Árið er 1953 – hátíðarhöld til heiðurs 70 ára Hafnfirðingum

Fréttir

Um níu ára skeið hefur Hafnarfjarðarbær haldið í þá fallegu og góðu hefð að bjóða til veislu í Hásölum til heiðurs þeim Hafnfirðingum sem sjötugir hafa orðið og verða á árinu. Rúmlega hundrað sjötugir Hafnfirðingar komu saman í Hásölum í gær og hittu þar bæjarstjóra, bæjarfulltrúa, starfsfólk bæjarins, æskuvini, uppeldisfélaga og félaga úr fjölbreyttu félagsstarfi.

Hefð til heiðurs 70 ára Hafnfirðingum

Um níu ára skeið hefur Hafnarfjarðarbær haldið í þá fallegu og góðu hefð að bjóða til veislu í Hásölum til heiðurs þeim Hafnfirðingum sem sjötugir hafa orðið og verða á árinu. Um hundrað Hafnfirðingar hafa þegið boð bæjarstjóra í sameiginlega afmælisveislu ár hvert þessi ár og árið í ár var engin undantekning. Rúmlega hundrað sjötugir Hafnfirðingar komu saman í Hásölum í gær og hittu þar bæjarstjóra, bæjarfulltrúa, starfsfólk bæjarins, æskuvini, uppeldisfélaga og félaga úr fjölbreyttu félagsstarfi. Á fæðingarári afmælisgestanna, 1953, gerðist ansi margt áhugavert. Hafnarfjarðarbær var 45 ára gamalt sveitarfélag með 5.473 íbúa. Norski bærinn Bærum varð vinabær Hafnarfjarðar, Sundhöll Hafnarfjarðar var opnuð við hátíðlega athöfn, Sjómannadagurinn var í fyrsta skipti haldinn heima í Hafnarfirði, hjúkrunarheimilið Sólvangur vígt, vegleg Jónsmessuhátíð haldin í Hellisgerði í tilefni af 30 ára afmælis skrúðgarðsins og næst þyngsta kartafla landsins, 550gr, spratt upp í garði við Suðurgötu 40.

Stundin snýst um samveru umfram allt annað

Dagskrá hátíðarhaldanna er lauflétt enda snýst stundin meira um samveru umfram allt annað. Bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir, opnaði veisluna með hamingjuóskum og þökkum fyrir komuna. Hópurinn fékk kynningu á þjónustu Hafnarfjarðarbæjar í þágu eldra fólks og á fjölbreyttu, hressandi og skemmtilegu félagsstarfi hjá Félagi eldri borgara í Hafnarfirði sem stendur öllum þeim sem orðnir eru 60 ára og eldri til boða. Bæjarminjavörður Hafnarfjörður rifjaði að lokum upp fæðingarárið í máli og myndum við góðar undirtektir enda hafa allir gaman af því að rifja upp gamla tíma. Gestir nutu þess að hlýða á ljúfa tóna Tríós Stefáns Ómars í upphafi veislu, inn á milli atriða og í veislulok.

Fjölbreytt og fyrirbyggjandi heilsueflandi þjónusta

Þjónusta Hafnarfjarðarbæjar til handa eldra fólki hefur hin síðustu ár mótast og þróast markvisst í takt við nýja og breytta tíma og hækkandi lífaldur. Aukin áhersla hefur verið lögð á aukna fyrirbyggjandi og fjölbreyttra heilsueflandi þjónustu sem miðar að því að stuðla að vellíðan og heilsueflingu eldra fólks í Hafnarfirði þannig að þeir geti betur tekið virkan þátt í samfélaginu og búið í sjálfstæðri búsetu sem lengst.

