Brenna fyrir innleiðingu núvitundar

Fréttir

Veturinn 2017-2018 bauðst Áslandsskóla að taka þátt í rannsóknarverkefni á innleiðingu núvitundar í grunnskólum í samstarfi við Núvitundarsetrið og Embætti landlæknis. Verkefnið var styrkt af Lýðheilsusjóði og markmið þess er að meta árangur innleiðingar núvitundar á líðan, seiglu, almenna stýrifærni (t.d. tilfinningastjórnun og einbeitingu) og núvitundarfærni nemenda og starfsfólks.

Veturinn 2017-2018 bauðst Áslandsskóla að taka þátt í rannsóknarverkefni á innleiðingu núvitundar í grunnskólum í samstarfi við Núvitundarsetrið og Embætti landlæknis. Verkefnið var styrkt af Lýðheilsusjóði og markmið þess er að meta árangur innleiðingar núvitundar á líðan, seiglu, almenna stýrifærni (t.d. tilfinningastjórnun og einbeitingu) og núvitundarfærni nemenda og starfsfólks. Bæjarblaðið Hafnfirðingur hitti  Kristínu Jónu Magnúsdóttur og Hjördísi Jónsdóttur, deildarstjóra i Áslandsskóla, sem halda utan um verkefnið.

Nuvitund7

„Það er mikill hraði í samfélaginu og því afar mikilvægt að nemendur og starfsfólk fái tæki til þess að þjálfa og kyrra hugann. Erlendar rannsóknar hafa sýnt fram á að núvitundarþjálfun auki vellíðan, seiglu og almenna stýrifærni (t.d. tilfinningastjórnun og einbeitingu) hjá nemendum og kennurum og hefur innleiðing núvitundar í skóla reynst jákvæð upplifun bæði fyrir kennara og nemendur. Við erum því afar þakklát í Áslandsskóla að fá að vera þátttakendur í þessu verkefni,“ segja Kristín Jóna og Hjördís, en þær brenna fyrir því að grunn- og leikskólar innleiði núvitund í skólastarfið. Í tengslum við Heilsueflandi samfélag í Hafnarfirði var gerður samningur um að þær færu í leik- og grunnskóla bæjarins með fræðsluerindi um núvitund og innleiðingu Áslandsskóla á henni.

Vinnustofur, námskeið og þjálfun

Rannsóknarverkefnið er til tveggja ára og hófst í janúar 2018. Fyrst var áhersla lögð á núvitundarþjálfun fyrir starfsfólk á 8 vikna MBCT núvitundarnámskeiði og voru 40 starfsmenn sem skráðu sig og 35 sem kláruðu námskeiðið. Einnig fengu þeir kennarar sem kláruðu námskeiðið tækifæri til að sækja þjálfun í kennslu núvitundar fyrir börn og unglinga. Sett var saman teymi til að halda utan um verkefnið og er Bryndís Jóna Jónsdóttir frá Núvitundarsetrinu tengiliður skólans. Boðið hefur verið upp á vinnustofur í núvitund, þjálfun í að leiða núvitundaræfingar og kennsluþjálfun sem byggir á námsefni eftir m.a. Bryndísi Jónu, Söru Silverton og Michael Bready. Að auki fóru kennararnir Kristín Jóna og Hjördís á kennaranámskeið á vegum Núvitundarsetursins og Bangor háskóla í Bretlandi og fengu til þess styrk frá Heilsueflandi samfélagi Hafnarfjarðar. Námið heitir Teacher Training Pathway sem er fagleg kennsluþjálfun fyrir fagaðila í núvitund.

Núvitund innleidd í skólann

Í framhaldi af þessum námskeiðum var hafist handa við að innleiða núvitund í skólann. Annars vegar með því að bjóða nemendum í 7. og 8. bekkjum upp á 8 vikna núvitundarnámskeið, en þessir árgangar eru þátttakendur í rannsóknarverkefninu, og hins vegar innleiða aðferðir núvitundar í almenna kennslu. Einnig fengu forráðamenn kynningu á hvað felst í núvitund og hvernig hægt er að nýta aðferðir hennar í daglegu lífi. Í vetur var ákveðið að setja inn skipulagða núvitundartíma í ákveðna árganga; 3., 4., 5., 7. og 10. bekk og er markmiðið að hvert barn sem fer í gegnum 10 ára skólagöngu í Áslandsskóla fái markvissa kennslu í núvitund í öllum deildum. Að auki eru kennarar að flétta núvitund inn í kennslustundir eins og passar hverju sinni og stefnt er að reglulegum núvitundaræfingum fyrir þá, m.a. til að hlúa betur að sér.

Hjördís Jónsdóttir ræddi núvitund nýlega í Vitanum, hlaðvarpi Hafnarfjarðarbæjar 

Ábendingagátt