Eiríkur Smith

Fréttir

Látinn er á 92 aldursári listmálarinn og Hafnfirðingurinn Eiríkur Smith. Framlag Eiríks til lista í Hafnarfirði er ómetanlegt og mun hans verða minnst sem merks listamanns sem sannarlega setti svip sinn á hafnfirska menningu og listir.

Látinn er á 92 aldursári listmálarinn og Hafnfirðingurinn Eiríkur Smith. Eiríkur fæddist árið 1925 og ólst upp í Straumi við Straumsvík fyrstu árin. Fjölskyldan fluttist inn til Hafnarfjarðar árið 1931 og bjó Eiríkur í Hafnarfirði nær alla tíð síðan. Hann byrjaði snemma að teikna skip og báta á pappír sem honum áskotnaðist. Teikningar hans vöktu athygli og fékk hann hvatningu frá kennurum sínum í Barnaskóla Hafnarfjarðar til að hlúa að þessum hæfileika. Til er einstök ljósmynd frá þessum tíma sem sýnir bekkjarstofu Eiríks skreytta myndum eftir hann. Eiríkur fór ungur að árum út á vinnumarkaðinn. Áhugi hans á myndlist var þó aldrei langt undan og stundaði hann samhliða vinnu námskeið og sýningar. Árið 1946 hóf  hann nám við Handíða- og myndlistarskólann og tveimur árum síðar, 1948, hélt hann fyrstu sýningu sína í Sjálfstæðishúsinu í Hafnarfirði. Hann stundaði myndlistarnám í Kaupmannahöfn og París en nam einnig prentmyndasmíði við Iðnskólann í Hafnarfirði.  Eiríkur vann lengst af að list sinni í Hafnarfirði. Hann fékk aðstöðu í Barnaskólanum og síðar í Flensborg. Eftir að hann byggði sér hús við Stekkjarkinn á 6. áratugnum, ásamt Bryndísi Sigurðardóttur eiginkonu sinni, var hann ætíð með vinnustofu heima. Um 1990 byggðu þau sér glæsilegt hús í Setberginu í Hafnarfirði með bjartri og rúmgóðri vinnustofu sem gerði Eiríki mögulegt að vinna stærri olíumálverk en áður. Eiríkur er einn stofnfélaga í Golfklúbbnum Keili og var síðar stofnfélagi í klúbbnum Setbergi í Hafnarfirði. Merki beggja klúbba eru frá honum komin.

Vígslusýning  Hafnarborgar þann 21. maí 1988 var einkasýning Eiríks. Sýnd voru 33 olíumálverk, þar af nokkur mjög stór, og 33 vatnslitamyndir frá árunum 1983−88. Þá voru liðin 40 ár frá því Eiríkur opnaði fyrstu einkasýningu sína í Sjálfstæðishúsinu. Viðfangsefni Eiríks á sýningunni 1988 var samband manns og náttúru en einnig þau öfl sem eru ofar skilningi mannsins. Eiríkur gaf Hafnarborg, listasafni Hafnarfjarðar, veglegt safn verka. Alls 341 verk, 115 málverk og 226 verk unnin á pappír, svo sem vatnslitaverk, pastel og teikningar sem spanna allan feril listamannsins, það elsta frá 1948. Gjöfin var mikilvæg lyftistöng fyrir safneign Hafnarborgar og hefur safnið sett upp fimm sýningar undanfarin ár sem sýna margbreyttan feril þessa athafnasama og merka listamanns.  Á nýársdag 2005 var Eiríkur sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar fyrir störf í þágu myndlistar og á 100 ára afmælisdegi Hafnarfjarðarkaupstaðar, þann 1. júní 2008, var hann útnefndur heiðurslistamaður Hafnarfjarðar. Framlag Eiríks Smith til lista í Hafnarfirði er ómetanlegt og mun hans verða minnst sem merks listamanns sem sannarlega setti sinn svip á hafnfirska menningu og listir.

Fyrir hönd bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og starfsmanna sendi ég Bryndísi Sigurðardóttur, eftirlifandi eiginkonu hans og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Haraldur L. Haraldsson,
bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar

Ábendingagátt