Ávarp fjallkonunnar og Kvenréttindadagurinn 19. júní

Fréttir

Björk Níelsdóttir er fjallkona Hafnarfjarðar 2024. Björk er fjölhæf listakona, söngkona og tónskáld sem byrjaði ung að árum að læra á trompet hjá Einari Jónssyni í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og hefur ekki slegið slöku við síðan. Björk samdi sjálf ljóðið sem hún flutti í fjölmenni á Thorsplani þann 17. júní – á 80 ára afmælidegi lýðveldisins Íslands. Það er viðeigandi að birta ljóð Fjallkonu Hafnarfjarðar 2024 á sjálfan Kvenréttindadaginn 19. júní.

Björk Níelsdóttir er fjallkona Hafnarfjarðar 2024

Björk Níelsdóttir er fjallkona Hafnarfjarðar 2024. Björk er fjölhæf listakona, söngkona og tónskáld sem byrjaði ung að árum að læra á trompet hjá Einari Jónssyni í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og hefur ekki slegið slöku við síðan. Björk hefur stimplað sig vel inn á listasviðinu bæði hér heima og erlendis með listsköpun sinni og hæfileikum.  Björk samdi sjálf ljóðið sem hún flutti í fjölmenni á Thorsplani þann 17. júní – á 80 ára afmælidegi lýðveldisins Íslands.

Það er viðeigandi að birta ljóð Fjallkonu Hafnarfjarðar 2024 á sjálfan Kvenréttindadaginn 19. júní. Það var þann 19. júní árið 1915 sem konur á Íslandi, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Hefur dagurinn síðan verið tilefni hátíðarhalda og fögnuðar til heiðurs þeirri baráttu sem háð var fyrir auknum réttindum og sjálfstæði kvenna allt frá árinu 1885 þegar baráttan hófst. Aldursákvæði var síðan numið úr lögum með sambandslagasamningi Dana og Íslendinga árið 1918 og konur fengu þar með jafnan kosningarétt á við karla.

Takk Björk fyrir þitt framlag! 

 

Má ég heyra þig syngja
og segja þína sögu ?

varlega stígum við saman
stutt skref
eitt í einu

framhjá bláum boga
lítilli tjörn
grænu túni
og skrýtnum blómastandi

Viltu leiða mig heim ?

framhjá rósastíg
angandi öspum í Hellisgerði
hundaskít á Hverfisgötu
og gamla rauða húsinu mínu

Viltu leiða mig heim ?

framhjá grænni kirkju
við göngum upp á Hamar
og horfum á bát á lygnum sjó.

Viltu leiða mig heim ?

þú andar að þér sjávarlofti
og ég kyssi þig
með salt á vörum
sumarnóttin er í sparifötum

Ég leiði þig heim

Ábendingagátt