Frístundastarf ungmenna í Hafnarfirði eflt til muna  

Fréttir

Fræðsluráð og fjölskylduráð Hafnarfjarðar lögðu fram á fundum sínum í nýliðinni viku tillögur að metnaðarfullum breytingum á félags-og frístundastarfi í bænum fyrir ungt fólk á aldrinum 16 – 24 ára. Áhersla verður lögð á að efla og útvíkka starfið, brjóta niður múra og bjóða fatlaða sem ófatlaða velkomna í það frístundastarf sem í boði er á vegum bæjarins. 

Aukin þjónusta út til hverfanna í stækkandi bæjarfélagi

Fræðsluráð og fjölskylduráð Hafnarfjarðar lögðu fram á fundum sínum í nýliðinni viku tillögur að metnaðarfullum breytingum á félags-og frístundastarfi í bænum fyrir ungt fólk á aldrinum 16 – 24 ára. Áhersla verður lögð á að efla og útvíkka starfið, brjóta niður múra og bjóða fatlaða sem ófatlaða velkomna í það frístundastarf sem í boði er á vegum bæjarins. Ástæðurnar eru helstar örar breytingar í samfélaginu, krafa um aukna þátttöku ungmennanna og jöfn tækifæri allra, sem og stækkandi bær þar sem kallað er eftir aukinni þjónustu út til hverfanna. Starfshópur verður skipaður á næstu dögum sem mun útfæra tillögurnar með öllum hlutaðeigandi; fulltrúum ungmennaráðs og öðrum notendum þjónustunnar. Engin breyting verður á þeim samstarfsverkefnum í ungmennastarfi sem skipulögð hafa verið fram á haustið.

Úr einu húsi í tvö – aðlöguð þjónusta   

Lagt er til að skipulagt ungmennastarf verði á tveimur stöðum í bænum í stað eins og að samþætt þjónusta fyrir fatlað fólk flytji í núverandi húsnæði ungmennahúss að Suðurgötu. Samþætta þjónustan nær til sameiningar á Hæfingarstöðinni Bæjarhrauni við þau vinnu- og virkni úrræði fyrir fatlað fólk sem fyrir eru í húsnæðinu. Frá og með hausti verður  starfsemi fyrir hafnfirsk ungmenni  annars vegar að Selhellu 7, sem í dag hýsir einnig Brettafélag Hafnarfjarðar í hluta húsnæðisins, og hins vegar í Menntasetrinu við Lækinn en þar eru fyrir Nýsköpunarsetrið við Lækinn og Tæknideild Háskóla Íslands. Báðar staðsetningar bjóða upp á mikil tækifæri og möguleika og verður  starfsemin á báðum stöðum  þróuð með ungmennum á þeirra forsendum og áhersla lögð á að tryggja að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sé mætt.. Samhliða er kallað eftir aukinni aðstoð við námsval og starfsþjálfun og áhersla lögð á að fjölga tækifærum til atvinnu- og starfsþjálfunar fyrir ungmenni og greiða aðgang þeirra að mótun og framkvæmd nýsköpunarverkefna þeim til virkni og viðurkenningar.  

Svar við ákalli ungmenna, foreldra og fulltrúa   

Undanfarin ár hafa einkennst af ákalli ungmenna, ungmennaráðs Hafnarfjarðar, foreldra sem og kjörinna fulltrúa um aukna þjónustu við allt ungt fólk í Hafnarfirði, fatlað jafnt sem ófatlað. Þjónusta við ungt fólk, fræðsla og stuðningur skiptir sköpum í nútímasamfélagi og þá ekki síst hvað varðar forvarnir og geðrækt. Markmiðið með breytingunum er að ýta undir og búa til  fjölbreytt og skapandi frístundastarf fyrir ungt fólk í Hafnarfirði með áherslu á fræðslu, þroska og farsæld. Endurspegla breytingarnar tillögur m.a. Sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins um forvarnir og geðrækt hjá ungmennum, lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og markmið barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Ítarlegri upplýsingar um tillögurnar:  

  • Aukin þjónusta sem styrkir ungt fólk  – aðstaða og aðgengi að sálfræðingum svo sem í gegnum Bergið Headspace verður aukin sem og önnur þjónusta sem styrkir ungt fólk  
  • Fjölbreytt listsköpun – tækifæri til fjölbreyttrar listsköpunar verði aukin með nýrri staðsetningu og auknu aðgengi að tækjum og tólum í Nýsköpunarsetrinu við Lækinn 
  • Forvarnir, fræðsla og heilbrigður lífsstíll – í húsnæði m.a. Brettafélags Hafnarfjarðar  að Selhellu verður efld og þróuð dagskrá fyrir ungt fólk sem byggir á þeirra tillögum  
  • Músik og mótor – starfsemi Músik og Mótor verður óbreytt  
  • Vinaskjól og Kletturinn – úrræði fyrir fötluð börn og ungmenni mun flytja á Selhellu í haust og tengjast betur við aðra þjónustu og virkni. Markmiðið er að minnka aðskilnað þessara hópa og samræma og bæta þjónustuna 
  • Ungmennahúsið Hamarinn – starfsemi Hamarsins verður lögð niður í núverandi mynd og staðsetningu á Suðurgötu 14 um miðjan ágúst.  
  • Samþætt þjónusta og aukin samlegð á Suðurgötu 14 – Hæfingastöðin Bæjarhrauni flytur á Suðurgötuna og við það skapast spennandi tækifæri til framtíðar fyrir fólk á öllum aldri.  

Minnisblað sem lagt var fyrir í fræðsluráði og fjölskylduráði

Ábendingagátt