Kynntu þér göngu- og hjólaleiðir, fjölbreytt íþróttastarf eða sundlaugar bæjarins en frítt er í sund fyrir 18 ára og yngri.
Börn og ungmenni hafa aðgang að góðri menntun, frístund og fjölbreyttum tómstundum.
Praktískar upplýsingar um strætó, sorphirðu, götuhreinsanir, umferð, dýrahald og fleira.
Hafnarfjarðarbær reynir að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi allra íbúa. Kynntu þér hvaða aðstoð er í boði.
Hér er að finna upplýsingar um úrræði fyrir börn og fjölskyldur á vegum Hafnarfjarðarbæjar
Þjónustuverið sinnir margvíslegri þjónustu og upplýsingagjöf fyrir íbúa, fyrirtæki og ferðamenn í Hafnarfirði.
Í Hafnarfirði er menningarhúsið Bæjarbíó, ýmis söfn og reglulegir viðburðir á dagskrá.
Hægt er að gista á hótelum, gistiheimilum eða fjölskylduvænu tjaldsvæði.
Í Hafnarfirði eru margir möguleikar til að létta lundina með útivist og hreyfingu.
Skoðaðu hvaða spennandi viðburðir eru fram undan eða skráðu nýjan.
Hlæðu með álfum og víkingum í menningu bæjarins.
Frá hugmynd að húsi. Allar upplýsingar sem tengjast því að byggja mannvirki.
Skoðaðu teikningar af húsum, lausar lóðir, vatns- eða hitafráveitur, staðsetningar grenndargáma, bekkja, leikvalla og margt fleira.
Upplýsingar um allar lóðir sem eru lausar til úthlutunar.
Kynntu þér hvaða skipulagsmál eru á döfinni í bænum.
Leitaðu eftir starfsfólki eða starfi hjá bænum.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar er skipuð 11 bæjarfulltrúum. Bæjarstjórnarfundir eru öllum opnir og sendir út í beinni útsendingu.
Skoðaðu fundargerðir allra ráða og nefnda bæjarins.
Skoðaðu opið bókhald bæjarins, húsnæðisstefnu og gögn um vefinn á einfaldan og myndrænan máta.
Hér má finna gjaldskrár bæjarins fyrir margs konar þjónustur sem boðið er upp á.
Kynntu þér stjórnskipulag Hafnarfjarðar, ráð og nefndir málaflokka og stefnur þeirra.
Vertu með á nótunum og fylgstu með fréttum, tilkynningum og auglýsingum um starfsemi bæjarins.
Sú skemmtilega hefð hefur skapast að bjóða öllum þeim Hafnfirðingum sem eru 70 ára á árinu til veislu í Hásölum. Hátt í 100 Hafnfirðingar mættu til slíkrar veislu síðastliðinn föstudag.
Sú skemmtilega hefð hefur skapast að bjóða öllum þeim Hafnfirðingum sem eru 70 ára á árinu til veislu í Hásölum. Hátt í 100 Hafnfirðingar mættu til slíkrar veislu síðastliðinn föstudag. Þar fékk hópurinn kynningu á þjónustu Hafnarfjarðarbæjar í þágu eldri borgara , fjölbreyttu félagsstarfi hjá Félagi eldri borgara í Hafnarfirði ásamt því að hlusta á áhugaverðar og skemmtilegar sögur frá fæðingarárinu 1949 frá bæjarminjaverði Hafnarfjarðarbæjar.
Fleiri myndir frá afmæli er að finna á facebook síðu Hafnarfjarðarbæjar
Árið 1949 var á margan hátt merkilegt ár, bæði í mannkynssögunni, Íslandssögunni en einnig hér í Hafnarfirði. Heimurinn var enn að vissu marki að glíma við afleiðingar síðari heimstyrjaldarinnar sem meðal annars kom fram í uppbyggingu og fjárhagsvandræðum víða. Þetta ár var Kínverska Alþýðulýðveldið stofnað þegar herir kommúnista hröktu þjóðernissinna í útlegð til Taiwan. Stríði Indverja og Pakistana lauk með skiptingu Kashmir-héraðs. Nato var stofnað í New York. Ísrael fékk inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar. Sambandslýðveldið Þýskaland, eða Vestur-Þýskaland var stofnað úr hernámssvæðum Bandaríkjamanna, Breta og Frakka og Austurþýska alþýðulýðveldið á hernámssvæði Sovétríkjanna og Sovétríkin gerðu sína fyrstu tilraun með kjarnorkusprengju. Svo eitthvað sé nefnt en sumir telja að stóra uppfinningin þetta ár hafi verið tilkoma hinnar þýsku Currywurst í Berlín.
