COVID19: Áhrif hertra aðgerða á þjónustu bæjarins

Fréttir

Stjórnskipulag og þjónusta Hafnarfjarðarbæjar mun, þrátt fyrir hertar aðgerðir, haldast óbreytt og miða allar aðgerðir sem fyrr að því að halda úti daglegri starfsemi eins og kostur er og tryggja þá starfsemi og þjónustu sem þarf að haldast órofin á öllum stigum. Áfram er rík áhersla lögð á sóttvarnir á öllum stöðum, fjarlægðartakmarkanir og hólfun þar sem við á. Neyðarstjórn Hafnarfjarðarbæjar er að störfum og fundar reglubundið á meðan neyðarstig og hættustig almannavarna vegna Covid19 veirufaraldursins er í gildi.

Efni uppfært 7. október 2020 í takti við enn hertari aðgerðir. 

Heilbrigðisráðherra staðfesti nú um helgina nýjar reglugerðir um takmarkanir á samkomuhaldi og skólastarfi sem kveða á um hertar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu COVID19. Þessar reglugerðir tóku gildi frá og með miðnætti aðfaranótt 5. október og miðnætti aðfaranótt 7. október og gilda til og með 19. október nk. 

Stjórnskipulag og þjónusta bæjarins haldast óbreytt 

Stjórnskipulag og þjónusta Hafnarfjarðarbæjar mun, þrátt fyrir þessar hertu aðgerðir, haldast óbreytt og miða allar aðgerðir, nú sem fyrr, að því að halda úti daglegri starfsemi eins og kostur er og tryggja þá starfsemi og þjónustu sem þarf að haldast órofin á öllum stigum. Hámarksfjöldi þeirra sem mega koma saman núna er 20 manns og tekur öll viðeigandi starfsemi sveitarfélagsins mið að því. Áfram er rík áhersla lögð á sóttvarnir á öllum stöðum, 2 metra fjarlægðartakmarkanir (frá og með 7.október) og hólfun þar sem við á. Neyðarstjórn Hafnarfjarðarbæjar er að störfum og fundar reglubundið á meðan neyðarstig og hættustig almannavarna vegna Covid19 veirufaraldursins er í gildi.

Áhersla á svörun í síma, með netspjalli, tölvupósti og Facebook

Þjónustuver og þjónustumiðstöð eru opnar á sínum hefðbundna opnunartíma en áhersla er lögð á afgreiðslu erinda í gegnum rafrænar leiðir meðan hertar sóttvarnaraðgerðir standa yfir. Lokað er frá kl. 12-13 í þjónustuveri frá og með 7. október.  Viðskiptavinir eru hvattir til að senda tölvupóst á hafnarfjordur@hafnarfjordur.is, spjalla við starfsfólk í netspjalli á www.hafnarfjordur.is, senda ábendingu í gegnum ábendingagátt eða hringja í s. 585-5500 til að lágmarka sameiginlegan umgang, takmarka umferð og tryggja öryggi allra.  Áhersla er lögð á fjarfundi, hólfun hefur verið tekin upp að nýjan leik á stoðsviðum og fagsviðum og hluti starfsfólks að sinna verkefnum sínum í fjarvinnu.

Upplýsingar um áhrif hertra aðgerða frá og með 5. október á þjónustu sveitarfélagsins 

