Dagur íslenskrar tungu er í dag. Til hamingju!

Fréttir

16. nóvember er dagur íslenskrar tungu og er dagurinn jafnframt fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar skálds. Dagurinn hefur um árabil verið afar hátíðlegur og viðburðaríkur og þá sér í lagi í hafnfirskum leik- og grunnskólum. Á þessum degi hefst ræktunarhluti Litlu og Stóru upplestrarkeppninnar auk þess sem mörg önnur skemmtileg verkefni eru sett formlega. 

Til hamingju með daginn!

16. nóvember er dagur íslenskrar tungu og er dagurinn jafnframt fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar skálds. Dagurinn hefur um árabil verið afar hátíðlegur og viðburðaríkur og þá sér í lagi í hafnfirskum leik- og grunnskólum. Á þessum degi hefst ræktunarhluti Litlu og Stóru upplestrarkeppninnar auk þess sem mörg önnur skemmtileg verkefni eru sett formlega. Vegna sérstakra aðstæðna í ár geta skólar ekki haldið upp á daginn líkt og áður, þ.e. í hátíðum innan skólanna þar sem margir bekkir og árgangar eru kallaðir saman á sal. Í stað þess eiga kennarar og nemendur notalegar stundir í eigin bekkjum en nemendur munu eiga kost að heyra frá Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, rithöfundi og teiknara og bæjarlistamanni Hafnarfjarðar 2020, í tilefni dagsins í gegnum fjarfundabúnað.

Sérstök rækt við upplestur og framsögn

Stóra upplestrarkeppnin fer af stað í 25. sinn í Hafnarfirði sem er vagga verkefnisins. Verkefnið varð með árunum að landsverkefni og er nú svo komið að nær allir skólar á landinu taka árlega þátt. Skólaárið 2020-2021 er síðasta skiptið sem Stóra upplestrarkeppnin verður haldin sameiginlega fyrir allt landið og eftir það mun keppnin verða á vegum einstakra sveitarfélaga. Hafnarfjörður mun halda áfram vegferð sinni með keppnina og telur sína ábyrgð vera hér mikla sem upphafsaðili keppninnar á Íslandi.

Stóra upplestrarkeppnin er ætluð nemendum í 7. bekkjum grunnskólanna. Keppnin felst í því að allir nemendur leggja sérstaka rækt við upplestur og framsögn fram að lokahátíð keppninnar sem haldin verður í mars 2021 í Hafnarfirði. Þar mæta til leiks tveir fulltrúar frá hverjum skóla og lesa þar bæði ljóð og texta sem valdir hafa verið af sérstakri nefnd. Allir nemendur í árganginum fá viðurkenningarskjal í lok ræktunartímabilsins. Á Degi íslenskrar tungu hefst einnig smásagnasamkeppni meðal nemenda í 8. – 10. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar og verða úrslit kynnt á fyrrgreindri lokahátíð. Að þessu sinni hafa nemendur val um að skrifa um (1) ógleymanlegan dag, (2) draum eða veruleika eða (3) minningu. Samhliða hefst samkeppni um mynd á boðskort á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar. Samkeppnin er árviss í 6. bekkjum og hefur þátttakan ávallt verið mjög góð og mörg listaverkin hafa skilað sér á boðskortin.

Að verða betri í lestri í dag en í gær

Litla upplestrarkeppnin er nýrri af nálinni en sú stóra og er ætluð 4. bekkingum í grunnskólunum. Hún verður nú sett formlega í ellefta sinn. Keppnin byggir á sömu hugmyndafræði og sú Stóra en er aðlöguð að yngri nemendum. Hún tekur á framsögn og upplestri en er með aðrar áherslur. Þarna eru allir með og hugtakið keppni í þessu verkefni snýst eingöngu um að verða betri í lestri í dag en í gær. Í apríl 2021 eru svo haldnar hátíðir innan skólanna og fá foreldrar sérstakt boð auk þess sem nemendur fá allir viðurkenningarskjal. Þetta þróunarverkefni hófst líka í Hafnarfirði en í dag taka um 3.000 nemendur á landsvísu þátt.

Nánari upplýsingar má fá hjá hverjum skóla fyrir sig og hjá skrifstofu mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar en á vegum hennar annast Ingibjörg Einarsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri, verkefnisstjórn þessara verkefna sem hér að ofan eru kynnt.

Ábendingagátt