Farsæld barna í Hafnarfirði

Fréttir

Um áramótin tóku í gildi lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Hér er um tímamótalöggjöf að ræða en meginmarkmið laganna er að skapa umgjörð sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Rannveig Einarsdóttir sviðsstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbæjar skrifaði grein sem birt var í Morgunblaðinu 14. mars síðastliðinn.

Tímamótalöggjöf sem ýtir undir aðlagaða og samþætta þjónustu án hindrana 

Um áramótin tóku í gildi lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Hér er um tímamótalöggjöf að ræða en meginmarkmið laganna er að skapa umgjörð sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.

Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbæjar

Rannveig Einarsdóttir sviðsstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbæjar skrifaði þessa grein sem birt var í Morgunblaðinu 14. mars síðastliðinn.

Stigskipt þjónusta

Gert er ráð fyrir stigskiptingu þjónustunnar. Á fyrsta stigi er grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum og foreldrum og er áhersla á einstaklingsbundinn og snemmbæran stuðning. Á öðru stigi er um markvissari einstaklingsþjónustu að ræða og á þriðja stigi er þjónustan orðin sérhæfðari.

Verklag Brúarinnar í Hafnarfirði

Nýju lögin kalla á umfangsmiklar breytingar á skipulagi og þjónustu sveitarfélaga. Hafnarfjarðarbær hefur unnið að þróun verklags í þjónustu við börn og fjölskyldur frá árinu 2016 undir heitinu Brúin – Barn | Ráðgjöf | Úrræði. Verklag Brúarinnar fellur að áherslum í nýjum lögum enda var leitað í smiðju sveitarfélaga við gerð frumvarps til laganna. Brúin felur í sér markvissari samvinnu sérfræðinga sem koma að málefnum barna, þverfaglega samvinnu og lausnarleit. Þjónustan er stigskipt sem felur í sér að viðeigandi úrræði eru virkjuð í takt við hverjar aðstæður fyrir sig. Með slíkri stigskiptingu næst ekki einungis betri árangur heldur jafnframt betri yfirsýn yfir árangur og virkni úrræðanna. Haustið 2020 voru allir skólar og leikskólar Hafnarfjarðarbæjar byrjaðir að vinna eftir verklagi Brúarinnar með stigskiptri þjónustu. Ráðnir voru inn sérfræðingar með þekkingu og bakgrunn bæði í félags- og heilbrigðisþjónustu og innan menntakerfisins. Verkefnastjóri hefur leitt þessa nýju hugmyndafræði í sveitarfélaginu og eru fagfólk og stjórnendur skóla og leikskóla sammála um að verklag Brúarinnar styðji við lausnir á fyrri stigum í málefnum barna.

Brúin milli kerfa, fagsviða og fólks

Brúin leitast einnig við að tengja saman þjónustu sveitarfélagsins, heilsugæslu, lögreglu og fleiri sem að málum barna koma. Hér er því um viðamikið innleiðingarverkefni að ræða. Nýtt verklag, snemmtækur stuðningur, samvinna ólíkra kerfa, samvinna fagfólks, aukin yfirsýn allt kallar þetta á nýja sýn og ný vinnubrögð. Reynslan í Hafnarfirði sýnir að það þarf skýra sýn og öfluga samvinnu til þess að árangur náist. Samvinna félags-, heilbrigðis- og menntakerfis og svo foreldra og forsjáraðila er grunnur þess að vel takist til. Í Hafnarfirði hafa stjórnendur og fagfólk verið samstíga og þarf að leggja áherslu á þá samvinnu við innleiðingu nýrra laga. Í Hafnarfirði erum við farin að sjá árangur af verklagi Brúarinnar. Fleiri börn fá þjónustu á fyrri stigum, barnaverndarmálum fjölgaði ekki árin 2020 og 2021 öfugt við það sem gerist í flestum öðrum sveitarfélögum og meiri samvinna er milli kerfa.

Áfram veginn – innleiðing nýrra hugmynda og vinnubragða

Ýmsar áskoranir eru framundan og má nefna að nýju lögin kveða á um að öll börn og foreldrar skuli hafa aðgang að tengilið til að tryggja barninu aðgang að þjónustunni eftir því sem þörf er á. Hér er um nýtt hlutverk að ræða sem skiptist á mestu á milli heilsugæslu, skólakerfisins og að hluta til félagsþjónustunnar. Einnig er kveðið á um málstjóra sem skipaður er ef barn hefur þörf fyrir frekari þjónustu en veitt er á fyrsta stigi. Sveitarfélag skal velja málstjóra sem starfar við félagsþjónustu sveitarfélagsins eða á þeim sviðum sem þarfir barnsins liggja. Framundan er vinna við að skilgreina og móta ný hlutverk og jafnframt þarf að koma til fjármagn til að efla og móta úrræði sem nýtast börnum og fjölskyldum þeirra.

Vandað hefur verið til við mótun nýrra laga sem eru afurð viðamikils samráðs. Nú er komið að innleiðingu nýrra hugmynda og vinnubragða. Samvinna kerfa og samþætting eru lykilþættir. Samvinna félags-, heilbrigðis- og menntakerfa þarf að liggja til grundvallar innan sveitarfélaganna. Það hefur gefið góða raun í Hafnarfirði og er lykill að góðum árangri Brúarinnar. Það eru spennandi tímar framundan í þágu farsældar barna.

Nánari upplýsingar um Brúna

Ábendingagátt