Á Íslandi var tíðarfarið frekar óhagstætt árið 1949, úrkoma var yfir meðallagi en hitastig undir meðallagi, um vorið var landfastur hafís fyrir norðurlandi og uppskera var almennt frekar léleg. Óhætt er að segja að stærsti einstaki viðburðurinn í Íslandssögunni þetta árið hafi verið innganga Íslands í Nato og þær óeirðir sem fylgdu í kjölfarið. Þetta ár var fyrsta íslenska talmyndin frumsýnd í Gamla bíói en það var kvikmyndin „Milli fjalls og fjöru“ eftir Loft Guðmundsson. Efnahagsástandið á landinu var þungt á þessum tíma, gengisfellingar, innflutningshöft, skammtanir og verkföll algeng sem m.a. varð til þess að ríkisstjórnin sprakk og efnt var til kosninga. Þetta ár var tekin í gagnið nýjung í umferðinni hér á landi þegar götuvitar voru teknir í notkun á fjórum gatnamótum í Reykjavík. Í frétt af þeim viðburði sagði meðal annars: „Tilraunir með vitana gefa vonir um ágætan árangur af þessari nýjung, og byggist það fyrst og fremst á því, að allir vegfarendur hlýði ljósunum til hins ýtrasta. Lögregluþjónar munu verða við vitana til þess að leiðbeina eftir því, sem þörf reynist.“[i] Önnur nýjung sem nefna má og gerð var tilraun með á Íslandi þetta ár, er að þyrlu var flogið í fyrsta sinn á Íslandi árið 1949, eða eins og það fyrirbæri var kallað á þeim tíma: „björgunarflugvél af Helicoptergerð“[ii].
Í Hafnarfirði gerðist líka margt áhugavert á árinu 1949. Íbúar bæjarins voru í ársbyrjun 4.904 en til samanburðar má benda á að nú nýverið náði íbúafjöldi bæjarins 30.000 einstaklingum. Kvikmyndahúsin í bænum voru að venju vinsæl og hófu þau árið á stórmyndum. Í Hafnarfjarðarbíói var fyrsta mynd ársins „Allt í lagi lagsi“ sem auglýst var sem ný og sprenghlægileg með hinum óviðjafnanlegu Abbott og Costello.[iii] Í bæjarbíó var hins vegar sýnd stórmyndin Monsieur Verdoux, „Mjög áhrifarík, sjerkennileg og óvenjulega vel leikin amerísk stórmynd, samin og stjórnað af hinum heimsfræga gamanleikara Charlie Chaplin. Hún var bönnuð innan 16 ára.[iv]Svo við höldum okkur við listina þá kom snemma árs frétt um að Leikfélag Hafnarfjarðar væri að hefja æfingar á nýrri revíu sem sýnd yrði í Bæjarbíói undir vor. Í fréttinni kom fram að revía þessi gerist „á þessum alsíðustu og beztu tímum skömmtunar og svartamarkaðs og tekur til meðferðar ýmis fyrirbæri líðandi stundar. Revýunni hefir að vandlega athuguðu máli verið valið nafnið Gullni vegurinn. /…/ Er þegar ráðið í öll aðalhlutverkin, en stjórn leikfélagsins vill beina því til ungs fólks í Hafnarfirði, sem áhuga hefir á leiklist, að enn þá er óráðstafað í nokkur aukahlutverk. Þarf þetta unga fólk auðvitað að geta sungið eitthvað, eða að minnsta kosti raulað, því að vitanlega er fullt af söngvum í revýunni.“[v]
