Bæjarbúar taki þátt í mótun nýrrar menntastefnu

Fréttir

Hjá Hafnarfjarðarbæ er í mótun ný menntastefna í virku samstarfi allra hagsmunaaðila og áhugasamra sem verður tilbúin á vormánuðum 2020 og gildir í 10 ár. Fanney D. Halldórsdóttir, sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs, segir að skólastefna eigi að vera einföld og sameina grunngildi allra í skólasamfélaginu.

 

Hjá Hafnarfjarðarbæ er í mótun ný menntastefna í virku samstarfi allra hagsmunaaðila og áhugasamra sem verður tilbúin á vormánuðum 2020 og gildir í 10 ár. Fanney Dóróthe Halldórsdóttir, sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs, segir að skólastefna eigi að vera einföld og sameina grunngildi allra í skólasamfélaginu.

„Við þurfum að draga upp sameiginlega mynd af því hvernig skólinn getur litið út í framtíðinni, nokkurskonar draumsýn, sem kemur til með að þróast og breytast í takti við þarfir og áhuga nemenda. Markmiðið er alltaf að efla og styrkja skólasamfélagið í heild til að takast á við krefjandi hlutverk sitt og skapa meira flæði og fjölbreytt skólastarf,“ segir Fanney.

Vilji nemenda og hæfni haldast í hendur

Fanney leggur áherslu á að nemendur séu mikilvægastir í þessu samhengi því þeirra þarfir, vilji og þrautseigja til að ná þeim markmiðum sem þau sjálf setja sér skiptir mestu máli. „Samhliða þarf að skapa og viðhalda áhuga, þekkingu og leikni í hópi starfsmanna, stjórnenda, foreldra og þeirra sem starfa við eflingu og mótun skólasamfélagsins. Menntun á að stuðla að hæfni, félagsmótun og sjálfstæðri hugsun og hlutverk kennara er að halda jafnvægi milli þessara meginþátta og að taka ákvarðanir um kennslufræði, aðferðir og skipulag skólastarfsins. Inn í menntastefnu koma svo lykilþættir eins og forvarnir, lýðheilsa, íþróttir og tómstundir og hún nær utan um starf með öllum börnum; hjá dagforeldrum, leik- og grunnskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, ungmennahúsi og öllum aðildarfélögum innan ÍBH.“

Framtíð og hefðir togast á

Talað er um að skólar endurspegli samfélagið hverju sinni en Fanney segir að þeir séu einnig breytingarafl sem hefur áhrif á samfélagið þegar framtíðin kallar og hefðir toga fast. „Við erum að tala um umbætur til aukinnar vellíðunar og samvirkni. Þær eru á ábyrgð allra sem eru tengjast skólaumhverfinu á einn eða annan hátt. Við, sem komum að uppeldi og menntun barna og unglinga, þurfum að stilla saman strengi okkar og búa til stefnu til framtíðar sem eykur líkur á að fólk komi auga á tækifæri eða ógnanir og geti gripið til nauðsynlegra aðgerða til að stefnan nái fram að ganga. Við viljum endilega heyra í bæjarbúum og allir áhugasamir getað viðrað hugmyndir sínar og skoðanir meðal annars í gegnum samráðsvettvanginn Betri Hafnarfjörð og netfangið menntastefna@hafnarfjordur.is og einnig með virkri þátttöku á fundum næstu vikur og mánuði sem auglýstir verða sérstaklega.“

Viðtal við Fanneyju D. Halldórsdóttir birtist fyrst í Hafnfirðingi

 

Ábendingagátt