  • Barnavernd – engin breyting er á þjónustu barnaverndar Hafnarfjarðar.
  • Bókasafn Hafnarfjarðar – söfn Hafnarfjarðarbæjar verða lokuð frá og með 8. október til og með 19. október og öllum viðburðum hefur verið frestað eða aflýst.
  • Byggðasafn Hafnarfjarðar – söfn Hafnarfjarðarbæjar verða lokuð frá og með 8. október til og með 19. október og öllum viðburðum hefur verið frestað eða aflýst.
  • Dagdvöl – dagdvöl á Hrafnistu er opin sem og dagþjálfun í Drafnarhúsi og á Sólvangi. Takmarkanir eru settar á komu annarra en þjónustuþega í húsnæði.
  • Félagsstarf eldri borgara – opið er fyrir félagsstarf eldri borgara  en skráningar krafist í öllum tilfellum þannig að hægt sé að uppfylla fjölda- og fjarlægðartakmarkanir.  Í boði þessa dagana er handverk, píla, listmálun og billjard en öðrum viðburðum hefur verið frestað. Takmarkanir eru settar á komu annarra en þjónustuþega í húsnæði. Grímuskylda. 
  • Frístundaklúbburinn Kletturinn – starfsemin er óskert. Starfsfólki og þjónustunotendum er skipt í sóttvarnarhópa með hólfun og viðeigandi fjölda- og nálægðartakmörkunum.
  • Grunnskólar – engar hömlur gilda hjá börnum sem fædd eru 2005 og síðar heldur einungis hjá eldri einstaklingum. Um þá einstaklinga gildir 20 manna hámarksregla í skólum og eins metra nándartakmörkun. Sama gildir um frístundastarf, íþróttir og tómstundir leik- og grunnskólabarna. Aðgangur fullorðinna er takmarkaður um skólana og foreldrar beðnir um að virða 2ja metra nándarreglu og grímunotkun ef heimsókn í skóla er nauðsynleg.
  • Hafnarborg – söfn Hafnarfjarðarbæjar verða lokuð frá og með 8. október til og með 19. október og öllum viðburðum hefur verið frestað eða aflýst.
  • Hafnarfjarðarhöfn – áhersla er lögð á að halda hafnarsvæðum opnum fyrir komum skipa og þjónustu eins og kostur er til að tryggja aðdrætti til landsins. Hafnarskrifstofa og vigtarhús eru opin fyrir nauðsynlega umferð
  • Leikskólar engar hömlur gilda hjá börnum sem fædd eru 2005 og síðar heldur einungis hjá eldri einstaklingum. Um þá einstaklinga gildir 20 manna hámarksreglan og eins metra nándartakmörkun. Sama gildir um æskulýðsstarf, íþróttir og tómstundir leik- og grunnskólabarna. Aðgangur fullorðinna er takmarkaður um leikskólana og foreldrar beðnir um að virða 2ja metra nándarreglu og grímunotkun þegar verið er að koma og sækja börnin.
  • Lækur – athvarf fyrir einstaklinga með geðrænan vanda. Starfsemin er óskert. 
  • Matarþjónusta eldri borgara – heimsendur matur er í boði fyrir þá sem ekki geta sjálfir séð um matseld í skemmri eða lengri tíma. Matarsendingar alla daga ársins. Opið er í mötuneyti eldri borgara að Hjallabraut 33 og mötuneyti að Sólvangsvegi 1 en skráningar er krafist þannig að hægt sé að uppfylla fjölda- og fjarlægðartakmarkanir.
  • Sorphirða – starfað er samkvæmt dagatali um sorphirðu og er sorphirða á áætlun.
  • Stuðningsþjónusta við eldra fólk – lítil breyting hefur orðið á heimaþjónustu til þeirra sem eru með skráða þjónustu og óska eftir þjónustu. Aðgerðir eru í gangi sem miða að því að koma í veg fyrir einangrun.
  • Sundlaugar og íþróttamiðstöðvar sveitarfélagsins – allar sundlaugar verða lokaðar almenningi frá og með miðvikudeginum 7. október til og með 19. október eða þar til annað er auglýst. 
  • Vinnu- og virknimiðuð stoðþjónusta fyrir fatlað fólk – virknimiðuð stoðþjónusta fyrir fatlað fólk alla virka daga frá 8-17 helst óskert en kvöldstarf fellur niður. Starfsfólki og þjónustunotendum er skipt í sóttvarnarhópa með hólfun og viðeigandi fjölda- og nálægðartakmörkunum.
  • Viðburðir og kynningarfundir. Öllum viðburðum á vegum sveitarfélagsins hefur verið frestað og nær þetta einnig til viðburða innan menningarstofnana. Ef einhverjir viðburðir verða haldnir til og með 19. október þá verða þeir rafrænir. 

Ítarlegar upplýsingar er að finna á síðu sveitarfélagsins um áhrif Covid á starfsemi sveitarfélagsins. 

Á vefnum www.covid.is er að finna uppfærðar og réttar upplýsingar fyrir almenning um Covid19 veirufaraldurinn. Sérfræðingar frá embætti landlæknis uppfæra reglulega „Spurt og svarað“ á síðunni og er bent sérstaklega á þá undirsíðu ef spurningar vakna.

Forðumst mannfjölda og þrengjum hópinn okkar!
Við erum saman á Covid19 vaktinni!

Ábendingagátt