Fræðst um flóttafólk

Fréttir

Starfsfólk Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar átti fróðlegan samráðsfund í dag með Dr. Dubus, Nicole Mignon, bandarískum sérfræðingi í málefnum flóttamanna og háskólakennara

Starfsfólk Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar átti fróðlegan samráðsfund í dag með Dr. Dubus, Nicole Mignon, bandarískum sérfræðingi í málefnum flóttamanna og háskólakennara. Hún er hér á landi á vegum velferðarráðuneytisins og er til ráðgjafar við stjórnvöld og starfsfólk sveitarfélaga um móttöku flóttamanna og heimsótti Hafnarfjörð í dag.

Á fundinum með Nicole voru rædd málefni flóttamanna og þá sérstaklega allt er varðar skólagöngu í leik- og grunnskólum. Megináherslan í sjónarmiðum hennar var að flóttamenn hafa gjarnan erfiðan bakgrunn, áföll, sem vinna þarf úr og þess utan sé mikið mál að aðlagast aðstæðum í nýju, gjörólíku landi. Það er erfitt að vera flóttamaður, ekki síst fyrir fullorðna fólkið. Séu flóttamennirnir líka foreldrar þurfa þeir að takast á við margskonar áskoranir og upplifa sig oft vanmáttug og það eru yfirleitt börnin sem eiga auðveldara með aðlögun og að læra nýtt tungumál. Flóttamenn þurfa oftast stuðning í miklu lengri tíma en við höldum. Ef sá stuðningur er veittur markvisst mun það koma samfélaginu til góða að lokum og vera í raun ódýrara. Það er áskorun fyrir skólakerfi að taka við nýjum nemendum sem eru flóttamenn og viðurkenna sérstakar þarfir þeirra um leið og þau eru studd í að læra og taka þátt í skólastarfi. Mörg börn flóttamanna hafa af ýmsum ástæðum ekki gengið í skóla í langan tíma og sum aldrei.

Sömuleiðis þarf Ísland, og þá skólakerfið um leið, að setja langtímastefnu um móttöku flóttamanna á þessari öld þegar hlýnun jarðar eykst og auknir fólksflutningar eru framundan, kannski í miklum mæli. Þannig er mikilvægt að sett verði heildarstefna og unnið markvisst eftir henni á næstu árum og áratugum. Í slíkri stefnu þarf að skilgreina vel í hverju aðlögun nýrra íbúa skuli vera fólgin og hún studd með raunhæfum aðgerðum. Þá þarf íslenskt samfélag jafnframt að skilgreina á hvern hátt það ætlar sér að vera „fjölmenningarsamfélag“ og hvernig það birtist í skólastarfinu. Fjölbreytni er verðmæti.

Nicole mun jafnframt hitta starfsfólk félagsþjónustunnar og móttökudeildar Lækjarskóla.

Myndin hér ofar er af Nicole og sú neðri af starfsfólki Skólaskrifstofunnar sem hitti hana í dag.

Ábendingagátt