Börnin teiknuðu og tjáðu líðan sína

Fréttir

Samkomubannið sem tók gildi hér á landi 16. mars sl. hafði víðtæk áhrif á Hafnarfjarðarbæ sem vinnustað. Á örskömmum tíma þurfti að virkja stofnanir í bænum til nýrrar hugsunar og skipuleggja starf hvers vinnustaðar miðað við tilmæli almannavarna. 

Samkomubannið sem tók gildi hér á landi 16. mars sl. hafði víðtæk áhrif á Hafnarfjarðarbæ sem vinnustað og þurfti á örskömmum tíma að virkja stofnanir í bænum til nýrrar hugsunar og skipuleggja starf hvers vinnustaðar miðað við tilmæli almannavarna. 18 leikskólar eru í Hafnarfirði.  Guðbjörg Hjaltadóttir, skólastjóri Hraunvallaleikskóla segir ástandið hafi á endanum þjappað fólki meira saman. 

Bæjarblaðið Hafnfirðingur ræddi við Guðbjörgu á dögunum.  

Endurskipuleggja þurfti allt starf leikskólanna upp á nýtt eftir fund allra leikskólastjóra 15. mars, þar sem línurnar voru lagðar. „Það máttu helmingi færri börn mæta en vanalega og kennarar máttu mæta annan hvern dag, í tvo holl. Við völdum saman börn í holl sem voru vinir og systkini og svo voru leikskólakennarar sem áttu börn á öðrum leikskólum jafnvel beðnir um að starfa þar um tíma,“ segir Guðbjörg. Tveir til þrír kennarar voru á hverri deild með 9-12 börn. Útisvæðinu var skipt upp og engir sameiginlegir kaffitímar fyrir starfsfólk. „Það þurfti að sótthreinsa alla snertifleti og huga að tveggja metra reglunni. Foreldrar máttu ekki koma inn á starfssvæði leikskólans en sóttu og komu börnin í fatahenginu fyrir framan. „Foreldrarnir voru yndislegir og jákvæðir og allir einhvern veginn samhentir um að láta hlutina ganga upp. Svo vorum við með vax- og tússliti fyrir hvort holl og þurftum að taka úr umferð öll tréleikföng, púsl og perlur og slíkt sem ekki var hægt að þrífa nógu vel.

Hraunvallaleikskoli2

Nemendur í Hraunvallaleikskóla eru duglegir að nýta náttúruna í kring til útivistar. Mynd/aðsend

Hraunvallaleikskoli3

Eitt af óskablómunum sem teiknuð voru. Mynd/aðsend

Börnin misjafnlega upplýst

Spurð um viðbrögð barnanna við breyttu fyrirkomulagi í samkomubanninu segir Guðbjörg að sum þeirra hafi verið ótrúlega vel upplýst en önnur voru ekkert að spá í umstangið. „Ein stelpa bað um hanska, bréf og spreybrúsa þegar hún mætti og fór á fullt að sótthreinsa. Börn teiknuðu kórónuveiruna eins og þau sáu hana fyrir sér og algengt var í fjölmiðlum. Sum teiknuðu veiruna í hjartanu og lýstu líðan sinni, að það væri ekki gott að fá kórónu í sig og leiðinlegt að allt væri lokað út af kórónuvírusnum og einni 6 ára fannst leitt að enginn kæmi í heimsókn. Börnin eru svo flink að endurspegla allt í leik sínum jafn óðum,“ segir Guðbjörg.

Hraunvallaleikskoli6Hranvallaleikskoli4Hraunvallaleikskoli5Teikningar af kórónuveirunni eftir börnin. Kórónuveiran í augum barnanna. Mynd/aðsend

Aðeins tvö börn fóru í sóttkví

Af 72 börnum í Hraunvallaleikskóla þurftu aðeins 2 að fara í sóttkví og enginn af 25 starfsmönnum smitaðist af COVID-19. Guðbjörg segir samkomubannið hafa þjappað starfsfólki leikskólans meira saman. „Við urðum enn samrýmdari og höfum líka lært hvað það er gott að hafa vinnu og starfsöryggi. Ég viðurkenni alveg að ég upplifði sjálf smá einmanaleika í starfinu vegna þess að ég hitti ekki eins margt fólk; foreldra og börn. Ég var mikið í undirbúningsherberginu og hitti svo bara mitt holl annan hvern dag og passaði þá upp á 2 metra regluna. Það var því mikill gleðidagur hjá mér 4. maí þegar samkomubanninu var aflétt. Starfsfólkið var líka alveg óttaslegið vegna ástandsins, eins og margir og enginn vildi smita né smitast. Óttinn var viss streituvaldur og það þurfti að taka bara einn dag í einu og þegar ég leit á covid.is daglega var eins og verið væri að skoða hvernig mér gekk á prófi í að halda veirunni í skefjum,“ segir Guðbjörg og bætir við aðspurð að lokum að þetta tímabil hafi m.a. kennt mörgum að nota meira fjarfundabúnaði, því þeir gerðu fundina markvissari. „Það er alltaf leið út úr öllu, þótt hún þyki yfirþyrmandi meðan á svona stendur. Ég er ánægð með hvernig Hafnarfjarðarbær stóð að þessu og ég er stolt af starfsfólki mínu.“

Viðtal við Guðbjörgu var birt í Hafnfirðingi 20. maí 2020 

Forsíðumynd af Guðbjörgu með nemendum: Fremst er Eygló Þurý, Sara Dís, Emilía Ósk, Auður, Guðbjörg, Heiðbjört Halla og Emelía Sól. (Mynd/OBÞ)

Ábendingagátt