Leiðtogaskólinn útskrifar fyrstu stjórnendur bæjarins

Fréttir

Fyrstu þrjátíu stjórnendur Hafnarfjarðarbæjar hafa nú útskrifast fyrstir allra úr Leiðtogaskólanum. Markmið skólans eru skýr. Þau eru að skapa menningu árangursmiðaðar stjórnunar á vinnustaðnum í samræmi við einkunnarorð Hafnarfjarðarbæjar: hlýleg, áreiðanleg og snjöll þjónusta.

Öflugri fyrir árangursmiðaða menningu

Fyrstu þrjátíu stjórnendur Hafnarfjarðarbæjar hafa nú útskrifast fyrstir allra úr Leiðtogaskólanum. Því var fagnað með úrskrift í Hafnarborg, þar sem kennslan fór fram, síðdegis í gær,  mánudag. Þau fengu afhent útskriftarskjal og blóm úr höndum bæjarstjóra, Rósu Guðbjartsdóttur, sem óskaði þeim til hamingju og lagði áherslu á mikilvægi þeirra þegar kemur að því að veita góða þjónustu bæjarins.

Markmið skólans eru skýr. Þau eru að skapa menningu árangursmiðaðar stjórnunar á vinnustaðnum í samræmi við einkunnarorð Hafnarfjarðarbæjar: hlýleg, áreiðanleg og snjöll þjónusta.

Kraftmiklir leiðtogar

Guðbjörg Norðfjörð, skólastjóri Hraunvallaskóla, hélt tölu fyrir samnemendurna og sagði ekki sjálfgefið að setja tíma í sjálfsrækt og faglega þróun. „En með því að mæta hingað í hverri viku höfum við sýnt að við erum ekki bara tilbúin að vaxa sem stjórnendur, heldur líka sem einstaklingar,“ sagði hún og talaði um mikilvægi mildi og að horfa til líðans fólks og árangurs vinnustaðarins.

„Þjálfum okkur í að vera kjarkmiklir leiðtogar sem setja heilbrigð mörk, veita endurgjöf, leysa ágreiningsmál og takast á við erfið mál.“ Hún skoraði á samnemendurna að virkja styrkleika annarra í störfum sínum sem stjórnendur hjá Hafnarfjarðarbæ. „Hjálpum fólki að finna og virkja styrkleika sína, styðjum við það og ég er viss um að frábærir hlutir gerast.“ Það að sitja með samstarfsfólki sínu af ólíkum starfstöðvum bæjarins í Leiðtogaskólanum hefði verið mesti lærdómurinn.

„Hafnarfjarðarbær er afar heppinn að eiga svona flottan hóp af fólki sem er tilbúið að gera sitt allra besta til þess að málin gangi upp.“

Valdeflir með þekkingu og hvatningu

Stjórnendurnir fengu meðal annars innsýn í valdeflandi leiðtogaþjálfun, góða stjórnsýslu, hvernig leiðtoginn er hreyfiafl, fjármál, jafnræði og stjórnun.

Stofnun Leiðtogaskólans er liður í því að Hafnarfjarðarbær verði enn eftirsóknarverðari vinnustaður sem samanstendur af öflugu leiðtogateymi og ánægðu starfsfólki í samræmi við mannauðsstefnu Hafnarfjarðarbæjar. Fyrirlesarar koma bæði úr atvinnulífinu og innan Hafnarfjarðarbæjar.

Já, við erum viss um að öflugir stjórnendur gera bæinn enn betri.

 

Ábendingagátt