Einföld stafræn lausn fyrir leigu á matjurtagörðum

Verkefnasögur

Við höfum talið mikilvægt hjá Hafnarfjarðarbæ að ýta reglulega út nýjum lausnum, stórum sem smáum, og ein þeirra fór út í sumarbyrjun. Með einfaldri og aðgengilegri lausn er hægt að panta og greiða fyrir leigu á skika til að rækta matjurtir.

Íbúar geta séð skipulag matjurtagarðanna sem eru í boði, valið sér reit sem er laus og greitt fyrir með korti á netinu. Þetta er í raun bara einföld „vefverslun“ þar sem íbúar geta afgreitt sig sjálfir en áður þurfti að sækja um með umsókn í von um að fá garð og greiða svo með millifærslu eða mæta í þjónustuver.

Þetta litla verkefni skiptir ekki miklu máli í stóra samhenginu en er engu að síður mikilvægt því margt smátt gerir eitt stórt. Við megum heldur ekki týnast í stóru verkefnunum sem mörg hver geta tekið 1-2 ár í þróun og framleiðslu. Lítil verkefni á borð við þetta, reiknivélar og sorphirðuuppflettingu bæta þjónustuna, hagræða og auka ánægju íbúa.

Verkefnið átti sér lítinn fyrirvara, við fréttum í vor að vinir okkar í Garðabæ hefðu sett út nýja lausn fyrir pöntun á matjurtagjörðum eða fjölskyldugörðum eins og þeir nefnast í Hafnarfirði. Lausnin tengist Navision bókhaldskerfinu sem við erum með eins og Garðabær og það var auðsótt mál að óska eftir því að fá að nýta sama grunn sem fyrirtækið Wise svo útfærði fyrir okkur á tiltölulega skömmum tíma.

Sveitarfélögin starfa náið saman í stafrænum lausnum sem er gríðarlega mikilvægt því í heildina er stafræn umbreyting mjög kostnaðarsöm og ekki skynsamlegt að reyna að finna alltaf upp hjólið. Við þökkum Garðabæ fyrir frumkvæðið að þessari lausn.

Nánar um fjölskyldugarða

Ábendingagátt