Einstök sýning í undirgöngum við Hörðuvelli

Fréttir

Hátt í sjötíu voru samankomin í undirgöngunum við Hörðuvelli á föstudagseftirmiðdag þegar Byggðasafn Hafnarfjarðar opnaði sýninguna sína Köldu ljósin. Sýningin er komin til að vera og er opin allan sólarhringinn, alla daga vikunnar og það til framtíðar.

Einstök sýning í undirgöngum við Hörðuvelli

Hátt í sjötíu voru samankomin í undirgöngunum við Hörðuvelli á föstudagseftirmiðdag þegar Byggðasafn Hafnarfjarðar opnaði sýninguna sína Köldu ljósin. Sýningin er komin til að vera og er opin allan sólarhringinn, alla daga vikunnar og það til framtíðar.

„Sýningin er tileinkuð starfi Jóhannesar Reykdal sem sannarlega var einn af þeim sem setti sitt mark á Íslandssöguna og sögu Hafnarfjarðar með skapandi hugsun sinni og  framkvæmdagleði,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri við opnunina en stytta af Jóhannesi stendur við Lækinn – rétt ofan við sýninguna.

Þekktur fyrir frumkvöðlastarf sitt

Hún sagði frá því að Jóhannes Reykdal hafi verið einna þekktastur fyrir að vera frumkvöðull í rafvæðingu á Íslandi en þó þekktur í Hafnarfirði fyrir margt annað og fyrir að hafa rutt veginn á svo marga vegu. Hann var fæddur 1874 og því 150 ár liðin frá fæðingu hans.

„Faðir 12 barna, eigandi trésmíðaverkstæðis og síðar rafveitu í Hafnarfirði og eftir að hann seldi fyrirtækin sín hóf hann búskap á Setbergi ofan við Hafnarfjörð árið 1911 þar sem hann beitti hinum ýmsu nýjungum við bústörfin,“ sagði Rósa frá.

„Við Setberg reisti hann að sjálfsögðu sjálfur rafstöð, keypti dráttarvél sem hægt var að tengja ýmis heyvinnutæki við og þá tók hann í notkun mjaltavél á búi sínu, einna fyrstur manna hér á landi.“

Ótrúleg framkvæmdasaga

Jóhannes reisti hann nýtt trésmíðaverkstæði á landareign sinni árið 1920 og sex árum síðar reis þar einnig íshús sem þjónustaði útgerðina í bænum. „Það er því óhætt að segja að saga Jóhannesar og bæjarins tvinnist þétt saman. Auk fjölda húsa sem hann byggði í bænum settu trésmíðaverkstæði hans og síðar rafveitan mark sitt á bæinn,“ sagði Rósa. Svo rakti hún sögu hans enn frekar:

  • Jóhannes var einn af stofnendum Vatnsveitufélags Hafnarfjarðar, varamaður á lista til fyrstu bæjarstjórnarkosninga í bænum 1908, fyrsti slökkviliðsstjóri bæjarins og fyrsti formaður í stjórn Fríkirkjusafnaðarins í Hafnarfirði svo eitthvað sé nefnt.
  • Sýningin Köldu ljósin fjallar um tímamótin þegar fyrsta almenningsrafveitan á Íslandi var tekin í notkun í Hafnarfirði árið 1904 og fyrstu húsin þá raflýst. Síðan eru liðin 120 ár. Talið er að fyrsta raflýsingin í desember 1904 hafi náð til fjögurra ljósastaura og rafmagn hafi verið leitt í 16 hús. Í sýningarrýminu er búið að endurskapa trésmiðju Jóhannesar og með gagnvirkum og táknrænum hætti verður kveikt á fyrstu húsunum sem fengu rafmagnið í Hafnarfirði árið 1904. Forsagan er að Jóhannes flutti inn rafal frá Noregi þetta sama ár til að rafvæða trésmiðju sína og fékk í framhaldinu færa menn til að leggja einnig rafmagn í nokkur hús
  • Jóhannes Jóhannesson Reykdal reisti þessa stöð við Hörðuvelli. Hann reisti rafstöðina einn og óstuddur og sá um rekstur hennar til ársins 1909. Þá keypti Hafnarfjarðarbær rafstöðina.
  • Sýningin Köldu ljósin verður aðgengileg alla daga ársins allan sólarhringinn og er það snjöll og skemmtileg að gestirnir sjá sjálfir um að virkja sýninguna með því að toga í spotta og tendra virknina. Gangandi og hjólandi umferð um þessar sögulegu slóðir er mikil og ég sannfærð um að sýningin mun gleðja gesti og gangandi og festa söguna um merkan frumkvöðul enn frekar í sessi.

Metnaðarfull sýning

Rósa sagði óhætt að segja að draumur um sýningu á þessum sögulega stað sé loksins orðinn að veruleika. „Sýningin er metnaðarfull og frábær viðbót við sýningarhús og sýningarstaði Byggðasafns Hafnarfjarðar sem voru allt til dagsins í dag sjö, nú átta með þessari nýju sýningu. Mikilvægi þessara sýninga Byggðasafnsins er ótvírætt fyrir skrásetningu á sögu Hafnarfjarðar og í þeirri vegferð að færa söguna áfram með sýnilegum og áhugaverðum hætti kynslóða á milli. Bestu þakkir til allra þeirra sem lagt hafa hönd á plóg við gerð og uppsetninguna,“ sagði hún.

„Ég hvet ykkur til að koma hingað sem oftast og taka gesti með. Ég hvet ykkur líka til þess að heimsækja Jólaþorpið nú á aðventunni, Hellisgerði og gefa ykkur stund til að njóta alls þess sem jólabærinn hefur upp á að bjóða,“ sagði hún og hvatti viðstadda til að njóta aðventunnar í Hafnarfirði.

 

 

 

Ábendingagátt