Forvarnardagurinn 2023 er í dag

Fréttir

Miðvikudagurinn 4. október er Forvarnardagurinn 2023. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og er sjónum sérstaklega beint að nemendum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Nemendur í grunnskólum Hafnarfjarðar taka virkan þátt í deginum meðal annars með fræðslu, hópavinnu og samtali um verndandi þætti gegn vanlíðan og áhættuhegðun.

Hugum að andlegri líðan ungmennanna okkar

Miðvikudagurinn 4. október er Forvarnardagurinn 2023. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og er sjónum sérstaklega beint að nemendum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Nemendur í grunnskólum Hafnarfjarðar taka virkan þátt í deginum meðal annars með fræðslu, hópavinnu og samtali um verndandi þætti gegn vanlíðan og áhættuhegðun. Hafnarfjarðarbær tekur forvarnarhlutverk sitt alvarlega og hefur einnig um nokkurt skeið farið þá leið að bjóða upp á fjölbreytta jafningjafræðslu innan grunnskóla Hafnarfjarðar. Dagurinn er haldinn í átjánda sinn í grunnskólum landsins og í þrettánda sinn í framhaldsskólum.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands

Markmið Forvarnardagsins er að vekja athygli á mikilvægum þáttum í forvarnarstarfi sem snúa að ungu fólki og fræða þau um hvernig þau geti hugað að sinni vellíðan. Á heimasíðu Forvarnardagsins er meðal annars að finna fróðleik og myndbönd um forvarnir www.forvarnardagur.is. Allir sem koma að málefnum barna og ungmenna á einn eða annan hátt eru hvattir til halda gildum forvarnardagsins á lofti. Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðrir samstarfsaðilar eru Embætti landlæknis, sem sér um verkefnisstjórn dagsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Samfés, Heimili og skóli – landssamtök foreldra, Ungmennafélag Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Skátar, Rannsóknir og greining, Planet Youth, og SAFF- Samstarf félagasamtaka í forvörnum. Forvarnir er viðvarandi verkefni sem snýr bæði að almenningi og þeim sem bera ábyrgð á samfélagslegum ákvörðunum og stefnumörkun. Þetta starf eflist með samvinnu allra aðila í samfélaginu.

Þrír lyklar að góðu lífi fyrir ungt fólk

  • Samvera. Rannsóknir hafa sýnt að SAMVERA með fjölskyldu skiptir hvað mestu máli þegar kemur að vellíðan ungs fólks. Þau ungmenni sem eiga uppbyggilega samveru með foreldum og vinum, og fá stuðning eru líklegri til að, ná betri árangri í lífinu. Verum til staðar fyrir hvort annað. Stuðningur foreldra skiptir máli!
  • Þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Sýnt hefur verið fram á að þátttaka í SKIPULÖGÐU ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDASTARFI skiptir miklu máli fyrir framtíð barna og ungmenna. Þau ungmenni sem taka þátt í skipulögðu starfi eru líklegri til að ná árangri, hvort sem um ræðir til dæmis íþróttir, tónlist, starf í skátum, félagsmiðstöðvum eða ungmennahúsum. Mikilvægast er að finna það sem vekur áhuga hvers og eins. Hvetjum börn og ungmenni til virkrar þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.
  • Leyfum heilanum að þroskast. Leyfum heilanum að þroskast því hann er að mótast fram yfir 20 ára aldur. Áfengi hefur slæm áhrif á þroska heilans því skiptir máli að taka upplýsta ákvörðun um að fresta því að drekka áfengi eða sleppa því alveg. Koffín, nikótín og önnur örvandi efni ætti að forðast og huga að góðum nætursvefni, næringu og hreyfingu. Hvert ár skiptir máli – gefum heilanum tækifæri til að þroskast!

Foreldrar, forráðamenn og allir sem koma að málefnum barna og ungmenna á einn eða annan hátt eru hvattir til halda Forvarnardeginum á lofti og taka virkan þátt.

Ábendingagátt