Barnamenning blómstrar – 42 verkefni hljóta styrk

Fréttir

Tvö verkefni tengd Hafnarfjarðarbæ hljóta styrk. Úthlutun Barnamenningarsjóðs Íslands fór fram í gær og hlutu 42 verkefni styrk úr sjóðnum í ár. Sjóðurinn hefur það hlutverk að styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífinu. Hafnarfjarðarbær fékk styrk í verkefnið Bæjarstjórn unga fólksins, hlutverkaleik. Annað verkefni, FLY – Ísland 2, sem tengist þremur grunnskólum í sveitarfélaginu, hlaut einnig styrk.

Barnamenning blómstrar – tvö verkefni tengd Hafnarfjarðarbæ hljóta styrk

Úthlutun Barnamenningarsjóðs Íslands fór fram í gær og hlutu 42 verkefni styrk úr sjóðnum í ár. Þetta var önnur úthlutun sjóðsins sem stofnaður var í tilefni aldarafmælis fullveldisins. Sjóðurinn hefur það hlutverk að styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífinu. Hafnarfjarðarbær fékk styrk í verkefnið Bæjarstjórn unga fólksins, hlutverkaleik sem tengist sýningu listamannatvíeykisins Ólafs Ólafssonar og Libiu Castro sem verður sett upp í Hafnarborg í vetur. Annað verkefni, FLY – Ísland 2, sem tengist þremur grunnskólum í sveitarfélaginu hlaut einnig styrk.

Barnamenningarhatid_hopurBarnamenning blómstrar: 42 verkefni hljóta styrk úr Barnamenningarsjóði Íslands. Mynd: Stjórnarráðið 

Alls bárust 112 umsóknir í ár og er áhersla lögð á að verkefnin mæti fjölbreyttum þörfum barna og ungmenna. Í því skyni er til að mynda horft til aldurs, uppruna, færni, efnahags og búsetu. Þá tekur úthlutun sjóðsins einni mið af áherslu núgildandi menningarstefnu á samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga.

Um Bæjarstjórn unga fólksins

Bæjarstjórn unga fólksins er hlutverkaleikur fyrir einn árgang úr grunnskólum Hafnarfjarðar þar sem unga fólkið setur sig í hlutverk bæjarfulltrúa í einn dag og vinnur með málefni sem þau velja sjálf. Verkefnið tengist sýningu listamannatvíeykisins Ólafs Ólafssonar og Libiu Castro sem verður sett upp í Hafnarborg í vetur þar sem stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er til umfjöllunar en undanfarin 10 ár hafa þau unnið með stjórnarskrána og tjáningarfrelsið í verkum sínum.

Verkefnið stuðlar að lýðræðislegri virkni barna í samfélaginu með virkri tengingu við menningarlíf. Í verkefninu fá börnin tækifæri til þess að kynna sér sýningu þar sem skoðað er hvernig stjórnarskrá og tjáningarfrelsi eru undirstaða lýðræðis í íslensku samfélagi. Í 12. grein Barnasáttmála SÞ er börnum tryggður réttur til að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum er þau varða og í verkefninu verður unnið með raunverulegar hugmyndir þeirra og þeim komið til skila til yfirvalda. Lýðræðisleg vinnubrögð eru í fyrsta sæti yfir það sem ungmennin eiga að öðlast betri skilning á í verkefninu en að auki er markmið verkefnisins að efla skilning nemenda á stjórnskipulagi Hafnarfjarðarkaupstaðar, störfum bæjarstjórnar og lýðræðislegum vinnubrögðum. Fulltrúar í Ungmennaráði Hafnarfjarðar munu vera til ráðgjafar við undirbúning og muni að lokum fullvinna og kynna þær tillögur sem unnið verður með í bæjarstjórn unga fólksins fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Miðað er við að fyrsti hópurinn komi 15. október á degi borgaravitundar og lýðræðis en Evrópuráðið hvetur sveitarfélög í aðildarríkjum sínum til skipuleggja lýðræðisviku í kringum þann dag en sama dag árið 1985 var Evrópusáttmáli um sjálfstjórn sveitarfélaga opnaður til undirritunar.

Um FLY – Ísland 2

FLY – ÍSLAND 2 er framhald verkefnis sem miðar að því að innleiða nýjar kennsluaðferðir á sviði sjónrænnar sögugerðar í grunnskólum. Verkefnið byggir á vinnustofum fyrir kennara og nemendur þeirra, ásamt gerð kennsluefnis og miðlun þekkingar og reynslu af sambærilegu verkefni í Danmörku. Fyrsti hluti verkefnisins fékk stuðning frá Barnamenningarsjóði 2019. Það er Ari Hlynur Guðmundsson Yates í samstarfi við The Animation Workshop/VIA University College í Viborg, Listkennsludeild LHÍ, Lækjarskóla, Setbergsskóla og Hraunvallaskóla í Hafnarfirði, Garðaskóla í Garðabæ, Fellaskóla í Reykjavík og Landvernd sem sótti um styrk í verkefnið.

Þannig hafa nemendur m.a. í Lækjarskóla, Setbergsskóla og Hraunvallaskóla þegar tekið þátt í vinnustofu um stuttmyndagerð með Martin Spenner frá Lommefilm og þar með í þessu alþjóðlega FLY-verkefni sem vill höfða til og nota kvikmyndalæsi í kennslu barna og unglinga. FLY skammstöfunin stendur fyrir Fly Littercy Years. Rekja má uppruna FLY samstarfsverkefnisins til Danmerkur en verkefnið teygir anga sína víða og hefur verið að ryðja sér til rúms á Íslandi síðustu mánuði og ár. Hafin er uppbygging samstarfsnets kennara á Íslandi sem tengist alþjóðlegu neti kennara með það að markmiði að deila aðferðum sem nýta stutt- og hreyfimyndagerð sem verkfæri og aðferðafræði í kennslu. 

Nánari upplýsingar um FLY – verkefnið

Ábendingagátt