Dregið úr takmörkunum á skólahaldi og samkomum

Fréttir

Forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra kynntu á blaðamannafundi í gær næstu skref stjórnvalda vegna Covid-19. Heilbrigðisráðherra gerði þar grein fyrir ákvörðun sinni um tilslakanir á takmörkunum á samkomum og skólahaldi frá og með 4. maí. 

Forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra kynntu á blaðamannafundi í gær næstu skref stjórnvalda vegna Covid-19. Heilbrigðisráðherra gerði þar grein fyrir ákvörðun sinni um tilslakanir á takmörkunum á samkomum og skólahaldi frá og með 4. maí. 

Opnað fyrir hefðbundið skólahald, fjöldamörk hækkuð og 

Í þeim felst m.a. að opnað verður fyrir hefðbundið skólahald í leik- og grunnskólum, unnt verður að opna framhalds- og háskóla á ný með takmörkunum, fjöldamörk samkomubanns verða hækkuð úr 20 í 50 manns, heimilt verður að hefja á ný ýmsa þjónustu, s.s. á hárgreiðslu- nudd- og snyrtistofum, tannlæknar geta tekið til starfa og söfn geta opnað á ný fyrir viðskiptavinum sínum. Ákvörðun ráðherra er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. 

Nýsmitum hefur farið fækkandi

Rúmlega 1700 manns hafa greinst með COVID-19 hér á landi og rúmlega hundrað manns lagst inn á sjúkrahús af völdum sjúkdómsins. Eins og fram kemur í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra hefur nýsmitum farið fækkandi að undanförnu. Telja megi víst að faraldurinn sé í rénun hér á landi sem þakka megi víðtækum samfélagslegum aðgerðum sem gripið hefur verið til. Sóttvarnalæknir bendir á að samfélagslegt smit sé lítið eða innan við 1% samkvæmt sýnatökum Íslenskrar erfðagreiningar. Það þýði að ef slakað er um of á gildandi takmörkunum skapist hætta á að faraldurinn blossi upp aftur. Sóttvarnalæknir leggur því til að slakað verði á takmörkunum í skrefum sem endurskoðuð verði með 3-4 vikna millibili.

Helstu breytingar sem verða 4. maí næstkomandi:

  • Fjöldamörk samkomubanns miðast við 50 einstaklinga í stað 20 áður. Reglur um tveggja metra fjarlægð haldast óbreyttar
  • Skólastarf í leik- og grunnskólum verður með eðlilegum hætti
  • Í framhalds- og háskólum gildir meginreglan um hámark 50 einstaklinga í sama rými
  • Ýmis þjónusta: Hárgreiðslustofur, nuddstofur, sjúkraþjálfun, snyrtistofur, söfn og sambærileg starfsemi geta hafið starfsemi en halda skal 2 m fjarlægð milli viðskiptavina eins og kostur er
  • Heilbrigðisþjónusta: Öll heilbrigðisstarfsemi sem ekki felur í sér valkvæðar skurðaðgerðir eða aðrar ífarandi aðgerðir verður heimil. Tannlækningar verða einnig heimilar
  • Skipulagt íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri verður heimilt utandyra með eftirfarandi takmörkunum: 1) Ekki fleiri en 50 einstaklingar verða saman í hóp. 2) Halda skal tveggja metra fjarlægð eftir því sem það er unnt, einkum hjá eldri börnum
  • Annað skipulagt íþróttastarf er heimilt utandyra með eftirfarandi takmörkunum: 1) Ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman. 2) Snertingar eru óheimilar og halda skal tveimur metrum á milli einstaklinga. 3) Notkun á sameiginlegum búnaði skal haldið í lágmarki en annars skal sótthreinsa hann á milli notkunar

Nokkur atriði sem haldast óbreytt:

  • Undanþágur fyrir efnahagslega mikilvæg fyrirtæki verða óbreyttar
  • Líkt og hingað til verður heimilt að taka á móti 100 einstaklingum í matvöruverslunum og lyfjaverslunum hverju sinni að uppfylltum tilteknum skilyrðum
  • Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar
  • Reglur um skemmtistaði, krár, spilasali og svipaða starfsemi verða óbreyttar og slíkir staðir því áfram lokaði
  • Fyrirmæli landlæknis frá 23. mars sl. um valkvæðar skurðaðgerðir eða aðrar ífarandi aðgerðir haldast óbreytt

Fylgiskjöl:

Ábendingagátt