Þrjú erindi frá Hafnarfjarðarbæ

Fréttir

Fjöldi áhugaverðra erinda voru flutt á árlegri fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2016 sem fram fór dagana 22. – 23. september. Þar á meðal komu þrjú erindi úr ranni starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar, erindi sem sneru að einkaframkvæmdum sveitarfélaga, fjölskylduþjónustu og fræðsluþjónustu og byggðu á reynslu og áralangri þekkingu í málaflokkunum.

Fjöldi áhugaverðra erinda voru flutt á árlegri fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2016 sem fram fór dagana 22. – 23. september. Þar á meðal komu þrjú erindi úr ranni starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar, erindi sem sneru að einkaframkvæmdum sveitarfélaga, fjölskylduþjónustu og fræðsluþjónustu og byggðu á reynslu og áralangri þekkingu í málaflokkunum.

Haraldur L. Haraldsson,  bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar hefur til fjölda ára komið að greiningu og rekstri sveitarfélaga vítt og breitt um landið og býr að yfirgripsmikilli þekkingu á sviðinu.  Á fjármálaráðstefnu var hann fenginn til að ræða um einkaframkvæmdir innan sveitarfélaganna og hvað það er sem ber að varast í þeim efnum.  Í erindi hans kom fram að níu af tíu skuldugustu sveitarfélögum landsins miðað við skuldahlutfall árið 2011 áttu það sammerkt að vera með eða hafa verið með samninga um einkaframkvæmd. Hann benti sérstaklega á það að margt beri að varast við slíka samninga. Sveitarfélög með nokkuð gott skuldahlutfall, skuldahlutfall undir 150%, fái t.a.m. líklega betri lánafyrirgreiðslur en einkafélög með tilheyrandi lækkun á vaxtakostnaði. Samningsstaða þjónustuaðila sé líka yfirleitt þjónustusala í vil, samningstími langur og yfirleitt óuppsegjanlegur þrátt fyrir breyttar forsendur og stöðu á markaði. Þannig séu sveitarfélög oft bundin í óhagstæðum aðstæðum sem þau eiga erfitt með að losa sig úr. Slíkt getur haft mikil langtímaáhrif á reksturinn. Ákvæði um eignarhald í lok samningstíma sé líka oft ábótavant og því getur sveitarfélag lent í því að þurfa að greiða fjárfestinguna aftur. Nauðsynlegt sé að opna á það að samningar um einkaframkvæmd séu með endurskoðunarákvæði á samningstíma ef forsendur breytast. Eins þarf framsal réttinda að vera skýrt í samningum og skilyrði um veðsetningu ströng. Þannig á verkkaupi að hafa heimild til að neita veðsetningu á þeim eignum sem um ræðir hverju sinni og vera að fullu meðvitaður og samþykkur flutningi á réttindum. . Hafnarfjarðarbær hefur náð fram töluverðri fjárhagslegri hagræðingu með útboði á stórum þjónustuþáttum sem tengjast ekki fjárfestingum.

Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðarbæjar flutti erindi um þjónustu við langveik börn og velti þar m.a. upp þeirri spurningu hvort þjónustan sé orðið nýtt verkefni sveitarfélaga. Verkefnið sé lögum samkvæmt á hendi ríkis og hefur of stór hópur barna lent á milli kerfa og þjónustustiga með tilheyrandi áhrifum á veitta þjónustu til barns og fjölskyldu þess.  Það hvar barn lendir í kerfinu fer eftir mati á líkamlegu ástandi þess og framtíðarhorfum. Sveitarfélög veita þjónustu til fatlaðra barna en ríkið til þeirra sem teljast langveik þar sem um er að ræða heilbrigðisþjónustu sem kallar á sérhæfða þjónustu og mjög mikla þjálfun starfsfólks. Rannveig steig fram með reynslusögu og ákall um skýr verkaskipti á þessu sviði.  Ef til stendur að færa verkefni til sveitarfélaganna þá þurfi að koma til fjármagn t.d. í gegnum jöfnunarsjóð. 

Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla Hafnarfjarðarbæjar ræddi Skólavogina sem verkfæri til ytra mats sveitarfélaga á grunnskólum og það hvernig Hafnarfjarðarbær nýtir vogina markvisst til mats á stöðu/árangri til samanburðar við aðra skóla.  Skólavogin gefur nokkuð skýra mynd af stöðu hvers skóla út frá stöðlun á viðhorfum nemenda, foreldra og starfsfólks skóla gagnvart skólastarfinu. Niðurstöður eru einnig nýttar til innra mats af skólunum og þykja gefa góðar vísbendingar um þróun mála í skólunum og stöðu miðað við aðra skóla og sveitarfélög. Í Skólavoginni má einnig sjá lykiltölur um skólahald milli skóla innan sveitarfélagsins, þróun mála í grunnskólum yfir ákveðið tímabil, rekstrarkostnað per nemenda, fjölda nemenda á hvert stöðugildi starfsfólks við kennslu, niðurstöður samræmdra könnunarprófa og fleira. Skólavogin og möguleikar hennar eru stöðugt í þróun í því að efla mat innan sveitarfélagsins og nýta niðurstöður til þróunar og innleiðingar á sérsniðnum úrbótaverkefnum innan hvers skóla fyrir sig.

Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar þakka Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir áhugaverða og góða ráðstefnu.   

Ábendingagátt