Byggðasafnið varðveitir sérvíettur um ókomna tíð

Fréttir

„Við skoðum alltaf þegar við tökum við svona gripum hvort þeir hafi sýningargildi. Servíettusafnið frá Jónu Imsland hefur það svo sannarlega,“ segir Björn Pétursson, bæjarminjavörður Hafnarfjarðar. Safninu áskotnaðist á dögunum servíettusafn í fimm stórum bananakössum. Jóna Imsland myndlistamaður gaf safninu kostinn.

Menningin blómstrar í Hafnarfirði. Sagan sögð á byggðasafninu

„Við skoðum alltaf þegar við tökum við svona gripum hvort þeir hafi sýningargildi. Servíettusafnið frá Jónu Imsland hefur það svo sannarlega,“ segir Björn Pétursson, bæjarminjavörður Hafnarfjarðar.

Safninu áskotnaðist á dögunum servíettusafn í fimm stórum bananakössum. Jóna Imsland myndlistamaður gaf safninu kostinn. Hún segir að hún hafi farið að safna þessum sérvíettusöfnum víða að frá konum sem áður söfnuðu þeim til að þessi menning sem helst hafi blómstrað hjá stúlkum og konum gleymdist ekki. Hún sameinaði svo öll servíettusöfnin í eitt og safnaði sögum um þau.

Vill halda minningunni á lofti

„Ég veit ekkert hvernig mér detta hlutir í hug. Þeir bara koma,“ segir Jóna glaðlega spurð hvernig hugmyndin hafi kviknað. En tilgangurinn sé að halda minningu á lofti um þessa stúlknamenningu sem var —  og kvenna sem orðnar eru rígfullorðnar og eru enn að safna. “ Hún gleðst yfir því hvað Björn tók vel í beiðni hennar og sá söfnunargildið í servíettunum.

„Ég var svo glöð hvað hann tók vel í þetta, að taka við þessu. Þegar ég sagði frá þessu á Facebook og var að biðja um sögur, komu svo ofboðslega margir sem kommentuðu á hvað það væri frábært að safnið vildi taka við þessu. Það eru ekki öll söfn sem að líta á þetta sem nokkurn hlut; einhverjar stelpur að safna servíettum. “

Björn Pétursson, bæjarminjavörður Hafnarfjarðar, með einn af fimm kössunum troðfullum af servíettum sem Jóna Imsland safnaði og færði Byggðasafni Hafnarfjarðar.

Stórt safn skreytt sögum

Björn segir að það sem geri servíettusafnið spennandi sé hvað það er stórt og mikið en ekki síst fyrir það að Jóna safnaði sögum kvennanna sem það áttu og söfnuðu sem stelpur. „Þetta er minjavarsla og þjóðfræði. Þessi siður var ríkur á tímabili og okkur ber að halda utan um þá menningu og sögu.“

En hvaðan kemur þessi hefð? „Hún hefur smitað út frá sér, einhver tekið upp á þessu rétt eins og menn söfnuðu leikaramyndum til að býtta. Þetta er hluti af söfnunarmenningu fólks,“ segir Björn og að safninu berist oft gjafir.

„Já, okkur er boðið töluvert af gripum en við segjum nei ef við eigum þá fyrir og fylgjum söfnunarstefnu okkar þar,“ segir hann og brosir. „Allur okkar safnkostur er kominn í gegnum gjafir. Við kaupum enga gripi heldur myndar velvilji samfélagsins safnið og hefur gert í sjötíu ár.“

Jóna lýsir þessari hefð sem hægt og bítandi er að hverfa. „Servíetturnar eru eitthvað ofsalega fallegt, sem hægt er að strjúka skoða, skipta. Tíðarandinn bauð upp á þetta. Svo gleymist svona menning. Margar hafa leyft barnabörnum að leika með safnið sitt en mörg söfnin hafa líka endað í ruslinu eins og annað pappírdót.“

Sögurnar enn að týnast inn

Björn segir ólíklegt að svona ítarlegt servíettusafn finnist annars staðar á landinu. „Það eru til fullt af servíettusöfnum en ég hef aldrei heyrt um viðlíka magn. Fimm svona bananakassar.  Þetta er nú eitt stórt safn úr mörgum söfnum. Sögurnar eru enn að týnast inn, “ segir hann og lýsir hvernig Jóna hafi tekið við söfnunum og flokkað inn í safnið sitt.

Jóna á sitt eigið servíettusafn. Það er geymt í járnkössum í skáp í húsi hennar á Höfn í Hornafirði þar sem hún ólst upp en hún hefur búið í Hafnarfirði síðustu þrjátíu ár. „Já, þær bíða fyrir austan, óflokkaðar, “ segir hún og er ekki hætt að safna sögum þótt hún hafi skilað servíettunum inn á Byggðasafn Hafnarfjarðar.

En hvernig geymast svo servíettur til framtíðar? „Við erum með mjög gott geymsluhúsnæði, fylgjumst með hita og raka,“ segir Björn. „Við erum með strangt aðhald frá safnaráði um hvernig við göngum frá munum. Þær munu varðveitast um ókomna tíð.“

 

Ein servíettusaga sem nú býr á Byggðasafni Hafnarfjarðar:

Dásamlegt  ég á ennþá eina servíettu frá fermingunni minni sem var árið 1971 og er búin að innramma hana og hún er því vel geymd. Ég get alveg sett mína sögu hér:

„Ég byrjaði að kynnast servíettusöfnun austur á Norðfirði þar sem ég fæddist og bjó til 9 ára aldurs, þannig var að allar servíettur voru mjög svo verðmætar því lítið var til af þeim og þær því sparaðar og endurnýttar við hvert tækifæri og við gerðum líka kjóla á dúkkulísur úr þeim og allskyns skraut, engu hent í þá daga.

Ég byrjaði ung að safna servíettum og ég og vinkona mín gengum hús úr húsi að biðja um servíettur, alltaf var vel tekið á móti okkur og við fengum stundum eina eða tvær servíettur, ég átti voða fallegan kassa sem var utan af náttkjól sem mamma hafði fengið í jólagjöf frá pabba ein jólin, hann var gulllitaður með svona plasti í lokinu sem sást í gegnum og þar fengu servíetturnar að dvelja og ég dáðist mikið af þeim og raðaði þeim oft upp og passaði að slétta vel úr þeim, en þó var alltaf skemmtilegast að fara til fullorðinar konu sem bjó í næsta húsi við okkur, hún bauð okkur alltaf inn í kakó og sætabrauð og við fengum að drekka úr fallegum bollum og auðvitað voru servíettur með, í dag eru þessar minningar mér verðmætar og ég passa alltaf vel uppá servíetturnar mínar og þær eiga sér skúffu í skenknum mínum.“ Kær kveðja.

 

 

Morgunblaðið sagði frá söfnun Jónu á dögunum:

 

 

Ábendingagátt