Í fréttum var þetta helst árið 1953

  • Í Bæjarbíói var sýnd í ársbyrjun kvikmyndin „Dæturnar þrjár“ sem var bráð skemmtileg og fjörug ný amerísk dans og söngvamynd í eðlilegum litum. Hafnarfjarðarbíó sýndi á sama tíma kvikmyndina „Orlof í Sviss“ sem var hrífandi fögur og skemmtileg amerísk-svissnesk mynd.
  • Vertíðin fór hægt af stað og sagði í frétt af Hafnarfjarðarbátunum að afli hafi verið heldur tregur og ógæftir bagað mjög alla sjósókn.
  • Verslunarfólk í bænum gerði nýjan kjarasamning sem í grunninn var framlenging á eldri samningi þó með vísitöluhækkunum en í samningnum voru tvær nýjungar, annars vegar var sumarfríið lengt úr 12 virkum dögum í 15 og vinnutíminn styttur þar sem þar voru ákvæði um að sölubúðir mættu einungis hafa opið til kl. 12 á laugardögum en það hafði verið opið til 13 á laugardögum.
  • Atvinnuleysi var með minnsta móti í ársbyrjun. Atvinnuleysisskráning fór fram fyrstu daga febrúar og gáfu sig einungis fram þrír menn, einn 77 ára, einn 68 ára og sá þriðji þrítugur, allt ógiftir menn. Þegar líða fór að vori var atvinna svo mikil í bænum að sárlega skorti verkafólk. Á þeim tíma lönduðu 5 Hafnarfjarðartogarar, 4 utanbæjartogarar og 20 bátar að jafnaði í bænum auk einstaka aðkomubáta. Var brugðist við vandanum með því að fá fjölda siglfirska verkamanna til bæjarins.
  • Þá var mikill menningarviðburður í Bæjarbíói þegar haldnir voru þar stórtónleikar. Það var kór Bandaríska flughersins „The Singing Sergeants“ sem fluttu fjölbreytta efnisskrá en allur ágóði af tónleikunum rann til Elli- og hjúkrunarheimilis Hafnarfjarðar.
  • Samþykkt var í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar að taka boði um vinabæjarsamband við norska bæinn Bærum.
  • Veðurfar í upphafi árs var óvenjulegt og höfðu menn miklar áhyggjur af því að um miðjan mars voru ripstré farin að laufgast og stjúpmæður að springa út í skjólgóðum görðum bæjarbúa. Þá hafði þetta veðurfar einnig áhrif á harðfiskverkun bæjarútgerðarinnar. Látlaus úrkoma vikum saman ógnuðu þá miklu magni af fiski sem búið var að hengja upp á trönur í og við bæinn.
  • Af menningunni var það að segja að um vorið frumsýndi Leikfélag Hafnarfjarðar leikritið „skírn sem segir sex“. Í dómi mátti lesa að leikendur hafi verið 15 og „verður ekki annað sagt, en að þeir fari allir mjög sæmilega með hlutverk sín og margir ágætlega. Vekur það undrun, þegar þess er gætt að hér er aðeins um áhugalið að ræða.“
  • Sextán norðlenskir járniðnaðarmenn frá vélsmiðjunum Odda og Atla komu til Hafnarfjarðar um sumarið til að reisa þar fjóra olíugeyma á nýrri olíustöð Olíufélagsins hf á Hvaleyrarholtinu. Þetta var í fyrsta sinn sem norðlenskir iðnaðarmenn tóku að sér slíkar stórframkvæmdir á Suðurlandi.
  • Veghefill var keyptur til bæjarins þetta ár. Um var að ræða mikla ákvörðun sem flæktist fyrir pólitíkinni en loks var ákvörðun tekin. Nokkur dráttur varð á að fá tækið afhent en upphaflega vonuðust menn til að fá veghefilinn um áramót en það dróst og skilaði hann sér ekki til bæjarins fyrr en um vorið. Hann var þó ekki tilbúinn til notkunar þá strax þar sem fyrst þurfti bílaverkstæði Áætlunarbíla Hafnarfjarðar að annast samsetningu hans.
  • Fram til ársins 1953 voru hátíðarhöld tengd Sjómannadeginum verið sameiginleg fyrir Hafnarfjörð og Reykjavík og farið fram í Reykjavík. Þetta ár var hins vegar tekin ákvörðun um að halda uppá daginn í Hafnarfirði. Það voru Sjómannafélag Hafnarfjarðar, skipstjóra- og stýrimannafélagið Kári og slysavarnardeildin Hraunprýði sem sáu um undirbúninginn. Dagurinn hófst með skrúðgöngu og sjómannamessu en svo tóku við hátíðarhöld á sýslumannstúninu þar sem m.a. var boðið uppá kórsöng, þjóðdansa, reipitog, ræðuhöld, leikfimisýningu og kappróður en um kvöldið voru haldnir dansleikir bæði í Alþýðuhúsinu og Sjálfstæðishúsinu. Gömlu dansarnir voru í Alþýðuhúsinu en nýju dansarnir í Sjálfstæðishúsinu.
  • Sundhöll Hafnarfjarðar var opnuð við hátíðlega athöfn 13 júní. Sundlaugin var tekin í notkun árið 1943 en var þá opin útilaug. Árið 1947 var tekin ákvörðun eftir margra ára umræðu um að byggja yfir laugina en fjárfestingaleyfið fékkst þó ekki frá Alþingi fyrr en árið 1951 og lauk því verki loks árið 1953. Þá um helgina var haldið vígslumót þar sem sundfólk úr Reykjavík keppti við sundfólk úr öðrum landshlutum. Reykvíkingar sigruðu á mótinu en í frétt sagði að „árangur á móti þessu var ekki sérlega góður, og fæst af fólkinu virtist vera í fullri þjálfun“.
