Forvarnardagurinn er í dag – andleg líðan ungmenna

Fréttir

Miðvikudaginn 6. október 2021 verður Forvarnardagurinn haldinn í flestum grunn- og framhaldsskólum landsins. Allar félagsmiðstöðvar í grunnskólum Hafnarfjarðar verða með forvarnartengda dagskrá í tilefni dagsins auk þess sem í aðdraganda dagsins hafa verið í gangi námsferðir og fræðsla um mikilvægi forvarna í félagsmiðstöðvum.

Í ár er sjónum sérstaklega beint að andlegri líðan ungmenna

Í dag, miðvikudaginn 6. október 2021, er Forvarnardagurinn haldinn í flestum grunn- og framhaldsskólum landsins, en hann er haldinn á hverju hausti og sjónum þá sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekkjum grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Allar félagsmiðstöðvar í grunnskólum Hafnarfjarðar verða með forvarnartengda dagskrá í tilefni dagsins auk þess sem á síðustu dögum og vikum hafa verið í gangi námsferðir og fræðsla um mikilvægi forvarna m.a. í félagsmiðstöðvum. 

Heillaráð til allra fjölskyldna

Þema fyrir árið 2021 er andleg líðan ungmenna. Samkvæmt rannsóknum hafa ýmsir þættir neikvæð áhrif á andlega líðan og hefur verið bent á neyslu unglinga á orkudrykkjum og nikótíni og of lítinn svefn. Forvarnardagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu:

  • Ungmenni sem verja í það minnsta klukkustund á dag með fjölskyldum sínum, eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna
  • Ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf falla mun síður fyrir fíkniefnum
  • Því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau verði fíkniefnum að bráð

Forvarnarnám gegn sjálfsskaða og sjálfsvígum – BUILD verkefnið

Hafnarfjarðarbær tekur forvarnarhlutverk sitt alvarlega og hefur um nokkurt skeið farið þá leið að bjóða upp á fjölbreytta jafningjafræðslu innan grunnskóla Hafnarfjarðar. Hefur þessi leið mælst vel fyrir hjá nemendum, foreldrum þeirra og starfsfólki skólanna. Í nóvember 2020 hófst svo formlega s.k. BUILD (“Building Resilience and Brighter Futures”) verkefni sem snýr að því að yfirfæra og þróa áfram forvarnarnámskeið og reynsluprófa fyrir 13-14 ára ungmenni. Píetasamtökin , í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ og samstarfsaðila í Litháen og á Írlandi, fengu 25 milljóna króna styrk í gegnum Erasmus+ menntaáætlun ESB í þetta mikilvæga verkefni.  Verkefninu er ætlað að veita ungmennum, sem mörg hver upplifa sjálfsvígshugsanir eða sjálfskaða, verkfæri til að takast á við ólíkar áskoranir í lífinu, byggja upp þrautseigju og seiglu og efla sjálfstraust og tilfinningafærni. Nemendum í 8. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar og í Kaunas í Litháen verður boðið upp á 6. vikna forvarnarnámskeið. 

BrightHopurinn

Hópur starfsfólks; deildarstjórar tómstundamiðstöðva, náms og starfsráðgjafar, sálfræðingar og fagstjóri frístundastarfs héldu utan til Írlands í september og lærðu námsefnið. 

Forvarnir eru viðvarandi samstarfsverkefni

Markmið Forvarnardagsins er að vekja athygli á mikilvægum þáttum í forvarnarstarfi. Forvarnir er viðvarandi verkefni sem snúa bæði að almenningi og þeim sem bera ábyrgð á samfélagslegum ákvörðunum og stefnumörkun. Niðurstöður Rannsóknar og greiningar frá 2021 sýna að 44% ungmenna í 9. bekk og 53% ungmenna í 10. bekk fá ekki nægan nætursvefn. Þá sýna rannsóknir að þeir sem drekka fleiri orkudrykki eru líklegri en aðrir til að sofa minna. Í efstu bekkjum grunnskóla sýna niðurstöður að 74% þeirra sem drekka tvo eða fleiri orkudrykki á dag fá ekki nægan nætursvefn. Á vef Forvarnardagsins er meðal annars að finna fróðleik og myndbönd um forvarnir www.forvarnardagur.is. Þar geta nemendur einnig svarað spurningu dregið verður úr réttum svörum 21. október nk. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands

Forvarnardagurinn er haldinn víða erlendis að íslenskri fyrirmynd enda hefur góðum árangri verið náð hér á landi. Forvarnardagurinn var haldinn í fyrsta skipti árið 2006 að frumkvæði forseta Íslands. Dagurinn er samstarf eftirtalinna: Forseta Íslands, Embættis landlæknis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta og Rannsókna og greiningar. 

Foreldrar, forráðamenn og allir sem koma að málefnum barna og ungmenna á einn eða annan hátt eru hvattir til halda Forvarnardeginum á lofti og taka virkan þátt. 

Ábendingagátt