112 dagurinn: Börn meðvitaðri og opnari um ofbeldi

Fréttir

112-dagurinn er í dag 11. febrúar. Sjónum að þessu sinni er beint sérstaklega að barnavernd og öryggi og velferð barna og ungmenna. Fjallað er um efnið frá sjónarhorni barna og ungmenna, 112, opinberra aðila, viðbragðsaðila og þeirra sem veita aðstoð í tengslum við barnavernd. 

Öryggi og velferð barna í öndvegi á 112-deginum

112-dagurinn er í dag 11. febrúar. Sjónum að þessu sinni er beint sérstaklega að barnavernd og öryggi og velferð barna og ungmenna. Fjallað er um efnið frá sjónarhorni barna og ungmenna, 112, opinberra aðila, viðbragðsaðila og þeirra sem veita aðstoð í tengslum við barnavernd. Á vef Neyðarlínunnar www.112.is er að finna mikið af fræðslu, bæði ætluð börnum og fullorðnum. Foreldrar og aðrir forráðamenn eru hvattir til að kynna sér efnið og ræða við börnin um mikilvægi þess að þekkja neyðarnúmerið 112. Um leið tengist áherslan vitundarvakningu um ofbeldi í nánum samböndum. 

Bæjarblaðið Hafnfirðingur ræddi um þessi viðkvæmu en mikilvægu mál við Helenu Unnarsdóttur deildarstjóra barnaverndar hjá Hafnarfjarðarbæ.

Helena_barnavend_112

Snemmtækur stuðningur á grundvelli Brúarinnar

Í fréttum á tímum Covid hefur komið fram að tilkynningar til barnaverndar heilt yfir hafa aukist vegna heimilisofbeldis og líka vegna ofbeldis gegn börnum. Á árinu 2020 fjölgaði tilkynningum til barnaverndar Hafnarfjarðar bara örlítið og vill Helena meina að breytt verklag með tilkomu Brúarinnar skipti þar sköpum en jafnframt aukin vitundarvakning. Það sé líka verklagi Brúarinnar að þakka að mörgum málum hjá barnavernd ljúki strax eftir könnun þar sem hægt er að bjóða upp á snemmtækan stuðning á grundvelli Brúarinnar. Með Brúnni hefur stuðningur við börn á leik- og grunnskólaaldri og fjölskyldur þeirra verið efldur og aukin þjónusta veitt á fyrri stigum. Þannig fer af stað ákveðið ferli ef breytingar verða á líðan eða hegðun barna og það í beinu samstarfi foreldra, kennara og annarra fagaðila.

Starfsmaður barnaverndar á brúðuleiksýningu

Árlega eru sýningar í öllum 2. bekkjum grunnskóla þar sem brúðuleikhúsið „Krakkarnir í hverfinu“ í samvinnu við Barnaverndarstofu er með leiksýningu og fræðslu um kynferðislegt, líkamlegt og andlegt ofbeldi í takt við þroska barnanna. „Það á sér stað einhver vitund hjá börnunum þarna þannig að þau skilja betur að ofbeldi á ekki rétt á sér og það á að segja frá því. Við finnum líka að krakkar eru orðnir meðvitaðri og opnari en áður um ofbeldi og líðan. Starfsmaður barnaverndar er viðstaddur hverja sýningu og börnin geta tjáð sig við hann eða kennarann sinn. Þannig að við erum alltaf með tengsl við sýningarnar og í samtali við Barnaverndarstofu,“ segir Helena.

Tilkynninga-hlekkir á vef Hafnarfjarðarbæjar

Börnum sé líka bent á vef Hafnarfjarðarbæjar, en þar er t.d. hægt að smella á hlekkinn „Ég er barn og hef áhyggjur“ og þannig tilkynnt og fyllt út afmælisdag, símanúmer og í hvaða bekk viðkomandi er. „Þar er líka hægt að skrifa smá texta um hvað áhyggjurnar snúast um. Einnig ef þau vita af ofbeldi annars staðar en á þeirra heimili. Auðvitað geta fullorðnir líka sent þarna inn tilkynningu, þar sem hægt er að óska nafnleyndar og eyðublöð bæði á pólsku og ensku. Við megum alveg leyfa okkur að vera forvitin um börn og hagi þeirra,“ segir Helena. Tilkynning til barnaverndar er ekki kæra heldur fremur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn eða fjölskyldu sem tilkynnandi telur að sé mögulega hjálparþurfi. Helena segir að til skoðunar sé hvort settur verði neyðarhnappur á skjáborð spjaldtölva nemenda í 5. – 10 bekkjum grunnskólanna, eins og gert hefur verið í nágrannasveitarfélaginu Kópavogi.

Screenshot-2021-02-04-at-22.35.01

Neyðarvörður og Heimilisfriður

Langflestir Íslendingar þekkja neyðarnúmerið 112, en Helena segir að færri viti að hægt er að setja sig í samband við neyðarvörð á vefnum 112.is. „Einhverjum gæti fundist erfitt, stórt skref eða aðstæður erfiðar til að hringja og þá er hægt að nota netspjall. Svo er til þjónusta sem heitir Heimilisfriður. Það er meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum. Þar er m.a. boðið upp einstaklingsviðtöl og hópameðferðir.“

Screenshot-2021-02-04-at-22.30.20

Einnig sé sérstakt heimilisofbeldisteymi hjá Hafnarfjarðarbæ sem bjóði þolendum og gerendum upp á úrræði og aðstoð. „Stundum þurfa þolendur og/eða gerendur að átta sig á að það er ofbeldi í gangi og það getur tekið tíma. Ofbeldi hefur því miður í tímans rás viðgengist í mörgum fjölskyldum á einhvern hátt en það er orðin meiri vitundarvakning, bæði hjá börnum og fullorðnum og aðgengi að tilkynningum er betra og öll nálgun orðin þægilegri. Fólk gerir sér oft ekki grein fyrir því að það er að beita ofbeldi. Gengur jafnvel í erfðir. Andlegt ofbeldi er mjög lúmskt og grær yfirleitt seint og illa og þá með hjálp sérfræðinga. Það er mikilvægt að halda úti sem flestum möguleikum til tilkynninga og leyfa börnunum að njóta vafans til þess að hægt sé að veita viðeigandi aðstoð sem fyrst ef þess gerist þörf.“

Viðtal við Helenu birtist í Hafnfirðingi 11. febrúar 2021

Ábendingagátt