Bæjarstjóri fær forskot á nýja flokkunarkerfið  

Fréttir

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar fékk í dag afhenta plastkörfu og bréfpoka undir söfnun matarleifa á sínu heimili. Hún bíður spennt eftir nýju sorpíláti sem afhent verður í hennar hverfi fyrstu vikuna í júní. Rósa hefur um árabil verið öflug í flokkun á sínu heimili og fagnar samræmdu fyrirkomulagi milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Lítill sem enginn lífrænn úrgangur þökk sé hænunum á heimilinu

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar fékk í dag afhenta plastkörfu og bréfpoka undir söfnun matarleifa á sínu heimili. Hún bíður spennt eftir nýju sorpíláti sem afhent verður í hennar hverfi fyrstu vikuna í júní. Rósa hefur um árabil verið öflug í flokkun á sínu heimili og fagnar samræmdu fyrirkomulagi milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hænurnar á heimili hennar sjá til þess að lífrænn úrgangur er yfirleitt lítill og verður lífrænn úrgangur framvegis flokkaður í tvennt. Í tvískipt sorpílát fyrir matarleifar munu einungis fara þær matarleifar sem hænurnar mega ekki borða.  

Þrjár tunnur meginreglan við sérbýli 

Dreifing á tvískiptum sorpílátum undir matarleifar og blandaðan úrgang hefst á Holtinu í Hafnarfirði á mánudaginn. Öll sérbýli í Hafnarfirði fá til eignar eitt nýtt tvískipt ílát fyrir matarleifar og blandaðan úrgang og fjölbýli ný ílát fyrir matarleifar. Við heimili bæjarstjóra bætist við ein slík tunna. Þær tvær tunnur sem fyrir eru verða endurmerktar fyrir plast annarsvegar og pappír hins vegar. „Frá og með breytingunni geta íbúar í Hafnarfirði, líkt og á höfuðborgarsvæðinu öllu, flokkað beint í fjóra flokka við húsvegginn heima hjá sér í ílát undir plast, pappír, matarleifar og blandaðan úrgang. Öðrum flokkum af úrgangi þarf að skila beint í viðeigandi gáma á Sorpu eða í grenndargáma eftir því sem við á,“ segir Rósa. „Ég hvet íbúa til að nýta sumarið vel til að tileinka sér nýja flokkun og finna rétta taktinn.“  Íbúar í Hafnarfirði eru hvattir til að prófa nýtt fyrirkomulag og fjölda tunna í sumar og fram á haustið til að fá sem besta tilfinningu fyrir þörf heimilisins og þá ekki síst að þeirri flokkun sem snýr að pappír og plasti. Sorphirðutíðni mun áfram vera sú sama, á 28 daga fresti fyrir plast og pappír og 14 daga fresti fyrir matarleifar og blandaðan úrgang. Með haustinu verður hægt að kaupa annað tvískipt 240L sorpílát fyrir plast og pappír og skipta út fyrir 240L plastílát og 240L pappírsílát ef slík samsetning og fyrirkomulag er fullnægjandi og  hentar betur.   

Allir íbúar fá nýtt ílát, plastkörfu og bréfpoka 

Dreifing á tvískiptum og nýjum sorpílátum í Hafnarfirði hefst mánudaginn 22. maí á Hvaleyrarholti og lýkur föstudaginn 14. júlí á Völlunum. Allir íbúar í Hafnarfirði munu samhliða fá plastkörfu og bréfpoka. Bréfpokarnir skipta lykilmáli til að hægt sé að vinna nothæfa moltu úr matarleifunum.  

Almennar upplýsingar um nýtt flokkunarkerfi (sorpa.is)

Sértækar upplýsingar fyrir Hafnarfjörð (fjöldi og dreifing)

 

Ábendingagátt