Forvarnanámskeið gegn sjálfsskaða fyrir ungmenni

Fréttir

Hafnarfjarðarbær verður fyrst sveitarfélaga hér á landi til að þróa sex vikna forvarnanámskeið fyrir 13-14 ára ungmenni sem mörg hver upplifa sjálfsvígshugsanir eða sjálfsskaða. Námskeiðið er írskt að uppruna og hefur verið kennt þar með góðum árangri frá 2017, en verður þýtt og staðfært að íslenskum og litháískum aðstæðum.

Hafnarfjarðarbær verður fyrst sveitarfélaga hér á landi til að þróa sex vikna forvarnanámskeið fyrir 13-14 ára ungmenni sem mörg hver upplifa sjálfsvígshugsanir eða sjálfsskaða. Þessum hópi verða veitt verkfæri til að takast á við ólíkar áskoranir í lífinu, byggja upp þrautseigju, seiglu og efla sjálfstraust og tilfinningafærni. Námskeiðið er írskt að uppruna og hefur verið kennt þar með góðum árangri frá 2017, en verður þýtt og staðfært að íslenskum og litháískum aðstæðum. Evrópusambandið samþykkti styrk til verkefnisins á þeim forsendum að það er fjölþjóðlegt. 

Bæjarblaðið Hafnfirðingur ræddi við Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúa hjá Hafnarfjarðarbæ og Kristínu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Píeta, en samtökin munu leiða þessa vinnu.

Árin 2010 – 2019 voru sjálfsvíg algengust á Íslandi meðal 30 ára og eldri. Í aldurshópnum 15 – 29 ára eru sjálfsvíg þriðja hæsta dánarorsök og talað er um að 13,6 af hverjum 100 þúsund íbúum í OECD ríkjum á aldrinum 13-19 ára taki eigið líf. Þessar tölur eru uppreiknaðar hér á landi svo að hægt sé að bera Íslendinga saman við aðrar þjóðir. Geir segir að landlæknisembættið hafi talið að efling geðræktar og einhvers konar forvarnaátak með virkni þyrfti fyrir yngsta hópinn og Hafnarfjarðarbær hafi í kjölfarið fengið kynningu á námskeiðum sem slík samtök á Írlandi hafa haldið fyrir ungt fólk í forvarnaskyni með góðum árangri. „Við sóttum í kjölfarið um styrk til Evrópusambandsins í gegnum Erasmus+ en fengum höfnun. Við bættum þá þriðja landinu við, Litháen, og fengum þá styrkinn á þeim forsendum að verkefnið væri fjölþjóðlegt.“

Nemendur úr 8. bekk í rýnihópum

Geir segir ástæðuna fyrir því að Íslendingar og Litháar ákveði að vinna saman að þessu mikilvæga verkefni sé að í báðum löndum sé sjálfsvígstíðni ungmenna einna hæst í Evrópu meðal OECD ríkja. „Þörf á fræðslu, samtali og frekari forvörnum er sannarlega til staðar. Írska prógrammið verður yfirfært á íslensku í samstarfi við Píeta samtökin sem leggja til fagaðila sem munu sjá um þjálfun og kennslu. Starfsfólk félagsmiðstöðva mun sjá um fræðsluna og samtalið, auk fulltrúa frá Píeta, og 8. bekkur varð fyrir valinu. „Við byrjum nú í febrúar að hitta 2 – 3 fulltrúa nemenda 8. bekkja úr 3 – 4 skólum í Hafnarfirði í rýnihóp til að ræða við þau um daginn og veginn. Þessi hópur, sem gjarnan samanstendur af þeim sem ekki standa sterk að vígi, ræðir og metur einnig þá 11 – 13 umræðuþætti sem írska verkefnið hefur verið að taka fyrir. Saman ákveður hópurinn áherslur verkefnisins á Íslandi og þá þætti sem þau telja að vanti umræðu um. Hvað þeim finnst vel gert í þessum málaflokkum og hvað megi gera betur. Við útbúum svo námsefnið þar sem við fjöllum um styrkleika og veikleika og hvernig best er að bregðast við. Svo er áætlað að þau sem vinna með ungmennunum fari til Írlands til að upplifa þar hvernig þetta er gert og læra af þeim. Verkefnið er að skila árangri þar og ætti að gera það hér líka.“

Mótlæti og áföll hluti af lífinu

Kristín segir að mögulega farist það oft fyrir að ræða við og fræða þennan aldurshóp um það að mótlæti, áföll og ýmsar erfiðar tilfinningar séu hluti af því að vera til og að vera manneskja. „Það þarf að kenna okkur öllum að tilfinningar s.s kvíði, depurð og reiði eru jafn eðlilegar tilfinningar og gleði, spenna, ást og það þarf að læra að takast á við þær, viðurkenna þær og koma þeim í orð og vinna úr þeim. Við verðum að bregðast við fyrr og standa fyrir ofan fossinn, ekki fyrir neðan hann svo ég steli nú orðum kollega míns hans Gríms Atlasonar hjá Geðhjálp. Sjálfsvíg er viðkvæmt málefni sem fer ekki manngreinarálit og sjálfsvígshugsanir spyrja ekki um stétt, aldur, stöðu eða kyn. Hjá Píeta vitum við að þessar hugsanir og tilfinningar um að vilja ekki lifa eru hræðilegar og átakanlegar fyrir einstaklinginn sem upplifir þær. En rétt er að ítreka að sjálfsvíg er aldrei lausn. Það eru til lausnir og það er alltaf von og við verðum að vera til staðar fyrir fólkið okkar. “

Fræðsla og samtöl mikilvæg forvörn

Kristín leggur á það áherslu að mikil ánægja sé hjá samtökunum með það að þetta verkefni sé farið af stað og með svona öflugum félögum. Rammi verkefnisins er skýr og vonir bundnar við það að BUILD verkefnið skili sér í aukinni vitund og færni ungmenna til þess að takast á við erfiðar aðstæður og tilfinningar. Alþjóðlegar rannsóknir sýni að um 95% fólks upplifi sjálfsvígshugsanir á lífsleiðinni. „Sem betur fer er þessi flotta kynslóð barna og ungmenna óhræddari við að tala um tilfinningar, líðan og biðja um hjálp. Þau eru meðvitaðri um gamla slagorðið „heilbrigð sál í hraustum líkama“ og sýna málefnum er snúa að andlegri heilsu mikinn áhuga. Það er svo okkar sem samfélags að kenna þeim og leiðbeina um hvernig hægt er að fá hjálp við að vinna úr erfiðri líðan og að þjálfa hugann við að takast á við hugsanir og tilfinningar sem okkur kannski líkar ekki endilega við.“ Hún segir óþægilega staðreynd að sjálfsvíg á meðal ungmenna sé einna hæst hér á landi og að það verði að horfast í augu við og vinna saman að því að bæta. „Sjálfsvíg er harmleikur í sinni dimmustu mynd. Fræðsla og samtal eru mikilvæg forvörn og er það ósk hópsins að hægt verði að færa þetta námskeið einnig yfir í aðra skóla landsins.“

Af vefsíðu Píeta samtakanna.

Viðtal við Geir og Kristínu birtisti í Hafnfirðingi 4. febrúar 2021

Forsíðumynd: Olga Björt Þórðardóttir

Ábendingagátt