Dagur íslenskrar tungu

Fréttir

16. nóvember er dagur íslenskrar tungu og er dagurinn jafnframt fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar skálds. Ýmislegt gerist á þessum degi í starfi Hafnarfjarðarbæjar og þá sérstaklega í grunnskólunum. Á þessum degi hefst Litla og Stóra upplestrarkeppnin í grunnskólum bæjarins þar sem haldnar eru sérstakar samverur í tilefni dagsins og í tilefni af opnun þessara verkefna

16. nóvember er dagur íslenskrar tungu og er dagurinn jafnframt fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar skálds. Ýmislegt gerist á þessum degi í starfi Hafnarfjarðarbæjar og þá sérstaklega í grunnskólunum. Á þessum degi hefst Litla og Stóra upplestrarkeppnin í grunnskólum bæjarins þar sem haldnar eru sérstakar samverur í tilefni dagsins og í tilefni af opnun þessara verkefna

Sérstök áhersla á upplestur og framsögn

Stóra upplestrarkeppnin er ætluð nemendum í 7. bekkjum og taka nemendur á öllu landinu þátt í keppninni en hún hófst sem þróunarverkefni í Hafnarfirði árið 1996. Keppnin felst í því að allir nemendur í 7. bekkjum leggja sérstaka rækt við upplestur og framsögn fram að lokahátíð keppninnar í Hafnarfirði sem verður haldin 7. mars 2017 í Hafnarborg. Samhliða keppninni hefst einnig smásagnasamkeppni meðal nemenda í 8.-10. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar og verða úrslit kynnt á fyrrgreindri lokahátíð. Einnig hefst á sama tíma samkeppni um mynd á boðskort á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarfirði árið 2017 sem ætluð er nemendum í 6. bekkjum grunnskólanna. Litla upplestrarkeppnin er yngri en sú stóra og er ætluð 4. bekkingum í grunnskólunum. Hún tekur einnig á framsögn og upplestri en er með aðrar áherslur en Stóra upplestrarkeppnin. Nánari upplýsingar má fá hjá grunnskólunum og skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar en á vegum hennar annast Ingibjörg Einarsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar, verkefnisstjórn þessara verkefna.

Plakat með lestrarsendiherrum Hafnarfjarðar

Í dag er einnig kynnt plakat með lestrarsendiherrum Hafnarfjarðar, þeim Fanndísi Friðriksdóttur knattspyrnukonu og Friðriki Dór Jónssyni tónlistarmanni.  Áhersla þess er að hvetja Hafnfirðinga til að lesa, minna sérstaklega ungu kynslóðirnar á mikilvægi lestrar og fyrirmynd hinna fullorðnu í lestri. Plakatinu verður dreift í leik- og grunnskóla bæjarins og aðrar stofnanir bæjarins eins og við á.

Lestrarsendiherrar2016

Orðagull – nýtt málörvunarsmáforrit

Þá fer fram í Hafnarfirði í dag sérstök kynning á nýju smáforriti (appi) sem ætlað er að styrkja orðaforða, vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu og máltjáningu nemenda. Smáforritið byggir á samnefndu kennsluefni, Orðagulli, sem er til í flestum grunnskólum Hafnarfjarðar.  Höfundar kennsluefnisins og smáforritsins  eru talmeinafræðingarnir Ásthildur Bj. Snorradóttir og Bjartey Sigurðardóttir en Ásthildur er jafnframt ráðgjafi á skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar. Þetta verkefni var m.a. styrkt af Minningarsjóði Bjarna Snæbjörnssonar og Helgu, en bæjarfulltrúar tilnefna aðila í stjórn sjóðsins.  Hægt er að nálgast Orðagullsappið í App store frá og með deginum í dag og verður það frítt til niðurhals. Forritið kemur til með að nýtast sem kennsluefni í leik- og grunnskólum og einnig fyrir foreldra.

Ábendingagátt