Ebba Katrín bæjarlistarmaður Hafnarfjarðar 2024
Ebba Katrín Finnsdóttir leikkona er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2024. Ebba Katrín hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir leik á sviði og í sjónvarpi. Hefð hefur skapast fyrir því að halda síðasta vetrardag hátíðlegan í Hafnarfirði með vali á bæjarlistamanni ársins.
Innilega til hamingju Ebba Katrín!
Ebba Katrín Finnsdóttir leikkona er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2024. Ebba Katrín hefur vakið verðskuldaða athygli síðustu misseri fyrir leik á sviði og í sjónvarpi. Hefð hefur skapast fyrir því að halda síðasta vetrardag hátíðlegan í Hafnarfirði með vali á bæjarlistamanni ársins.
„Þetta er heiður sem kveikir í mér að vilja til að gera meira og halda áfram á þessari braut. Algjör innspýting,“ segir Ebba Katrín Finnsdóttir leikkona.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir feril og sigra Ebbu Katrínar hvatning fyrir Hafnfirðinga sem hafi fylgst stoltir með árangri hennar: „Fyrir hönd Hafnfirðinga þakka ég Ebbu Katrínu fyrir framlag hennar til menningarlífsins í Hafnarfirði. Við vonum öll að nafnbótin bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2024 verði henni hvatning til áframhaldandi sigra á leiklistarsviðinu.“
Ebba Katrín starfar við Þjóðleikhúsið og leikur þetta leikárið í Orði gegn orði, Frosti og Ellen B. Leikferillinn verður sífellt lengri. Hún lék meðal annars í Rómeó og Júlíu þar sem hún var einnig einn tónlistarhöfunda. Einnig Uglu í Atómstöðinni-endurliti og fékk hún Grímuverðlaun fyrir. Ebba Katrín lék í Nokkrum augnablikum um nótt, Ást og upplýsingum og Meistaranum og Margarítu.
Ebba Katrín útskrifaðist af leikarabraut Listaháskóla Íslands 2018. Hún starfaði fyrst við Borgarleikhúsið eftir útskrift þar sem hún lék Emmu í Dúkkuheimili 2. hluta, Marínu í NÚNA 2019, Ófelíu og Laertes í Hamlet litla og Filippíu í söngleiknum Matthildi. Hún byrjaði ung að leika og steig fyrst á stokk í Setbergsskóla í Hafnarfirði. Hún gekk í Versló og samdi og setti í kjölfarið upp leikritið Konubörn í Gaflaraleikhúsinu árið 2015. Verk sem hún samdi með hópi kvenna um um vandkvæðin sem fylgja því að vera hvorki barn né fullorðinn, hvorki stelpa né kona.
Hún lék í Mannasiðum á RÚV, í kvikmyndinni Agnesi Joy, þáttaseríunum Venjulegu fólki 2 og 3. Þá hefur hún leikið í stuttmyndunum og Áramótaskaupinu. Síðustu misseri hafa verið gjöful á ferli Ebbu Katrínar. Ekki aðeins hefur hún fengið lofsamlegra dóma fyrir einleikinn Orð gegn orði, sem hún lýsir sjálf sem eldskírn á sviði, heldur kynntist þjóðin henni enn betur á skjánum í þáttaröðinni Húsó.
En hverjir eru hápunktarnir að hennar mati? Jú, Konubörn, Orð gegn orði og Húsó segir hún að standi hæst á ferlinum hingað til.
Ebba Katrín ólst upp í Hafnarfirði og sleit þar barnsskónum. Hún ber menningarlífi í Hafnarfirði gott vitni. Hún er fjölhæf leikkona, bæði í sjónvarpi og á sviði. Þessa dagana er hún til að mynda í upptökum á sjónvarpsþáttaröð Vesturports um Vigdísi Finnbogadóttur.
Við óskum Ebbu Katrínu innilega til hamingju með titilinn með hjartans þökkum fyrir eftirtektarvert framlag í þágu menningarlífsins í Hafnarfirði!
Þau sem hlotið hafa nafnbótina bæjarlistamaður Hafnarfjarðar eru:
2023 – Pétur Gautur, myndlistamaður
2022 – Björn Thoroddsen, gítarleikari
2021 – Friðrik Dór Jónsson, tónlistarmaður
2020 – Bergrún Íris Sævarsdóttir, barnabókahöfundur og teiknari
2019 – Björk Jakobsdóttir, leikkona og leikstjóri
2018 – Björgvin Halldórsson, tónlistarmaður
2017 – Steingrímur Eyfjörð, myndlistarmaður
Ekki voru útnefndir bæjarlistamenn á árunum 2015 til 2016
2014 – Andrés Þór Gunnlaugsson, tónlistarmaður
Ekki voru útnefndir bæjarlistamenn á árunum 2010 til 2013
2009 – Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, söngkona
2008 – Sigurður Sigurjónsson, leikari
2007 – Jónína Guðnadóttir, myndlistarmaður
2006 – Elín Ósk Óskarsdóttir, söngkona
2005 – Sigrún Guðjónsdóttir (Rúna), myndlistarmaður
Við val á bæjarlistamanni Hafnarfjarðar kallar menningar- og ferðamálanefnd eftir tilnefningum bæjarbúa. Árlega berst mikill fjöldi þeirra enda hefur Hafnarförður stimplað sig inn sem vagga menningar og lista.
Hafnarfjarðarbær er þekktur fyrir iðandi menningarlíf sem er drifið áfram af kraftmiklu listafólki þar sem einstaklingurinn sjálfur, framlag hans, sköpun og þátttaka spilar stærsta hlutverkið. Bæjarlistamaður fær 1,5 milljónir í viðurkenningarskyni til að vinna áfram að list sinni.
Já, hafnfirskar kveðjur til þín Ebba Kartrín.