Fjölbreytt virkni bæjarbúa í samkomubanni

Fréttir

Nú eru tæpar þrjár vikur liðnar af samkomubanni vegna covid19 og hjá Hafnarfjarðarbæ leitar starfsfólk bæjarins leiða til að miðla heilsueflandi hugmyndum og viðburðum sem voru skipulagðir heim í stofu í gegnum samfélagsmiðla. Að sögn Andra Ómarssonar viðburðastjóra hafa íbúar verið sérstaklega duglegir að hreyfa sig og njóta útivistar

Nú eru tæpar þrjár vikur liðnar af samkomubanni vegna covid19 og hjá Hafnarfjarðarbæ leitar starfsfólk bæjarins leiða til að miðla heilsueflandi hugmyndum og viðburðum sem voru skipulagðir heim í stofu í gegnum samfélagsmiðla. Að sögn Andra Ómarssonar viðburðastjóra hafa íbúar verið sérstaklega duglegir að hreyfa sig og njóta útivistar síðustu daga og vikur.

Bæjarblaðið Hafnfirðingur tók viðtal við Andra á dögunum. 

„Við komum til með að nota samfélagsmiðla mikið á næstunni til að auðga andann og planta fræjum og hugmyndum að samverustundum fyrir fjölskylduna alla. Þannig viljum við leggja okkar að mörkum til samfélagsins í ljósi alls,“ segir Andri. Til dæmis verði sögustundum miðlað frá bókasafninu þar sem starfsfólk bókasafnsins les upp á íslensku, pólsku og jafnvel fleiri tungumálum.

Andri2Sögustundir frá bókasafninu eru birtar á samfélagsmiðlum. Mynd/OBÞ

„Hvað varðar Byggðasafnið, þá er ljósmyndasýningin við Strandstíginn auðvitað opin og aðgengileg allan ársins hring og svo er ný útstilling í glugga Beggubúðar sem er áhugavert að skoða, þó við eigum ekki bæjarins elsta bangsa,” og vísar þar til bangsa sem gægjast út um glugga víða um bæinn og gleðja börn á göngu um bæinn. Safnkostur byggðasafnsins er að miklu leyti aðgengilegur í rafrænu gagnasafni og gaman að prófa að fletta upp ýmsum leitarheitum í ljósmyndasafninu á vef safnsins.

Andri3

Eitt af fjölmörgum fallegum útivistarsvæðum í uppsveitum Hafnarfjarðar, í skóginum umhverfis Hvaleyrarvatn. Mynd/OBÞ

Rafrænt aðgengi að safnkosti

Þá undirrituðu Hafnarborg og Myndstef á dögunum samning um stafræna birtingu á afritum af safnkosti úr rafrænum safnmunaskrám. „Þetta veitir Hafnarborg heimild til að myndvæða allar skráningar safnsins í menningarsögulega gagnasafninu Sarpi og bætir þar með aðgengi almennings að upplýsingum um safnkost Hafnarborgar. Þessa dagana er unnið að því að gera þær myndir af safnkosti Hafnarborgar, sem hafa hingað til ekki verið aðgengilegar almenningi, sýnilegar í Sarpi,“ segir Andri og bætir við að von sé á leiðsögnum um núverandi sýningu í Hafnarborg þar sem fólk getur skoðað listaverkin heima í stofu. „Svo munum við taka upp nokkur lög á hádegistónleikum og deila á næstu vikum. Þó að söfnin séu lokuð þá er starfsfólk að leita allra leiða til að miðla í gegnum samfélagsmiðla.

Þá hefur heilsubærinn Hafnarfjörður blásið til sóknar í skákinni og nú er boðið uppá netskákmót fyrir alla krakka á grunnskólaaldri nokkrum sinnum í viku á meðan aðrar íþróttir/tómstundir hjá nemendum liggja niðri. „Félagsmiðstöðvar unglinga eru líka að leita leiða til að bjóða uppá rafræna dagskrá, til dæmis virknibingó og spurningakeppnir á meðan lokað er tímabundið. Syni mínum býðst til dæmis að taka þátt í smásagnasamkeppni,“ segir Andri.

Umferð um Strandstíginn aukist mikið

Andri minnist sérstaklega á hversu ánægjulegt hefur verið að sjá Hafnfirðinga njóta útivistar og hreyfingar víða í bænum og í upplandinu. „Umferð um Strandstíginn hefur aukist alveg svakalega og er meiri en tvöföld miðað við sama tíma í fyrra, það vita ekki allir að við getum mælt það,“ segir Andri. Hafnarfjarðarbær býður upp á leið í Wappinu um Stórhöfða og núvitundargöngu um Hvaleyrarvatn og ný ganga er í undirbúningi. „Núna er extra mikilvægt að gera eitthvað hvetjandi og fjölskylduvænt, uppgötva nýja staði og prófa nýjar göngu- og hjólaleiðir,“ segir Andri og minnir á heilsueflandi spilastokk með 52 hugmyndum að útivist og hreyfingu sem var sendur íbúum um árið. „Hvernig væri til dæmis að fara út og telja Flensborgartröppurnar! Við þurfum bara að passa upp á 2 metra bilið, sýna tillitssemi og vera ekki fleiri en 20 saman í hóp,“ segir Andri.

Viðtal við Andra birtist í Hafnfirðingi 3 .apríl 2020

Ábendingagátt