Fornleifaskráning í landi Hafnarfjarðar

Fréttir

Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur til margra ára skráð fornleifar í landi bæjarins enda er það eitt af hlutverkum byggðasafnsins að sjá um skráningu allra minja í sveitarfélaginu. Fornleifaskráning er nauðsynleg í skipulagsmálum og samkvæmt lögum um menningarminjar verður fornleifaskráning að liggja fyrir áður en deiliskipulag er samþykkt. Árið 2020 var ákveðið að ráðast í endurskráningu á öllum fornleifum í landi Hafnarfjarðarbæjar þar sem margar af þeim fornleifaskráningum sem fyrir lágu voru úreltar og þurfti að uppfæra að nýjum stöðlum Minjastofnunar.

Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur til margra ára skráð fornleifar
í landi bæjarins enda er það eitt af hlutverkum byggðasafnsins að sjá um
skráningu allra minja í sveitarfélaginu. Fornleifaskráning er nauðsynleg í
skipulagsmálum og samkvæmt lögum um menningarminjar verður fornleifaskráning að
liggja fyrir áður en deiliskipulag er samþykkt. Árið 2020 var ákveðið að ráðast
í endurskráningu á öllum fornleifum í landi Hafnarfjarðarbæjar þar sem margar
af þeim fornleifaskráningum sem fyrir lágu voru úreltar og þurfti að uppfæra að
nýjum stöðlum Minjastofnunar Íslands. Tækninni fleygir fram í þessu eins og
öðru og nú þurfa allar fornleifar að vera mældar upp með nákvæmum hætti með
nýjustu tækjunum.

Heildræn skráning yfir fornleifar í bæjarlandinu 

Ákveðið var að skipta landi bæjarins upp í tólf svæði og útbúa
heildræna skráningu yfir fornleifar í bæjarlandinu. Með fornleifaskráningu er í
raun verið að kortleggja fornminjarnar og skráningin er því mjög mikilvægur
hluti af verndun menningararfsins því nauðsynlegt er að vita staðsetningu
minjanna til að geta verndað þær. Áður en farið er á vettvang er leitað að
heimildum um sögu svæðisins, t.d. í sýslu- og sóknarlýsingum, örnefnaskrám,
gömlum kortum og loftmyndum. Þegar farið er á vettvang er allt svæðið gengið og
minjarnar mældar upp með nákvæmu staðsetningartæki og minjarnar ljósmyndaðar.

Allar minjar aðgengilegar á Kortavef Hafnarfjarðarbæjar

Vinnan hefur gengið vonum framar og í júlí
á þessu ári var skráningu á 11 svæðum þegar lokið. Aðeins eitt svæði á eftir að skrá, það er staðsett í almenningi
sunnan Hafnarfjarðar og stefnt er að því að klára þá skráningarvinnu á þessu
ári. Í haust voru allar minjarnar settar inn á kortavef bæjarins, https://map.is/hafnarfjordur/ og
skýrslurnar sjálfar eru aðgengilegar inn á heimasíðu byggðasafnsins. Skráning sem þessi er auðvitað ekki
tæmandi því ávallt getur eitthvað farið framhjá þeim sem fornleifarnar skráir. Byggðasafnið
vill því gjarnan fá sendar ábendingar um fornleifar sem ekki eru skráðar í
þessum skýrslum.

Ábendingagátt