  • Alþingiskosningar voru haldnar um sumarið, í þennan tíma var kosið um alþingismann Hafnarfjarðar og voru fjórir í framboði. Emil Jónsson fyrir Alþýðuflokkinn, Eiríkur Pálsson fyrir Framsóknarflokkinn, Ingólfur Flygenring fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Magnús Kjartansson fyrir Sameiningarflokk Alþýðu – Sósíalistaflokkinn. Ingólfur bar sigur úr býtum og varð þingmaður Hafnarfjarðar en Emil Jónsson komst einnig á þing sem landskjörinn.
  • Byrjað var að strengja háspennulínuna frá Sogsvirkjun um sumarið en það var byggingafélagið Þór í Hafnarfirði sem hafði með höndum steypuvinnu og gröft í sambandi við undirstöðu stálturnanna, eins og möstrin voru kölluð, frá Reykjavík og upp að Kolviðarhól.
  • Um sumarið var haldin vegleg jónsmessuhátíð í Hellisgerði en þar var haldið uppá 30 ára afmæli þessa sérkennilegasta og fegursta skrúðgarðs landsins, eins og það var orðað í Morgunblaðinu.
  • Um miðjan ágúst stóð hestamannafélagið Sörli fyrir fyrstu kappreiðum á vegum félagsins þegar vígður var nýr skeiðvöllur félagsins. Hafði félagið nokkru áður fengið land á svokölluðum Réttarflötum við Kaldárselsveg og var völlurinn vígður þann 16. ágúst. Mikið fjölmenni mætti á viðburðinn og voru þar m.a. á annað hundrað manns sem komu í hópferð rá hestamannafélaginu Fáki í Reykjavík.
  • Innan við syðri hafnargarðinn var unnið að nýrri bryggju árið 1953. Bryggja þessi var ætluð stórum skipum og með komu hennar gátu stór olíuskip lagst að bryggju í bænum. Hafnarfjarðarbær hafði fest kaup á 60 metra löngu keri sem var notað við bryggjusmíðina. Var því komið fyrir og steypt ofan á það. Þótti þetta mikil framkvæmd en í Alþýðublaðinu mátti lesa að steypan sem fór í verkið hafi verið álíka mikil og nota mætti í byggingu 20 íbúða.
  • Það þótti svo fréttnæmt að Tímanum sló því upp á forsíðu, að í garðinum við Suðurgötu 40 í Hafnarfirði hafði sprottið kartafla sem vó hvorki meira né minna en 550 grömm. Var talið að þetta væri næst þyngsta kartafla landsins en sú þyngsta vó 650 gröm og hafði komið úr jörðu í Þykkvabæ.
  • Í lok september 1953 komu forsetahjónin, Ásgeir Ásgeirsson og Dóra Þórhallsdóttir, í opinbera heimsókn til Hafnarfjarðar. Tekið var á móti þeim í Hellisgerði þar sem stutt hátíðardagskrá fór fram með ræðuhöldum og tónlist, þar sem Karlakórinn Þrestir og Lúðrasveit Hafnarfjarðar voru í aðalhlutverkum. Þá var farið í heimsókn á elliheimilið, verksmiðju Rafha, Flensborgarskólann, Lýsi og mjöl auk þess sem framkvæmdir við Hafnarfjarðarhöfn voru skoðaðar. Að lokum var móttökuathöfn fyrir forsetahjónin í Alþýðuhúsinu.
  • Þann 25. október var blásið til mikillar hátíðar í bænum en þá var Hjúkrunarheimilið Sólvangur vígt. Gengið hafði verið frá grunni byggingarinnar árið 1946 en byggingarframkvæmdir hófust ári síðar. Húsið var fjórar hæðir og alls um 720 fermetrar. Á fyrstu hæðinni var heilsuverndarstöð og borðstofa, á annarri hæðinni var sjúkradeild fyrir 25 vistmenn og fæðingardeild fyrir allt að 20 sængurkonur. Á þeirri þriðju var pláss fyrir 45-50 vistmenn ásamt samkomusal. Fjórðu hæðinni var skipt í tvennt, í suðurenda voru vistarverur starfsfólksins en í norður enda var pláss fyrir 12 – 15 vistmenn.
  • Annars var það helst að frétta af bæjarmálunum að samþykkt var skipulag fyrir íbúðabyggð á svæðinu fyrir ofan Öldugötu og upp að klaustri Karmelsystra. Þá fór heilbrigðisnefnd bæjarins í herferð gegn rottugangi í bænum. Það sem mér persónulega þótti merkilegast við þetta ár er að 1953 var Byggðasafn Hafnarfjarðar formlega stofnað. Það var þegar bæjarstjórn ákvað í vinnu við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið voru settar 10.000 kr. í stofnun Byggðasafns undir liðnum „Hellisgerði og fleira“. Ástæðan fyrir því að byggðasafnið var sett undir þennan lið var sú hugmynd að færa Sívertsens-húsið, sem átti að hýsa safnið, í Hellisgerði. Helsti hvatamaður að stofnun safnsins var Gísli Sigurðsson, lögreglumaður.
  • Árinu lauk í Hafnarfirði með sýningu jólamynda í kvikmyndahúsunum, í Bæjarbíói var hrífandi ný amerísk dans- og söngvamynd í eðlilegum litum sem bar nafnið „Ástarljóð til þín“. Í Hafnarfjarðarbíói var jólamyndin að þessu sinni Austurrísk músik- og söngvamynd í fögrum litum sem bar nafnið „Stúlkurnar frá Vín“. Þá voru vinsælir jóladansleikir haldnir víða í bænum, haldnir af hinum ýmsu félagasamtökum.
Ábendingagátt