Aukin ánægja með umhverfis- og skipulagsmál á meðal Hafnfirðinga

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hefur um árabil tekið þátt í árlegri þjónustukönnun Gallup. Í könnun er spurt um viðhorf til þjónustu stærstu sveitarfélaga í ýmsum málaflokkum bæði út frá reynslu og áliti. Helstu niðurstöður eru að 88% íbúa eru ánægðir með Hafnarfjörð sem búsetustað, 86% með aðstöðu til íþróttaiðkunar, 81% með gæði umhverfis og 71% með menningarmálin.

Um 90% íbúa ánægðir með bæinn sem sinn búsetustað

Hafnarfjarðarbær hefur um árabil tekið þátt í árlegri þjónustukönnun Gallup. Í könnun er spurt um viðhorf til þjónustu stærstu sveitarfélaga í ýmsum málaflokkum bæði út frá reynslu og áliti. Helstu niðurstöður nýrrar könnunar fyrir Hafnarfjarðarbæ eru að 88% íbúa eru ánægðir með Hafnarfjörð sem stað til að búa á, 86% með aðstöðu til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu, 81% með gæði umhverfis í nágrenni við heimili sitt og 71% með menningarmál bæjarins. Allir þessir þættir og fleiri til skora yfir meðaltali í samanburði sveitarfélaganna.

Þjónustukönnun Gallup 2023

Yfir meðallagi ánægðir með Hafnarfjörð sem búsetustað

Hástökkvarar ársins eru gæði umhverfis í nágrenni við heimili og skipulagsmál almennt sem hækka marktækt milli mælinga. Ánægja með úrlausn erinda lækkar marktækt á milli mælinga en aðrir þættir standa í stað. Hafnarfjörður vermir sæti 4 af 20 í ánægju með bæinn sem búsetustað og sæti 9 af 20 í lykilspurningu könnunar sem dregur saman heildarupplifun af þjónustu sveitarfélaganna. Hækkaði sveitarfélagið þar um 3 sæti á milli mælinga 2021 og 2022 og heldur áfram sæti 9 í ár.

Mat á sveitarfélagi og breyting frá síðustu mælingu

Mat á sveitarfélagi og breyting frá síðustu mælingu

Meðaltöl sveitarfélags í samanburði við sveitarfélög í heild  

Meðaltöl sveitarfélags í samanburði við sveitarfélög í heild

Yfir meðaltali í átta þjónustuþáttum af tólf  

Samkvæmt niðurstöðum Gallup könnunar er Hafnarfjarðarbær yfir meðaltali í samanburði sveitarfélaganna í átta þáttum sem snúa að heildaránægju (72%), ánægju með búsetustað (88%), aðstöðu til íþróttaiðkunar (86%), gæði umhverfis (80%), menningarmálum (71%), þjónustu við barnafjölskyldur (58%), þjónustu við eldri borgara (51%) og skipulagsmálum almennt (53%). Sveitarfélagið er rétt undir meðaltali sveitarfélaganna í fjórum þáttum (0,1 frá meðaltali) sem snúa að þjónustu grunnskóla (65%), þjónustu leikskóla (60%), sorphirðu (57%) og þjónustu við fatlað fólk (45%). Tækifæri til úrbóta liggja víða og þá sérstaklega í þeim þjónustuþáttum sem skora hvað lægst ár hvert innan allra sveitarfélaganna og snúa að þjónustu við fatlað fólk, eldri borgara, sorphirðu og skipulagsmálum og í ár ekki síst hvað varðar úrlausn erinda.

Um þjónustukönnun Gallup

Gallup framkvæmir árlega þjónustukönnun meðal tuttugu stærstu sveitarfélaga landsins til þess að kanna ánægju með þjónustu og gera samanburð þar ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum. Gagnasöfnun fór fram dagana 12. desember 2022 – 23. janúar 2023. Um er að ræða lagskipt tilviljunarúrtak 18 ára og eldri úr viðhorfahópi Gallup. Í Hafnarfirði svöruðu 432 einstaklingar könnuninni. Niðurstöður könnunar gefa hugmynd um ánægju íbúa með ákveðna þjónustuþætti óháð því hvort viðkomandi nýti sér þjónustuna eða ekki. Samhliða fást upplýsingar um þjónustuþætti sem gott væri að rýna betur. Niðurstöðurnar voru birtar á fundi bæjarráðs í morgun.

Fundargerð bæjarráðs frá 9. mars 2023

Ábendingagátt