrir foreldra barna í leikskólum Hafnarfjarðar í mars 2020. Niðurstöðurnar gefa bæði ákveðnar vísbendingar um það sem vel er gert og um viðfangsefni og verkefni sem þörf er á að sinna til að efla skólastarfið og vinna að frekari skólaþróun. Könnunin tekur á þáttum í leikskólastarfinu sem snúa að daglegu starfi, námsumhverfi, samskiptum við foreldra, upphafi og lokum skólagöngu og sérstökum stuðningi og sérfræðiþjónustu. Leikskólar Hafnarfjarðar eru 18 talsins og má finna niðurstöður 16 þeirra í skýrslunni (Hamravellir og Hjalli eru undanskildir). Börn á leikskólaaldri með lögheimili í bænum voru 1833 skólaárið 2019 til 2020. Um 1780 þeirra eru í leikskólum bæjarins eða nálægt 97%. Svarhlutfall í könnun var 83,3%.

Skýrsla Skólavogar var kynnt á fundi fræðsluráðs Hafnarfjarðar í gær. Sjá niðurstöður fyrir leikskóla Hafnarfjarðar skólaárið 2019-2020. Á bls. 46 og 47 er að finna samantekt á foreldrakönnun. 

Hlutfall ánægðra foreldra hefur farið hækkandi frá fyrstu mælingu

Meginniðurstöður sýna að foreldrar leikskólabarna í Hafnarfirði virðast almennt jákvæðir gagnvart hafnfirsku leikskólastarfi. Hlutfall foreldra sem eru ánægðir með leikskólann hefur farið hækkandi frá því að fyrsta mæling var gerð skólaárið 2017-2018 en þá var hlutfall ánægðra foreldra 84,5%. Hlutfallið er nú 91,7% og vel yfir meðaltali könnunar sem er 86,4%. Fimmtán þættir könnunar teljast til meðaltals og þrír vel yfir. Töluverður munur er þó á niðurstöðum milli skóla á einstökum þáttum og nauðsynlegt að skoða sérstaklega. Þeir þrír þættir sem teljast vel yfir meðaltali Skólavogar eru: 1) ánægja með leikskólann, 2) stjórnendur eru sýnilegir í daglegu starfi skólans og 3) flutningur milli skólastiga. Samkvæmt niðurstöðum þá snúa helstu áskoranir að hvatningu til þátttöku í starfinu, heimasíðum skólanna og í einhverjum skólum að sýnileika stjórnenda í daglegu starfi.

Alls eru matsþættirnir 21 og flokkaðir í 5 yfirflokka

  • Daglegt leikskólastarf – hlutfall foreldra sem eru ánægðir með leikskólann og telja að stjórnendur séu sýnilegir í daglegu starfi er vel yfir meðaltali Skólavogar. Aðrir þættir teljast við meðaltal og enginn undir. Þessir aðrir þættir snúa að ánægju barns, hæfilegum fjölda barna inn á deild og hollu mataræði.
  • Námsumhverfi: Foreldrar tjá sig jákvætt í þáttunum sem varða námsumhverfi; allir þættir teljast við meðaltal og enginn undir. Nokkur munur er á hlutfalli ánægðra foreldra milli skólanna hvað varðar vinnubrögð og aðstöðu. Aðrir þættir eru félagsleg samskipti og þátttaka án aðgreiningar.
  • Samskipti við foreldra: Allir þættir teljast við meðaltal og enginn sem sker sig úr. Nokkur munur er á hlutfalli ánægðra foreldra milli skólanna hvað varðar upplýsingamiðlun, þekkingu á stefnu og námsskrá skólans og heimasíðu skólans. Aðrir þættir taka til tengsla við starfsfólk skólans, hvatningar til þátttöku í skólastarfinu og tímasetningar viðburða.
  • Upphaf og lok leikskólagöngu: Bærinn er vel yfir meðaltali í þeim þætti sem snýr að flutningi barna milli skólastiga. Aðrir þættir eru við meðaltal. Töluverður munur er á hlutfalli ánægðra foreldra milli skóla hvað varðar leikskólabyrjun og flutning milli deilda.
  • Sérstakur stuðningur og sérfræðiþjónusta: Töluverður munur er milli skóla á hlutfalli barna sem njóta sérkennslu og stuðnings – allt frá 2,9% upp í 35,3%.


Yfirsýn yfir stöðu mála og aðstoð við mörkun umbótaverkefna

Skýrslu þessari er fyrst og fremst ætlað að vera upplýsandi fyrir stjórnendur og starfsfólk leikskóla og jafnframt veita fræðsluyfirvöldum nauðsynlegar upplýsingar um ákveðna þætti leikskólastarfsins í bænum. Skólapúlsinn, sem liður í innra mati leikskóla hentar vel til að fá álit þeirra sem koma að skólastarfinu og mikilvægt er að gaumgæfa þau sjónarmið og viðhorf sem þar koma fram. Tilgangurinn er að skólarnir geti nýtt niðurstöður og samanburð til að sjá hvað vel tekst til og finna sér sóknarfæri og umbótaverkefni. Einnig að aðrir hagsmunaaðilar skólastarfsins, s.s. foreldrar og fræðsluyfirvöld, fái yfirsýn yfir stöðuna og geti lagt sitt af mörkum lögum samkvæmt til að aðstoða skólanna á grundvelli gagna.

Sjá niðurstöður fyrir leikskóla Hafnarfjarðar skólaárið 2019-2020

Ábendingagátt