Brunamál komu inn á borð bæjarstjórnar í lok janúar. Þá lá fyrir stjórninni erindi frá brunamálanefnd bæjarins þar sem lagt var til að keypt yrði vél í nýja brunabílinn vegna þess að sá bíll hefði svo afllitla vél að hann kæmist ekki upp brekkurnar í Hafnarfirði. Auk þessa óskaði nefndin eftir heimild til að yfirbyggja slöngubíl sem keyptur hafði verið af Slökkviliði Reykjavíkur rúmu ári áður en hafði ekki enn verið gerður nothæfur. Um þetta mál var mikið rifist í pólitíkinni en málalok urðu þau að málinu var vísað til bæjarráðs og því falið að heimila kaupin á nýrri vél og jafnframt að gera slöngubílinn nothæfan.[vi]Sumir hlutir voru töluvert einfaldari á þessum tíma en þeir eru í dag. Sem dæmi um þetta má nefna auglýsingu sem var birt í maí 1949 þar sem fram kom að allir bílar og bifhjól úr Hafnarfirði, Bessastaða- , Garða-, Kópavogs- og Seltjarnarneshreppum skyldu mæta til skoðunar við Vörubílastöð Hafnarfjarðar á 11 daga tímabili í byrjun júní.[vii]
Á stríðsárunum var nokkur braggabyggð í Hafnarfirði en þetta ár var unnið að því að fjarlægja þá. Bæjarráð samþykkti á fundi í maí að „gerðar yrðu nú þegar ráðstafanir til að rífa braggann, sem er á gatnamótum Vesturgötu og Merkurgötu svo og pakkhúsræfil er stendur við hlið braggans. Einnig, að aðrir braggar, sem eru orðnir lélegir og eru ekki í nauðsynlegri notkun, verði fjarlægðir úr bænum.“ Eins og það var orðað í fundargerðinni.[viii] Sundlaug Hafnarfjarðar tók til starfa árið 1944. Það er óhætt að segja að allir voru á einu máli um að nauðsynlegt væri fyrir bæjarbúa að koma upp sundlaug í bænum en hún var óyfirbyggð sjólaug. Rekstur laugarinnar gekk illa til að byrja með og aðsóknin að henni var ekki góð. Árið 1949 var brugðist við og farið í endurbætur á lauginni sem fólust meðal annars í því að komið var upp olíukyndingu í stað kolakyndingar. Varð þetta til þess að jafn hiti hélst betur á lauginni og í sturtunum eða eins og sagði í samtíma frétt: „Virðist það ætla að gefast vel og auðvelda að hafa jafnan hita í lauginni, svo að sundgestir þurfa ekki að óttast það, að laugin verði köld eða ekki nógu heitt vatn í sturtunum.“ [ix] Í kjölfarið voru svo birtar auglýsingar þar sem sagði meðal annars „Með hinum nýju hitunartækjum vonum vér að hægt verði að auka hita sundlaugarinnar verulega frá því, sem áður hefur verið. Hafnfirðingar, notið þennan heilsubrunn yðar og syndið í Sundlaug Hafnarfjarðar.“[x]
Eins og áður segir var árið 1949 ár mikilla hafta og skömmtunar og ein birtingarmynd þess var hve erfitt var fyrir fólk að eignast heimilistæki. Í grein sem birtist um mitt sumar þetta ár var vakin athygli á þessu og sagði þar meðal annars: þvottavjelar og önnur heimilistæki nútímans, sjást ekki nje fást hjer á landi, nema á svörtum markaði, eða í happdrættum. Sennilegast, að hvert og eitt einasta heimili, sem þarf að eignast þessi þægindi verði að stofna til síns eigins happdrættis til að fá innflutningsleyfi fyrir gersemunum.[xi] Á þessu varð áhugaverð breyting þetta ár þegar Raftækjaverksmiðjan í Hafnarfirði, RAFHA, byrjaði framleiðslu kæliskápa. Þetta fyrsta ár voru framleiddir um 100 skápar en framleiðslugeta verksmiðjunnar var um 500 skápar á ári en það var þó bundið þeim skilyrðum að gjaldeyrisleyfi fengist til efniskaupa. Kæliskápar þessir voru framleiddir í nánu samstarfi við Electrolux í Svíþjóð en skáparnir voru allir smíðaðir hér á landi og settir saman. Geymslupláss í þessum skápum var 85 lítrar og var það talin stærð sem hentaði öllum almenningi.[xii] Ég hef áður minnst á kvikmyndahúsin í bænum en sú merkilega nýjung kom fram sumarið 1949 í Bæjarbíói að kvikmyndin sem þar var þá sýnd, „Hamlet“, sem valin hafði verið besta mynd ársins 1948, var fyrsta erlenda talmyndin sem sýnd var með íslenskum texta.[xiii]
