Brúin veitir stuðning í nærumhverfi barna

Fréttir

Brúin er verklag sem keyrt hefur verið hjá Hafnarfjarðarbæ síðustu ár. Verklagið hefur stuðlað að aukinni samvinnu kerfa og sviða sem snúa að velferð barna og foreldra þeirra.

Brúin veitir stuðning í nærumhverfi barna og fjölskyldna 

Brúin er verklag sem keyrt hefur verið hjá Hafnarfjarðarbæ síðustu ár. Verklagið hefur stuðlað að aukinni samvinnu kerfa og sviða sem snúa að velferð barna og foreldra þeirra. Forvinna Brúarinnar hófst árið 2016 þegar starfsfólki fjölskyldu- og barnamálasviðs og mennta- og lýðheilsusviðs fannst þörf á aukinni samvinnu og samþættingu á þjónustu þessara sviða. „Starfsfólk sviðanna tók eftir því að stundum var verið að þjónusta sömu fjölskyldurnar út frá ólíkum ástæðum og heildarsýn skorti yfir þau úrræði sem fjölskyldur fengu hjá sveitarfélaginu. Einnig þótti þörf á að finna verklag og aðferðir til að veita stigskipta þjónustu á fyrri stigum,“ segir Eiríkur Þorvarðarson, deildarstjóri á mennta- og lýðheilsusviði.

HuldaEirikur

Hulda og Eiríkur eru sammála um að stigskiptingu úrræða hafi sárlega vantað áður. Með verklagi Brúarinnar er nú hægt að veita úrræði fyrr og án greiningar. Eiríkur og Hulda með teymi fjölskyldu- og stoðþjónustu Brúarinnar sem Hulda er jafnframt hluti af.  FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Í kjölfarið var Hulda Björk Finnsdóttir ráðin inn sem verkefnastjóri Brúarinnar. Þá var sett á laggirnar deild, fjölskyldu- og skólaþjónusta Brúarinnar, sem starfar þvert á bæði sviðin. Ráðgjafar deildarinnar eru með þverfaglegan bakgrunn og styðja við verklag Brúarinnar og veita þjónustu til fjölskyldna á fyrri stigum. Fyrst um sinn tók hluti af leik- og grunnskólunum bæjarins þátt í þróuninni uns skólaárið 2020- 2021 voru allir leik- og grunnskólar farnir að taka þátt í verklaginu.

Brúin milli kerfa, sviða og deilda 

„Verklagið byggir á greiningum og efni frá ólíkum faghópum og stofnunum síðustu áratuga þar sem fram hefur komið að efla þurfi snemmbæran stuðning í nærumhverfi barns svo hægt sé að grípa inn í með vægari úrræðum. Draumurinn er að geta veitt börnum og foreldrum viðeigandi þjónustu og úrræði áður en til greininga kemur,“ segir Eiríkur. „Inni í verklagi Brúarinnar er gert ráð fyrir auknu samstarfi við heilsugæslu fyrir leik- og grunnskólabörn,“ segir Hulda. Stigskipting þjónustunnar skiptir máli Þjónustunni er skipt í þrjár vörður. Undir vörðu eitt er skilgreindur snemmbær stuðningur. Þar veita skólarnir stuðning með sínum úrræðum. „Það má ýmislegt gera fyrst um sinn ef barn er að upplifa áskoranir og vanda í skóla. Það má setja upp þjálfun í kringum nám, viðtöl, gefa barninu aðlagað námsefni, aukna hvatningu og fleira,“ segir Eiríkur.

Ef þörf er á frekari stuðningi er málinu vísað í næstu vörðu þar sem veittur er þverfaglegur stuðningur í gegnum brúarteymi skólanna. Þar sitja fagaðilar á vegum skólans, ásamt viðeigandi ráðgjöfum. Hlutverk brúarteyma er að kortleggja stöðu barns og leita sameiginlegra lausna, barni og fjölskyldu þess til stuðnings. Í brúarteymi eru nám, styrkleikar, hegðun og þroski barns rædd með samþykki foreldra og viðunandi úrræði innan sem utan skóla virkjuð til að bregðast fyrr við. Þessi samþætting þjónustu er alltaf gerð í samráði við foreldra. Þegar þörf er á sérhæfðari stuðningi svo sem greiningu fyrir barnið, er málinu vísað til sálfræðings eða talmeinafræðings. Ef vandinn er orðinn fjölþættari er málinu vísað í vörðu þrjú til barnaverndar.

Byggjum betri brýr

„Með tilkomu Brúarinnar hefur samvinna milli allra hlutaðeigandi aðila aukist. Fleiri úrræði eru í boði og þjónustustigið er fjölbreyttara. Þá bjóðum við upp á aukna fræðslu til skóla eins og um ADHD, kvíða og tengslavanda. Með þessari vinnu viljum við valdefla starfsfólk skóla enn meira og betur til þess að vinna með styrkleika og veikleika barnsins,“ segir Hulda.

„Brúin er heildstætt vinnulag með áherslu á stigskipta þjónustu. Verklag Brúarinnar er í takt við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem tóku gildi um síðustu áramót. Brúin er í stöðugri þróun og endurskoðun innan sveitarfélagsins. Ekki er um tímabundið verkefni að ræða heldur breytta nálgun í þjónustu við börn og fjölskyldur hjá Hafnarfjarðarbæ. Ráðgjafar beggja sviða og stjórnendur skólanna eru sammála um að verklag Brúarinnar stuðli að betri samþættingu á milli kerfa og lausnum á fyrri stigum í málefnum barna. Árangurinn er þannig orðinn áþreifanlegur,“ segir Hulda að lokum.

Viðtal við Huldu og Eirík birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 3. mars 2022.

Ábendingagátt