“Farsældarrútan” heimsækir Hafnarfjörð

Fréttir

Verklag Brúarinnar og innleiðing í Hafnarfirði var m.a. haft til hliðsjónar við gerð nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem tóku gildi 1. janúar 2022. Með verklagi Brúarinnar hefur Hafnarfjarðarbær markvisst verið að vinna að lausnum frá 2018. Þann 7. nóvember sl. komu fulltrúar frá Barna- og fjölskyldustofu (BOFS) í heimsókn í Hafnarfjörð með erindi um áherslur farsældarlaganna.

Fagfólk um farsæld barna og ungmenna funda og fagna

Verklag Brúarinnar og innleiðing í Hafnarfirði var m.a. haft til hliðsjónar við gerð nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem tóku gildi 1. janúar 2022. Með verklagi Brúarinnar hefur Hafnarfjarðarbær markvisst verið að vinna að lausnum frá 2018. Þann 7. nóvember sl. komu fulltrúar frá Barna- og fjölskyldustofu (BOFS) í heimsókn í Hafnarfjörð með erindi um áherslur farsældarlaganna og hittu fyrir í Hásölum Hafnarfjarðarkirkju um 150 fagaðila á sviði menntunar-, fjölskyldu- og barnamála innan Hafnarfjarðarbæjar og frá fjölmörgum þjónustuveitendum sem koma að málefnum barna og fjölskyldna í bænum. BOFS kallar þessar heimsóknir til sveitarfélaganna “Farsældarrútuna”.

Snýst um velsæld og velferð komandi kynslóða

Fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar tóku til máls Fanney Dóróthe Halldórsdóttir, sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs, sem opnaði umræður og erindi og ræddi meðal annars um tilgang vinnunnar og mikilvægi og velsæld og velferð komandi kynslóða þar sem mannleg gildi eru í grunninn það sem meðal annars kveikti hugmyndina að verklagi Brúarinnar og hún byggir á. Helena Unnarsdóttir, deildarstjóri barnaverndar, og Eiríkur Þorvarðarson, deildarstjóri fjölskyldu- og skólaþjónustu Brúarinnar, fóru yfir farinn veg í Hafnarfirði og tóku saman styrkleika og þær áskoranir sem verklag Brúarinnar og farsældarlögin hafa boðið upp á. Páll Ólafsson, framkvæmdarstjóri farsældarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, fór yfir lögin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og aðdraganda þeirra og tók við spurningum úr sal. Guðlaug Ósk Gísladóttir, sviðstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs, lokaði deginum, hrósaði fagfólkinu í sal fyrir vel unnin störf og árangur.

Mikill farsældarhugur í fólki

Mikill hugur er í fólki innan Hafnarfjarðarbæjar sem sinna farsæld barna frá degi til dags í störfum sínum. Sérstakur farsældardagur var haldinn í Hafnarfirði haustið 2022 til að fagna og draga saman vinnu starfsfólks við innleiðingu verklags Brúarinnar sem miðar að því að samþætta vinnu allra þeirra sem kom að starfi með börnum og ungmennum. Sá dagur markaði í senn uppskeru árangurs og sýn til framtíðar. Þar sem litið var yfir farinn veg, staða sveitarfélagsins kortlögð og spáð í spilin til framtíðar í ljósi breytinga og þróunar á umhverfi og lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Frá hausti 2018 hefur starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar þróað og innleitt verklag, Brúna, sem hefur þann tilgang að efla stuðning og þjónustu við börn og ungmenni bæjarins og auka lífsgæði þeirra og fjölskyldna þeirra. Helstu áherslumál í vinnulagi Brúarinnar nú í haust hefur verið að mennta málstjóra og ráðgjafa og starfsfólk skóla í því að verða tengiliðir farsældar. Nú í haust hafa 140 manns farið í gegnum farsældarskólann á vegum BOFS.

Barna- og fjölskyldustofa þjónar landinu öllu

Barna- og fjölskyldustofa er ríkisstofnun sem heyrir undir mennta- og barnamálaráðherra og starfar á grundvelli laga nr. 87/2021. Stofan hefur víðtækt hlutverk og sinnir verkefnum sem tengjast þjónustu í þágu barna á grundvelli ýmissa laga, t.a.m. barnaverndarlaga og laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Markmið Barna- og fjölskyldustofu er að vinna að velferð barna. Meginhlutverk stofnunarinnar er að veita og styðja við þjónustu í þágu barna og stuðla að gæðaþróun í samræmi við bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma. Barna- og fjölskyldustofa þjónar landinu öllu.

Ábendingagátt