Miklar framkvæmdir stóðu yfir í Hafnarfirði á vegum bæjarfélagsins sumarið 1949 og störfuðu þá á annað hundrað verkamenn á vegum bæjarins. Þá var m.a. verið að leggja vatnsveitu ofan úr kaldárbotnum niður í bæ, unnið var að lengingu syðri hafnargarðsins, útbúnir voru tveir leikvellir, Sólvangur var í byggingu, Strandgatan var lengd og tengd við Reykjanesbrautina og knattspyrnuvöllurinn á Hvaleyrarholtinu var lagfærður og stækkaður. Auk þessa stóð bæjarfélagið fyrir miklum framkvæmdum í Krýsuvík þetta sumar er snéru að jarðborunum, byggingar- og ræktunar-framkvæmdum þar. Um allar framkvæmdir í Krýsuvík ríkti mikil pólitísk spenna.[xiv] Í tilefni af 25 ára afmæli Hellisgerðis þetta sumar voru settar nýjar reglur fyrir gesti garðsins. Þar kom meðal annars fram að hlaup og leikir voru stranglega bannaðir svo og óp og óhljóð eða annað það er veldur truflun eða hávaða. Börn máttu ekki dvelja í garðinum nema í fylgd fullorðinna og það var bannað að fara inn á grasið með barnavagna eða kerrur svo og önnur farartæki. Gestum var skylt að hlýða í einu og öllu fyrirmælum umsjónarmanns og gat hann vísað gestum burt úr garðinum, ef honum fast ástæða til.[xv]
Haustið 1949 var gerð áhugaverð tilraun í Hafnarfirði þegar sett var upp ný vél í fiskvinnsluhúsi í bænum. Um var að ræða þýska flökunarvél sem sett var upp sem tilraunaverkefni. Skemmst er frá því að segja að þessi tilraun mistókst með öllu þar sem hún var gerð fyrir mun minni fisk en veiddist hér við land. Vertíðarþorskurinn við Ísland var mun stærri en sá sem veiddist suður við Þýskaland og því hentaði vélin ekki hér í Hafnarfirði.[xvi]Önnur nýjung hér í Hafnarfirði árið 1949 var þegar Málningarstofan við Lækjargötu opnaði smurstöð fyrir bifreiðar. Tækin á smurstöðinni voru amerísk og af fullkomnustu gerð en þau höfðu verið pöntuð til landsins fjórum árum áður en afgreiðsla þeirra tafðist um þennan tíma þar sem fjárfestingarleyfið var torsótt. Í frétt af opnun smurstöðvarinnar sagði „Eru húsakynni Málningarstofunnar hin vistlegustu og samsvara fyllilega kröfum tímans. Er það ánægjulegt að þessi starfsemi — að fá bílana smurða með nýtísku aðferðum — er nú framkvæmd hér í Hafnarfirði með slíkum myndarbrag, en áður þurftu bifreiðaeigendur að sækja það til Reykjavíkur, sem hafði mikinn kostnað í för með sér.[xvii]
Íþróttalífið í Hafnarfirði var frekar fábrotið og óáhugavert árið 1949. Þar sem framkvæmdir við knattspyrnuvöllinn höfðu dregist á langinn var sú íþrótt lítið stunduð í bænum þetta ár. FH og Haukar sendu sameiginleg lið undir merkjum ÍBH á Íslandsmótin í karla- og kvennaflokki í handknattleik en báðum liðunum gekk illa. Ljósi punkturinn í íþróttasögu bæjarins þetta árið var Íslandsmet FH-ingsins Sigurðar Friðfinnssonar í tugþraut og endurvakning Sundmeistaramóts Hafnarfjarðar.