Endurbygging Hrauna – vestur

Fréttir

Umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðarbæjar efndi til kynningarfundar þann 16. júní s.l. um fyrirhugaða vinnu við deiliskipulagsgerð á reit, sem afmarkast af Fjarðarhrauni, Reykjavíkurvegi og Flatahrauni. Fundurinn var vel sóttur og mikill áhugi fyrir breytingum og uppbyggingu á svæðinu.  

Umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðarbæjar efndi til kynningarfundar þann 16. júní síðastliðinn um fyrirhugaða vinnu við deiliskipulagsgerð á reit, sem afmarkast af Fjarðarhrauni, Reykjavíkurvegi og Flatahrauni. Á fundi var meðal annars farið yfir skipulagslýsingu fyrir svæðið, staðhætti og byggð og aðalskipulag. Fundurinn var vel sóttur og mikill áhugi fyrir breytingum og uppbyggingu á svæðinu.  

Hraunin – vestur byggðust á sínum tíma upp sem iðnaðarhverfi en nú hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði í hyggju að reisa þar blandaða byggð fyrir léttan iðnað, þjónustu og íbúðir. Samhliða stendur til að þétta byggð á hluta svæðis enda byggingar sumar hverjar illa farnar og landnýting léleg. Rík áhersla er lögð á samráð og samstarf við lóðarhafa í þessari vinnu og stendur til að mynda 3-5 manna starfshóp hagsmunaaðila/lóðarhafa á svæðinu til samráðs á meðan verkefnið stendur yfir. Hugmyndafræði nýs svæðisskipulags byggir á hugmyndafræði höfuðborgarsvæðisins og samstarfi sveitarfélaga á stór-höfuðborgarsvæðinu þar sem áhersla er lögð á að íbúðabyggð vaxi inn í byggð sem fyrir er og þétting eigi sér stað meðfram samgönguási almenningsvagna/lesta, svokallaðrar Borgarlínu, sem áætlað er að fari um m.a. framhjá Hraununum í Hafnarfirði.

Hugmyndir, forsendur og markmið

Skipulagslýsing fyrir nýtt deiliskipulag vestur hluta Hraunanna var nýlega samþykkt af skipulags- og byggingarráði auk þess sem rammaskipulag fyrir svæðið frá 2008 verður nýtt til grundvallar við skipulagsgerð. Lagalegt umhverfi skipulagsgerðar er ákveðið ferli sem tekur tíma og mikilvægt að heildarskipulag liggi fyrir áður en hafist er handa við framkvæmdir. Þormóður Sveinsson, skipulagsfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar lagði í kynningu sinni á fundi fram hugmyndir um framtíðarsýn og meginmarkmið hins nýja deiliskipulags, þ.e. að þétta byggð á svæðinu, auka gæði umhverfis og breyta landnotkun að hluta úr athafnasvæði í blandaða byggð með fjölgun íbúða í samræmi við stefnu aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013 – 2025.

Glærukynningu frá fundi er að finna hér  

Margir aðilar tóku til máls á fundinum og virtust fundarmenn almennt vera bæði áhugasamir og jákvæðir í garð þeirra áforma og hugmynda sem fram komu í kynningunni. Fundarmönnum gafst kostur á að skrá sig í áhugamannahóp um endurgerð byggðar í Hraunum – vestur.

Hér koma nokkrir punktar frá áhugasömum á fundi:

  • Bent á að nægt framboð sé af iðnaðarsvæðum í Hafnarfirði sem gætu tekið við þeim iðnaðarfyrirtækjum sem koma til með að víkja af svæðinu
  • Spurt hvort til stæðu svipuð áform um Hraunin – austur. Fram kom að mjög líklega myndi það svæði verða deiliskipulagt í kjölfar Hraunanna – vestur
  • Bent á um margt sambærilegt verkefni í Vogabyggð í Reykjavík, þar fór samráð við lóðarhafa of seint af stað
  • Bent á að þeir sem komi til með að hagnast mest af endurbyggingu svæðisins séu lóðarhafar vegna mikillar verðmætaaukningar sem skapast við þéttingu byggðarinnar
  • Eigandi á svæðinu lýsti ánægju yfir áformum í Hraununum, vonaðist til að fjárfestar sæu sér hag í að kaupa landsvæði til uppbyggingar. Sagði hluta svæðisins vera í niðurníðslu
  • Bent á að í Reykjavík sé íbúðum úthlutað annars vegar til félagslega umhverfisins – hins vegar til útleigu. Fram kom að í Hafnarfirði hafi ekki verið tekin afstaða til þessa enn sem komið er
  • Spurt var um tímaramma verkefnisins. Í skipulagslýsingu kemur fram að til að byrja með verði nokkrir skipulagshönnuðir ráðnir til tillögugerðar um þróun og hugmyndir að uppbyggingu svæðisins, í kjölfarið verði ráðist í deiliskipulagsgerð. Ef allt gengur upp má reikna með að framkvæmdir gætu hafist um mitt næsta ár, en ferlið gæti tafist vegna ófyrirséðra þátta.
  • Umferðarmál komu til tals, bent á að ákveðnir umferðarþættir séu í ólestri hvað varðar aðkomu og gatnamót. Tryggja þarf öryggi og vanda til í undirbúningi, einnig tryggja valkosti í samgöngumáta.
  • Bent á að Hafnarfjörður standi vel gagnvart þéttingarverkefnum – bærinn sé vel settur með innviði, t.d. hvað varðar pláss í grunnskólum.

 

Ábendingagátt