Fyrst og fremst uppbyggilegur félagsskapur

Fréttir

Sumarið 2020 varð til sérstakt verkefni sem miðar að því að auka þátttöku barna af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi. Í Hvaleyrarskóla er fjölbreyttur nemendahópur og var riðið á vaðið þar sl. haust og ráðinn starfsmaður í verkefnið. 

Sumarið 2020 varð til sérstakt verkefni sem miðar að því að auka þátttöku barna af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi. Í Hvaleyrarskóla er fjölbreyttur nemendahópur og var riðið á vaðið þar sl. haust og ráðinn starfsmaður í verkefnið, Einar Karl Ágústsson, sem einnig er íþróttaþjálfari. Hann sinnir verkefninu, ásamt Steinari Stephensen deildarstjóra, samhliða öðrum störfum. 

Bæjarblaðið Hafnfirðingur hitti þá félaga og einn alsælan fulltrúa nemenda, hinn pólska Damian Tomalak, sem æfir sund í Suðurbæjarlaug, hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar.

„Við gerðum lista yfir alla nemendur skólans sem eru af erlendum uppruna og fórum svo bara í að tala beint við krakkana og spyrja þau um áhugasvið þeirra. Við skráðum þau svo hjá okkur,“
segir Steinar. Einhver barnanna voru þá þegar að æfa íþróttir. Haft var samband við foreldra og þeim bent á möguleika og tækifæri til íþrótta- og tómstundaiðkunar í sveitarfélaginu og frístundastyrkir og aðrir möguleikar kynntir. Þar sem viðbrögð voru jákvæð tók við skráningarferli í gegnum Mínar síður á vef Hafnarfjarðarbæjar sem síðan reyndist það flóknasta við ferlið vegna tungumálaörðugleika foreldranna sem síðan voru ekki allir með rafræn skilríki. „Við getum ekki skráð krakkana, bara forráðamenn og til að byrja með er skráningarkerfið ákveðin hindrun, en við höfum leiðbeint þeim og stefnum að sjálfbærni þeirra hvað skráningar varðar í framtíðinni. Við verðum að hafa allar nauðsynlegar upplýsingar ef eitthvað kemur upp á í tengslum við tómstundirnar“ segir Einar Karl.

Hafn12MarsIUndir frístundir heyrir m.a. tónlistarnám. Mynd/OBÞ

Gefandi að sjá krakkana ánægða

Í dag eru um 13 – 14 börn frá Póllandi, Filippseyjum og Tælandi á aldrinum 6 – 12 ára virk í íþróttastarfi með tilkomu þessa verkefnis. Þeim er fylgt eftir, aðstoð er veitt ef einhverjar hindranir verða á veginum með persónulegri nálgun og vonandi langtíma áhrif á vellíðan og velsæld barnanna og þátttöku þeirra í samfélaginu. „Það er mjög gefandi að sjá t.d. suma krakkana sem æfa sund tvisvar í viku; tvær stelpur og tvo stráka. Ein stelpan er svo svakalega ánægð og það gengur svo vel hjá henni. Hún var fljótlega færð upp um nokkur þrep á æfingum,“ segir Steinar.

Hafn12Mars3Ein stelpan er svo svakalega ánægð í sundi og það gengur svo vel hjá henni. Mynd/Eva Ágústa Aradóttir

Haukar og FH

Einar Karl þjálfar unglingahóp hjá Haukum og Steinar er tengdur FH svo að þeir hafa góð heimatök hjá sínum félögum með að koma krökkum að. „Það eru fjórir strákar sem æfa fótbolta hjá Haukum og þegar ég rekst á þá þegar ég er á ferðinni á Ásvöllum koma þeir koma alltaf hlaupandi og heilsa,“ segir Einar Karl brosandi og bætir við að þegar hann og Steinar laumuðu því að krökkunum að þeir væru báðir tengdir íþróttafélögum og það þyrfti jafnvel ekki að greiða æfingagjöld hafi sum börnin lagt við hlustir. „Það þarf að vita af styrkjum og stundum að hafa eftir styrkjum til að fá þá. Ég er að bíða eftir svari frá BH því þeir fá líklega styrk fyrir börn af erlendum uppruna til að geta boðið þeim á æfingar í 10 vikur með þjálfara, spaða og kúlur innifalið.“

Hafn12Mars4Steinar og Einar Karl hafa góð tengsl við tvö stærstu íþróttafélög í Hafnarfirði. Mynd/OBÞ

Eftirfylgnin mikilvægust

Steinar segir að verkefnið sé mjög gott en mikilvægust sé þó eftirfylgnin. „Krakkar byrja oft í tómstundum og sýna þeim mikinn áhuga til að byrja með en svo fækkar þeim oft þegar á líður. Fyrsti strákurinn sem fór af stað vildi hætta í því sem hann byrjaði á og prófa annað. Það er líka stundum ágætt að prófa sig áfram.“ Mikilvægt sé að krakkarnir geri eitthvað eftir skóla, hitti aðra krakka og æfi sig í að tala íslensku. „Það er eiginlega aðalatriðið. Ég sé þetta þannig fyrir mér að við förum af stað með þetta og svo vonandi smitar þetta út frá sér smám saman út frá sér og fleiri taka þátt. Íþrótta- og tómstundaflóran er svo fjölbreytt í Hafnarfirði. Það er svo margt í boði en kostnaðurinn misjafn eftir íþróttum og jafnvel biðlistar. Frístundabíllinn er dæmi um frábært framtak. Börnin koma beint úr sínu frístundaheimili og taka bílinn á æfingu og þá líka mæta þau frekar,“ segir Steinar og Einar Karl setur lokapunktinn í spjallið: „Þetta er fyrst og fremst uppbyggilegur félagsskapur fyrir krakkana og að fá þau til að hlakka til þótt ekki sé endilega æft á fullu.“


Forsíðumynd/OBÞ: Einar Karl Ágústsson, Damian Tomalak og Steinar Stephensen.

Viðtal við þá félaga var birt í Hafnfirðingi 9. mars 2021
Þessi umfjöllun er samstarf. 

Ábendingagátt