Fimmtán ára leikskóli í alþjóðlegu samstarfi

Fréttir

Leikskólinn Stekkjarás fagnaði fimmtán ára afmæli sínu 8. september sl. „Í þessi fimmtán ár höfum við verið í stöðugri þróun og aldrei þurft að hafa áhyggjur af stöðnun,“ segir Alda Agnes Sveinsdóttir leikskólastjóri. Segir hún nýliðið haust í Stekkjarási hafa verið fjörugt sem fyrr og skólasamfélagið tekið þátt í og sett af stað margvísleg verkefni. 

Leikskólinn Stekkjarás fagnaði fimmtán ára afmæli sínu 8. september sl. „Í þessi fimmtán ár höfum við verið í stöðugri þróun og aldrei þurft að hafa áhyggjur af stöðnun,“ segir Alda Agnes Sveinsdóttir leikskólastjóri. Segir hún nýliðið haust í Stekkjarási hafa verið fjörugt sem fyrr og skólasamfélagið tekið þátt í og sett af stað margvísleg verkefni. Bæjarblaðið Fjarðarfréttir fjalla hér um faglegt og skapandi starf leikskólans. 

Nefnir Alda Agnes sk. starfendarannsókn sem sé í gangi í skólanum. Rannsóknin miðar að því að efla lærdómssamfélag Stekkjaráss og einnig að fanga það nám sem á sér stað í útiveru í garðinum. „Draumur okkar er að með rannsókninni getum við lagt á borð fræðasamfélagsins viðbótarþekkingu hvað varðar nám barna í útiveru,“ segir Alda Agnes. Meðal starfsmanna í Stekkjarási eru áhugasamir aðilar um samstarf við starfsfélaga í öðrum löndum. Þessir starfsmenn hafa í gegnum árin lagt sig fram við að skapa tengsl út fyrir landsteinana. Þetta hefur skilað sér til alls skólasamfélagsins til að mynda með móttöku erlendra gesta í Stekkjarási. Myndast hafa góð tengsl og áframhaldandi samskipti út frá þessum heimsóknum.

Stekkjaras1Fjardarfrettir

„Við höfum til dæmis í mörg ár tekið á móti hópum sem koma til landsins á vegum grasrótarsamtakanna Play Iceland. Í haust tókum við á móti tveimur hópum frá þeim, sitthvorn daginn. Við höfum einnig sóst eftir að vera þátttakendur í Erasmus+ verkefnum og haustið 2018 vorum við samþykkt í eitt slíkt tveggja ára verkefni. Það verkefni snýst um tækifæri í útiveru og hvernig útisvæðið er skipulagt. Þátttakendur eru fjórir leikskólar frá Englandi, Skotlandi, Litháen og Íslandi. Hver þátttökuleikskóli býður hinum að heimsækja sig einu sinni á því tveggja ára tímabili sem verkefnið stendur yfir. Í haust var komið að okkur í Stekkjarási að bjóða í heimsókn og þá gafst öllum starfsmönnum tækifæri til að taka beinan þátt í verkefninu. Skipulögð var dagskrá frá morgni til kvölds frá mánudegi til fimmtudags sem samanstóð af bæði krefjandi verkefnum og skemmtunum. Gestirnir okkar voru afar jákvæðir og tilbúnir til að miðla til okkar jafnt sem að meðtaka það sem við höfðum að bjóða og liðu þessir dagar ótrúlega fljótt.“

Á skipulagsdegi í október voru fjölmennar menntabúðir í Stekkjarási sem faghópur um skapandi leikskólastarf hafði veg og vanda að en vann í samstarfi við leikskólann. Menntabúðir er aðferð sem er að ryðja sér til rúms hér á landi og byggir á óformlegri jafningjafræðslu að sögn Öldu Agnesar sem segir að í menntabúðum sé ýtt undir faglega umræðu og þekkingu og reynslu miðlað á milli þátttakenda. Alda Agnes segir að ofangreint sé aðeins lítill hluti af því sem er á döfinni í leikskólanum en vill undirstrika að svona starf sé líka mikilvægt fyrir þróun skólastarfsins, aukinnar starfsánægju og skili sér á margvíslegan hátt til starfsins með börnunum.

Umfjöllun um starf Leikskólans í Stekkjarási birtist í Fjarðarfréttum 21. desember 2019

Ábendingagátt