Fjölbreyttar sýningar á nokkrum stöðum

Fréttir

Byggðasafn Hafnarfjarðar er með tvær nýjar sýningar í sumar. Það er annars vegar sýning í forsal Pakkhússins á þjóðlegum munum úr safni Þorbjargar Bergmann og svo er það ljósmyndasýning við Strandstíginn. Þá eru fastar sýningar í nokkrum húsum í bænum.

Byggðasafn Hafnarfjarðar er með tvær nýjar sýningar í sumar.
Það er annars vegar sýning í forsal Pakkhússins á þjóðlegum munum úr safni
Þorbjargar Bergmann og svo er það ljósmyndasýning við Strandstíginn. Þá eru
fastar sýningar í nokkrum húsum í bænum.

Bygg6Björn Pétursson bæjarminjavörður og Bryndís Lára Bjarnadóttir, safnvörður á Byggðasafninu. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Viðtal við Björn Pétursson birtist í Fréttablaðinu 13. júlí 2022

Á hverju vori setur Byggðasafn Hafnarfjarðar upp nýja
þemasýningu í forsal Pakkhússins og sýning þessa sumars fjallar um Þorbjörgu
Bergmann. „Hún var fyrsti hafnfirski safnarinn,“ segir Björn Pétursson
bæjarminjavörður. „Hún bjó í Hafnarfirði á árunum 1900-1930 og allan þann tíma
safnaði hún þjóðlegum munum bæði í Hafnarfirði og utan Hafnarfjarðar og lagði
mikið upp úr því. Með þessari sýningu erum við bæði að segja sögu hennar og
sýna hluta af þessum gripum sem hún safnaði. Sýningin er unnin í góðu samstarfi
við Borgarsögusafn og eins afkomendur Þorbjargar sem lánuðu okkur bæði mikið af
munum og myndum og eru margir af þessum munum ótrúlega fallegir og merkilegir.
Þorbjörg var mikil hannyrðakona og á sýningunni sést áhugi hennar á íslensku
handverki. Hún var sjálf margverðlaunuð sem hannyrðakona og stóð Þorbjörg,
ásamt Katrínu Briem, fyrir ýmiss konar námskeiðum í handavinnu fyrir stúlkur í
Hafnarfirði.

Bygg1Í einum bás í Byggðasafni Hafnarfjarðar er sýnt hvernig
hermenn bjuggu á hernámsárunum á Íslandi. Fróðlegt og skemmtilegt að skoða.

Þorbjörg áttaði sig á því á þessum árum að íslenskt samfélag
var að breytast – það var þessi þéttbýlismyndun og bændasamfélagið var að láta
undan – og hún sá að munir voru að glatast samfara þessari breytingu og hún fór
í þessa söfnun sína til þess að varðveita íslenska menningu; til þess að bjarga
hlutum frá glötun og safnaði yfir 400 munum.

Þorbjörg flutti til Reykjavíkur árið 1930 til dóttur sinnar
og tengdasonar og eftir hennar dag gáfu þau safn hennar, þessa 400 gripi, til Reykvíkingafélagsins
og var þetta langstærsta gjöfin í Árbæjarsafni þegar það var opnað.
Borgarsögusafn lánaði okkur hluta af þessum munum til þess að vera með á
sýningunni og eins fengum við lánaða muni frá afkomendum Þorbjargar.“

Bygg2

Leikfangasafnið gefur fólki kost á að sjá alls kyns dýrgripi
frá liðnum tíma.

Ljósmyndasýning á Strandstígnum

Byggðasafn Hafnarfjarðar er með sýningaraðstöðu fyrir
ljósmyndasafn sitt á Strandstígnum meðfram höfninni í Hafnarfirði og eru þar
árlega settar upp ljósmyndasýningar sem varpa ljósi á dagleg störf og sögu
fólksins sem bjó í bænum. „Í ár eru þetta 52 myndir og heitir sýningin Bærinn minn.
Þetta eru ljósmyndir sem Anna Jónsdóttir tók frá 1920-1940 og eru
mannlífsmyndir frá Hafnarfirði. Þetta eru gríðarlega skemmtilegar og fallegar
myndir sem veita innsýn í þróun bæjarins frá þessum tíma.

Anna var ljósmyndari í Hafnarfirði og var nátengd bænum alla
tíð og rak þar ljósmyndastofu og er ljósmyndasafn hennar, eða filmusafn,
varðveitt á byggðasafninu og búið að vera í áratugi. Þetta er að stórum hluta
filmusafn á glerplötum og sumar af þessum myndum sem við erum að sýna núna hafa
ekki verið birtar áður að okkur vitandi; allvega ekki hin síðari ár. Hluti af
þessum myndum var tekinn fyrir í bók sem var gefin út árið 1933 þannig að þetta
eru myndir sem hafa gleymst en aðrar eru vel þekktar og hafa verið á sýningum
hjá okkur.“

Bygg3

Frá sýningu um Þorbjörgu Bergmann sem var fyrsti hafnfirski
safnarinn. Sýningin var opnuð í Byggðasafninu 1. júní og stendur enn.

