Birtir til í rekstri bæjarins

Fréttir

554 milljón króna væntur rekstrarafgangur og útsvar lækkar. Frumvarp að fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2017 liggur nú fyrir. Rekstur ársins 2016 og fjárhagsáætlun 2017 endurspegla skýrt áherslur bæjarstjórnar Hafnarfjarðar á að auka þjónustu, draga úr álögum á íbúa, greiða niður skuldir og fjárfesta í auknu mæli fyrir eigið fé.

 

554 milljón króna væntur afgangur af rekstrinum og útsvar lækkar. 

Frumvarp að fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2017 liggur nú fyrir. Rekstur ársins 2016 og fjárhagsáætlun 2017 endurspegla skýrt áherslur bæjarstjórnar Hafnarfjarðar á að auka þjónustu, draga úr álögum á íbúa, greiða niður skuldir og fjárfesta í auknu mæli fyrir eigið fé.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2017

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 554,4 milljónir króna
  • Skuldaviðmið fer í 141,4%, verður 150,9% í árslok 2016 samkvæmt útkomuspá og var 170% í árslok 2015
  • Áætlað veltufé frá rekstri A-hluta er um 2,4 milljarðar króna og samantekið fyrir A- og B-hluta 3,4 milljarðar króna, sem er um 14,3% af heildartekjum
  • Útsvarsprósenta lækkar úr 14,52% í 14,48%, er í fyrsta skipti um árabil ekki í hámarki
  • Álagningarprósenta fasteignaskatts, holræsa- og vatnsgjalds lækkar á milli ára á íbúðahúsnæði
  • Dvalargjald í leikskóla mun áfram haldast óbreytt fjórða árið í röð
  • Áætluð sala lóða í Skarðshlíð fyrir 1.000 milljónir og sala iðnaðarlóða fyrir 200 milljónir
  • Áætlaðar fjárfestingar samtals að fjárhæð 3.366 milljónir króna
  • Kaup á félagslegum íbúðum fyrir um 200 milljónir króna


Sjá fjárhagsáætlun 2017 

Sjá greinargerð með fjárhagsáætlun 2017

Sjá töflur með helstu niðurstöðum fjárhagsáætlunar 2017 og samanburð milli ára

Aukin þjónusta og minni álögur á íbúa

Fjárhagsáætlun ársins 2017 gerir ráð fyrir að útsvar verði lækkað úr 14,52%, sem er hámarksútsvarsprósenta, í 14,48%. Jafnframt er gert ráð fyrir að álagningaprósenta fasteignaskatts og holræsa- og vatnsgjalds lækki á milli ára á íbúðarhúsnæði þannig að álagning í krónum talið standi nánast í stað eða lækki lítillega þrátt fyrir umtalsverða hækkun fasteignamats. Almennt er gert ráð fyrir breytingum á gjaldskrá fyrir árið 2017 í samræmi við áætlaða vísitöluhækkun eða 3,9% en fjórða árið í röð verða dvalargjöld á leikskólum þau sömu. Hér er um að ræða aðgerðir sem miða að því að draga úr álögum á íbúa þrátt fyrir almennar verðlagshækkanir. Þá er gert ráð fyrir auknum útgjöldum umfram almennar verðlagshækkanir í fjárhagsáætluninni samtals að fjárhæð um 390 milljónir króna. Um er að ræða m.a. aukin framlög til leik- og grunnskóla, fjölskylduþjónustu, menningarmála og umhverfisþjónustu. „Í fyrsta skipti í a.m.k. 18 ár erum við ekki með útsvarið í hámarki. Við munum halda innviðafjárfestingum áfram á nýju ári. Þrjár nýjar félagslegar íbúðir eru nú í kaupferli og gert ráð fyrir 200 milljónum til viðbótar í félagslegar íbúðir á næsta ári. Aukin áhersla verður lögð á fagmenntun og nýsköpun í þjónustu bæjarins, fjölmenningu, bættan námsárangur og snemmtæka íhlutun svo fátt eitt sé nefnt. Viðhaldi hefur verið ábótavant hin síðustu ár og munum við í ár m.a. auka við viðhaldsfé til fasteigna, gatna og göngustíga bæjarins, efla snjómokstur og hálkuvarnir, sópun, sláttur og beðahreinsun“ segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar.

Útkomuspá 2016 gerir ráð fyrir verulegri aukningu í veltufé frá rekstri

Hafnarfjörður er þriðja stærsta sveitarfélag landsins með heildarútgjöld um 23,3 milljarða króna, áætlaðan launakostnað um 11,7 milljarða króna og  áætlaðan fjármagnskostnað um 1,9 milljarð króna. Skuldahlutfall Hafnarfjarðarbæjar verður samkvæmt áætlun 170% í lok árs 2017 en var 194% í árslok 2015 og 202% í árslok 2014.  Útkomuspá gerir ráð fyrir að skuldaviðmið verði í árslok 2016 150,9%. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2017 verður skuldaviðmið 141,4% í lok þess árs. Gangi áætlun eftir er ljóst að skuldaviðmiðið mun fara niður fyrir 150% hlutfallið á árinu 2017. „Hafnarfjörður hefur verið að vaxa í margþættu tilliti. Við munum að öllum líkindum upplifa jákvæða rekstrarniðurstöðu í lok árs 2016, veltufé frá rekstri hefur aukist umtalsvert, engin ný lán hafa verið tekin og við farin að fjármagna framkvæmdir fyrir eigið fé. Við höfum lagt áherslu á að bæta þjónustu við samfélagið og viljum gera enn betur á nýju ári. Spennandi hlutir eru að gerast á sviði ferðaþjónustu í bænum, uppbygging er mikil, íbúum að fjölga og fjölbreytileiki fyrirtækja á svæðinu að aukast“ segir Haraldur.

Umtalsverður halli var á rekstri sveitarfélagsins árið 2015. Rekstrarniðurstaða fyrri hluta árs 2016 var jákvæð um 483 milljónir króna eða 349 milljónir króna umfram áætlun og samkvæmt útkomuspá er ekkert sem bendir til annars en að rekstrarniðurstaða í lok árs 2016 verði jákvæð og veruleg aukning í veltufé frá rekstri gangi eftir. Aðhald og hagræðing hefur skapað svigrúm hjá sveitarfélaginu til frekari framkvæmda á nýju ári. Hér spila tæplega 1.800 starfsmenn sveitarfélagsins heilt yfir stórt hlutverk. “Það er m.a. fyrir faglegt framlag starfsmanna, aðhaldsaðgerðir síðustu mánaða og jákvæðni og framtak íbúa og fyrirtækja í hafnfirsku samfélagi sem rekstur sveitarfélagsins gengur eins vel og raun ber vitni. Þegar allir leggjast á eitt þá verður árangurinn góður“ segir Haraldur að lokum.

Ábendingagátt