Fræðsla um forvarnir sem auka öryggi barna

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hefur samið við Barnaheill um fræðslu fyrir starfsfólk um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Hátt í 1000 starfsmenn bæjarins hafa á síðustu árum sótt námskeið sem er sniðið að þörfum mismunandi hópa. 

Fræðsla um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi fyrir íþróttafélög, starfsfólk og þjálfara 

Hafnarfjarðarbær hefur samið við Barnaheill um fræðslu fyrir starfsfólk um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Hátt í 1000 starfsmenn bæjarins hafa á síðustu árum sótt námskeið sem er sniðið að þörfum mismunandi hópa. Markmiðið er alltaf að vinna að því að fyrirbyggja illa meðferð og læra að bregðast við ef upp koma mál. Því er skýr ávinningur fyrir alla sem hlut eiga að máli að taka þátt og leggja sitt á vogaskálarnar við að bæta öryggi barna í Hafnarfirði. ÍBH og íþróttahreyfingin í Hafnarfirði hefur lagt mikla áherslu á þennan málaflokk síðustu ár og má sjá afrakstur þeirrar vinnu í t.d. verklagsreglum á heimasíðum íþróttafélaga.

Rafrænt námskeið fyrir alla áhugasama

Nú í vor verður í boði gott, markvisst og stutt rafrænt námskeið sem kallast Fimm skref til verndar börnum gegn kynferðisofbeldi og er það Sigríður Björnsdóttir sálfræðingur sem heldur fyrirlesturinn. Fyrirlestur verður haldinn rafrænt í hádeginu þriðjudaginn 12. apríl kl. 12:00 og er í um 50 mínútur. Hlekkur á fundinn hér. Þessi tími er hentugur mörgum starfsmönnum íþróttahúsa því íþróttakennslan er komin í páskafrí.

Fundarboðið með slóð á fyrirlesturinn mun berast íþróttafélögum sem koma því áfram á sitt fólk. Fyrirlestur ætlaður fullorðnum sem vinna með börnum og unglingum. Einnig fyrir foreldra og aðra sem bera ábyrgð á börnum.

Erindið fjallar um:

  • Rannsóknir og tíðni kynferðisofbeldis hér á landi og erlendis
  • Fyrirbyggjandi aðferðir og leiðbeiningar eftir að ofbeldi hefur átt sér stað
  • Aðferðir til að stuðla að öruggara umhverfi fyrir fullorðna, börn og ungmenni

Fjallað er um tíðni ofbeldis hér og annarstaðar, rætt er um þá þætti sem hjálpa fólki að ræða forvarnir, eins og hvernig er rætt við börn um líkamann, mörk og samskipti. Auk þess er fjallað um leiðir til að auka samskipti fullorðinna um óæskilega kynferðislega hegðun á milli barna eða ungmenna og leiðir til að ræða um slíka hegðun og stöðva hana.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem stofnuð voru árið 1919 og vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna og réttindi þeirra. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif. Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.

Ábendingagátt