Fyrir og eftir keppni Vinnuskóla Hafnarfjarðar

Fréttir

Um 1.300 ungmenni eru við störf í Vinnuskóla Hafnarfjarðar sumarið 2023. Vinnuskólinn er hugsaður sem fyrsti vinnustaður ungmenna þar sem þau fá að upplifa það að vera á vinnumarkaði og læra að vera hluti af honum í öruggu starfsumhverfi. Öldutúnsskóli stóð uppi sem sigurvegari í hreinsikeppninni 2023.

Um 1.300 ungmenni við störf í vinnuskóla sumarið 2023

Vinnuskóli Hafnarfjarðar er hugsaður sem fyrsti vinnustaður barna og ungmenna þar sem þau fá að upplifa það að vera á vinnumarkaði og læra að vera hluti af honum í öruggu starfsumhverfi. Í ár starfa við vinnuskólann 1.091 ungmenni á aldrinum 17 ára og yngri við fjölbreytt störf á 57 starfstöðvum um allan bæ. 186 ungmenni 18 ára og eldri eru starfandi hjá vinnuskólanum. Eitt helsta verkefni vinnuskólans ár hvert er að halda bænum hreinum og fallegum. Líkt og síðustu ár blés vinnuskólinn nýverið til samkeppni á milli svæða og hverfa.

Öldutúnsskóli vann keppnina um best hreinsaða svæðið 2023

Viðmið í vinnuskólanum er að brjóta upp starfið reglubundið á hverju sumri og hin síðustu ár hefur hópurinn blásið til keppni milli skólahópa sem snýr að hreinsun svæða og því að vera með flottustu fyrir og eftir myndirnar. Nær undantekningarlaust sameinast skólahóparnir í samkeppninni og allir taka þátt í að vinna að því sameiginlega markmiði að vera með best hreinsaða svæðið. Afraksturinn var mikill hjá öllum hópum en í þetta skiptið var það Öldutúnsskóli sem bar sigur úr býtum og fékk að launum pizzaveislu fyrir allan hópinn.

Virkni, rútína og samvera með jafnöldrum yfir sumarið

Vinnuskólinn snýst ekki aðeins um vinnuna sjálfa heldur er hann líka hugsaður til að virkja ungmenni félagslega, hjálpa þeim að halda rútínu og draga úr félagslegri einangrun á sumrin. Mikið er lagt upp úr því að það sé gaman í vinnunni og hefðbundinn vinnudagur brotinn upp með jafningjafræðslu, keppni um best hreinsaða svæðið og uppskeruhátíð í lok sumars. Oft á tíðum eru þetta fyrstu kynni barna og ungmenna af launuðu starfi og veitir vinnuskólinn þeim tækifæri til að taka þessi fyrstu skref undir handleiðslu og með jafnöldrum. Hafnarfjarðarbær tryggir öllum ungmennum á aldrinum 14-17 ára vinnu í vinnuskólanum. 14 ára fá vinnu í almennum hópi í sínu skólahverfi og strax ári seinna bjóðast auknir möguleikar og tækifæri fyrir þá sem vilja taka vinnuna og verkefnin alla leið og sanna sig í starfi. Fjölbreytt störf eru í boði fyrir 18 ára og eldri en ekki hægt að tryggja öllum í þeim aldurshópi vinnu hjá vinnuskólanum.

17 ára og yngri – verkefni

  • Almennir hópar í hverfum
  • Íþrótta- og tómstundafélög
  • Sumarfrístund frístundaheimilanna
  • Leikskólar
  • Morgunhópar í miðbænum
  • Jafningjafræðsla
  • Listahópur
  • Verkher
  • Annað tilfallandi

18 ára og eldri – verkefni

  • Umsjónarmaður vinnuskóla
  • Verkstjórar vinnuskóla
  • Flokkstjórar í öllum hópum
  • Verkstjórar í slátturhóp
  • Verkstjórar í blómahóp
  • Verkstjórar í viðhaldshópum
  • Skapandi sumarstörf
  • Pokabíll
  • Lager
  • Hellisgerðishópur
  • Íþrótta- og tómstundafélög
  • Annað tilfallandi

Fögnum unga fólkinu okkar og hvetjum það jákvætt áfram til árangurs og verkefna.

Upplýsingar um Vinnuskóla Hafnarfjarðar

Ábendingagátt