Fjöldi rafrænna viðburða fyrir ungmenni

Fréttir

Samkomubanninu fylgja miklar áskoranir fyrir starfsemi félagsmiðstöðva og voru ný viðmið sett um hvernig mætti haga starfinu. Stella Björg Kristinsdóttir, fagstjóri frístundastarfs hjá Hafnarfjarðarbæ segir starfsfólk félagsmiðstöðva hafa sýnt fram á ótrúlegt hugmyndaflug í lausnum fyrir unga fólkið í bænum og eigi mikið hrós skilið.

Samkomubanninu fylgja miklar áskoranir fyrir starfsemi félagsmiðstöðva og voru ný viðmið sett um hvernig mætti haga starfinu. Stella Björg Kristinsdóttir, fagstjóri frístundastarfs hjá Hafnarfjarðarbæ, segir deildarstjóra og aðstoðarverkefnastjóra félagsmiðstöðvanna og verkefnastjóra Ungmennahússins ásamt starfsfólki félagsmiðstöðva hafa sýnt fram á ótrúlegt hugmyndaflug í lausnum fyrir unga fólkið í bænum og eigi mikið hrós skilið.

Bæjarblaðið Hafnfirðingur spjallaði við Stellu.

Virknibingo

Virknibingó er meðal þess sem unga fólkið tók þátt í.

Stella hefur fylgst með lausnum og leiðum til að halda sambandi við ungmennin á þessum tímum og segist sjálf sífellt læra eitthvað nýtt. „Áskorunin felst í því að halda áfram góðum tengslum við ungmennin, en með rafrænum hætti, t.d. viðburði og að skapa tækifæri til að ræða við starfsfólk félagsmiðstöðva og halda áfram að vera til staðar, en það er bæði mikilvægt að bjóða bæði upp á starf og stuðning. Einnig til að benda á leiðir ef eitthvað bjátar á.“ Stella tekur dæmi um ef ungmenni vill bara tala við ákveðinn starfsmann, þá sé nafn viðkomandi sett í fyrstu línu í skilaboðum og les aðeins viðkomandi skilaboðin. „Við erum að opna á að ræða erfiðar tilfinningar í samkomubanni með einföldum spurningum eða opnum umræðum.

Tilfinningar

Tjámerki og rafrænn fjölmiðill

Skemmtilegar keppnir, svipaðar spurningakeppnum, hafi verið gerðar, þar sem krakkarnir læri eitthvað í leiðinni um starfsfólkið, landið sitt eða staðreyndir, sem dæmi er notað myndir af starfsfólki sem börnum eða sturlaðar staðreyndir þar sem giskað er á rétt eða rangt svar. „Það hefur verið mjög fyndið. Svo eru notuð tjámerki (e. emojis) í snjallsímum til að lýsa bíómyndatitlum eða lögum og svo brandara- og smásögukeppni sem heppnaðist mjög vel,“ segir Stella stolt. Í einni félagsmiðstöð sé unnið að útgáfu fyrsta rafræna fjölmiðilsins, þar sem krakkarnir hafi tækifæri til að skrifa blaðagreinar ásamt félagsmiðstöðvarstarfsfólkinu. Aðrir hafi efnt til lógo-samkeppni fyrir sína félagsmiðstöð og sumir búið til tónlist með krökkunum í gegnum Instagram. „Svo hafa verið opnaðar discort-rásir til að halda spilakvöld saman í ákveðnu rafrænu rými og mikilvægt að ungmennin fái tækifæri til að tjá skoðun og hafa áhrif á dagskrána.“

RafraenirVidburdir

Ratleikir og virknibingó til hreyfingar

Til að efla hreyfingu segir Stella að gerðir hafi verið ratleikir, virknibingó og margar fleiri góðar áskoranir sem hvetji til hreyfingar. „Einnig ljósmyndakeppnir, t.d. ein sem lýsir samkomubanni. Það var skemmtilegt að sjá hvernig unga fólkið túlkar slíkt. Félagsmiðstöðvar hafa skorað hver á aðra, t.d. með þáttöku í leik á Instagram í hnébeygju með egg í skeið í munninum. Annars er þetta bara brot af því sem hefur verið í boði í félagsmiðstöðvum og Ungmennahúsinu í Hafnarfirði. Starfsfólk hefur svo sannarlega búið til nýja vídd í þessu og það hefur verið magnað að fá að fylgjast með hugmyndaríku starfsfólki félagsmiðstöðva, hvað allir standa saman, eru góðir í tækni og deila góðum hugmyndum,“ segir Stella að endingu. 

Viðtal við Stellu birtist í Hafnfirðingi 27. apríl 2020. 

Ábendingagátt