Saga Hafnarfjarðar

Byggðasafn Hafnarfjarðar er með fleiri sýningar burtséð frá
sumarsýningum. „Við erum með sýningar úti um allan bæ. Í Pakkhúsinu er á
tveimur hæðum stór sýning um sögu Hafnarfjarðar. Hún heitir Þannig var og er
saga Hafnarfjarðar allt frá landnámi til okkar daga. Þarna rekjum við sögu
bæjarins í gegnum ákveðin þemu og vörpum ljósi á bæinn og þorpið bæði með
sagnfræðilegum textum, ljósmyndum og síðan miklu safni muna. Við setjum þetta
niður í hólf og segjum til dæmis á einum stað frá verslunarbænum, á öðrum stað
frá útgerðarbænum og á þeim þriðja frá hernáminu. Þessi sýning er uppfærð á
hverju ári þannig að það er alltaf eitthvað nýtt að sjá á henni. Núna í vor
settum við til dæmis upp lítinn verslunarbás; gamla kjörbúð. Það er nýjungin á
þeirri sýningu í ár.“

Leikfangasýning er á efstu hæðinni í Pakkhúsinu. „Þar erum
við með alls konar leikföng og annað sem snýr að börnum. Það er algjörlega
textalaus sýning sérstaklega hönnuð fyrir börn; þetta er meira
upplifunarsýning. Þar eru til dæmis gamlir tölvuleikir sem hægt er að spila,
meðal annars Space Invaders og Super Mario Bros.“

Bygg4

Grásleppuskúr frá árunum 1960-1970 sem skoða má á safninu.

Ólík heimili

Sívertsens-húsið er elsta hús Hafnarfjarðar og það lét
Bjarni Sívertsen athafnamaður byggja á árunum 1803-1805. „Hann hefur verið
nefndur „faðir Hafnarfjarðar“. Hann var fyrsti íslenski kaupmaðurinn eftir að
við losnuðum undan einokuninni og hann byggði Sívertsens-húsið fyrir fjölskyldu
sína og verslunarhús við hliðina. Saga Bjarna er á margan hátt mjög merkileg og
hún endurspeglast svolítið í húsinu. Við sýnum hvernig yfirstéttarfjölskylda
bjó á þessum tíma og rekjum sögu Bjarna og Rannveigar, konu hans.“

Siggubær, sem stendur við Kirkjuveg, er sýnishorn af heimili
verkamanns og sjómanns í Hafnarfirði frá fyrri hluta 20. aldar þar sem gestir
geta upplifað og kynnst því hvernig alþýðufólk í bænum bjó á þeim tíma en það
var Erlendur Marteinsson sjómaður sem lét byggja húsið. „Siggubær er dæmigerður fyrir þessi hús sem voru í
Hafnarfirði á þessum tíma – þessi alþýðuheimili; skilgreiningin á bæ versus hús
er að hann er með lága veggi og það eru gluggar bara á göflunum.“

Bygg5

Kaupmaðurinn á horninu var sumarsýning í fyrra og var hluti
hennar settur inn á fastasýninguna í maí síðastliðinn.

Erlend útgerð

Húsið Bookless Bungalow, sem stendur við Vesturgötu 32, var
byggt árið 1920 fyrir Skotann Douglas Bookless en hann og bróðir hans, Harry,
höfðu á fyrri hluta 20. aldar rekið umfangsmikla útgerð frá Hafnarfirði. „Á þessum tíma var erlend útgerð mjög sterk og mikil í
Hafnarfirði og í húsinu segjum við bæði sögu Bookless-bræðra og líka þessarar
miklu erlendu útgerðar sem var í bænum. Við erum að segja sögu erlendu útgerðarinnar
á fyrstu áratugum 20. aldar. Bræðurnir voru með alls konar nýjungar sem
Íslendingar þekktu ekki á þessum tíma en þeir lögðu til dæmis brautarteina út
frá þurrkhúsunum upp á saltfiskreitina. Það voru alls konar nýjungar sem þeir
kynntu fyrir landsmönnum og þá aðallega sem sneri að fiskveiðum, útgerð og
fiskverkun.“

Verslunarminjasýning

Verslunarminjasafn Byggðasafns Hafnarfjarðar er í Beggubúð.
„Þetta er gamalt verslunarhús sem stóð áður við Strandgötu og var flutt á lóð
byggðasafnsins og opnuð þar sýning árið 2008. Þetta er upprunalegt húsnæði með
upprunalegum innréttingum og þarna höfum við sett upp gamla verslun eins og þær
voru á síðustu öld. Þetta er hús sem margir muna eftir á Strandgötunni og
margir hafa tengingu og tilfinningar til. Þarna höfum við líka sett metnað í að
setja út sérstakar gluggaútstillingar við hin og þessi tækifæri. Við setjum til
dæmis upp sérstaka gluggaútstillingu fyrir 17. júní og aðra fyrir jólin. Þótt
safnið sé lokað þá erum við með þessa stóru glugga með einhverri skemmtilegri
útstillingu.“

Ábendingagátt