[xviii]. Um haustið var kosið til Alþingis og var kosningabaráttan hörð í Hafnarfirði. Stóð baráttan einna helst á milli Emils Jónssonar frambjóðenda Alþýðuflokksins og Ingólfs Flygenring frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins. Kosningaþátttakan í Hafnarfirði var mjög góð að þessu sinni, rétt um 92% og fór svo að Alþýðuflokkurinn og Emil höfðu betur og hrepptu þingsæti Hafnarfjarðar. Þess má þó geta að þrátt fyrir þennan sigur Emils þá tapaði flokkurinn töluverðu fylgi frá síðustu kosningum og Sjálfstæðisflokkurinn jók fylgi sitt stórlega, þó ekki nægilega til að frambjóðandi þeirra hlyti kosningu. Skemmst er þó frá því að segja að báðir flokkarnir lýstu yfir sigri, annar fyrir að hreppa þingsætið en hinn fyrir stóraukið fylgi frá síðustu kosningum.[xix]
Þegar líða fór að jólum var birt tilkynning í dagblöðunum um skömmtun á rjóma. Þar sagði: „Jólarjóminn sem seldur verður í mjólkurbúðunum hjer í Reykjavík, í Hafnarfirði og Suðurnesjum á morgun, verður allur skammtaður. Mjólkurskömmtunarreitur nr. 40 verður notaður til rjómakaupa og verður gegn honum afhentur einn desilítri, eftir því sem rjómabirgðirnar endast. Rjóminn kemur allur að norðan og lætur nærri að það sjeu um 7.000 pottar.“[xx]. Að lokum er rétt að segja frá jólamyndunum sem sýndar voru í hafnfirsku kvikmyndahúsunum fyrir jólin 1949. Í Bæjarbíói var sýnd myndin „Írska villirósin“ sem sögð var vera bráðskemmtileg og falleg amerísk söngva- og gamanmynd í eðlilegum litum en í Hafnarfjarðarbíó var sýnd söngvamyndin „Þrjár röskar systur“. Þar var brugðið upp viðkvæmum og torskildum ástarharmi sem leysist þó á skemmtilegan og áhrifaríkan hátt, öllum til ánægju.[xxi]
Fuglaflensa hefur greinst á höfuðborgarsvæðinu. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélagsins hefur samið við Dýraþjónustu Reykjavíkur um að fjarlæga dauða fugla. Meindýraeyðar þurfa staðsetningu…
Drög að nýrri umhverfis- og auðlindastefnu fyrir Hafnarfjörð liggja fyrir. Kallað er eftir þátttöku íbúa í rýni á drögum og…
Ákveðið hefur verið að setja upp tvo nýja ærslabelgi í Hafnarfirði á árinu 2025 á völdum opnum svæðum í bænum…
Alls voru 524 nýjar íbúðir fullbúnar í Hafnarfirði í fyrra. Þær bættust í hóp 11 þúsund íbúða í bæjarfélaginu. Nýjum…
FH, Hafnarfjarðarbær og Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH) hafa tekið höndum saman og bjóða frá 15. janúar fótboltaæfingar fyrir börn í 1.-10.…
Tafir hafa orðið á sorphirðu nú á nýju ári. Ljóst er að tunnurnar verða tæmdar viku á eftir áætlun. Unnið…
Algjörar skvísur verður sú fimmtánda í haustsýningarröð Hafnarborgar. Verkefnið hefur það að markmiði að gefa breiðu sviði sýningarstjóra kost á…
Alls sátu 100 foreldrar PMTO-foreldrafærninámskeið hjá Hafnarfjarðarbæ í fyrra. Foreldrarnir fá kennslu og eru þjálfaðir í styðjandi leiðum í uppeldishlutverki…
Nýr bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Valdimar Víðisson, er með opna viðtalstíma alla þriðjudaga frá kl. 9:30 – 11:30. Viðtalstímar eru bókaðir í…
Hafnarfjarðarbær auglýsir eftir umsóknum um styrki úr húsverndarsjóði Hafnarfjarðar. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að varðveislu og viðhaldi eldri húsa…