Gert ráð fyrir ríflegum rekstrarafgangi hjá Hafnarfjarðarbæ 

Fréttir

Tillaga að fjárhagsáætlun 2024 var lögð fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar til fyrri umræðu í dag, miðvikudaginn 8. nóvember. Áætlaður rekstrarafgangur A- og B-hluta sveitarfélagsins nemur 1.894 milljón króna á árinu 2024. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 5,7% af heildartekjum eða 2.788 milljónir króna. Áætlun gerir ráð fyrir að rekstur A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði verði jákvæður um rúma 4 milljarða króna og afkoma A-hluta verði jákvæð um rúman einn milljarð króna. 

Fjárhagsleg staða Hafnarfjarðarbæjar er traust

Tillaga að fjárhagsáætlun 2024 var lögð fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar til fyrri umræðu í dag, miðvikudaginn 8. nóvember. Áætlaður rekstrarafgangur A- og B-hluta sveitarfélagsins nemur 1.894 milljón króna á árinu 2024. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 5,7% af heildartekjum eða 2.788 milljónir króna. Áætlun gerir ráð fyrir að rekstur A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði verði jákvæður um rúma 4 milljarða króna og afkoma A-hluta verði jákvæð um rúman einn milljarð króna. 

Skuldaviðmið áætlað 86% í árslok 2024  

Áætlað er að heildartekjur fyrir A- og B-hluta verði um 48,8 milljarðar króna árið 2024 og að áætluð rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði verði um 42,8 milljarðar króna. Fjárhagsleg staða Hafnarfjarðarbæjar er traust og skuldaviðmið skv. reglugerð 520/2012 áætlað 86% í lok næsta árs. Útsvarsprósenta á árinu 2024 verður óbreytt 14,70% en til að koma til móts við hækkað fasteignamat verður álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðahúsnæði lækkuð úr 0,223% í 0,217%. Þá verður álagningarprósenta fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði jafnframt lækkuð úr 1,400% í 1,387%.  

Helstu tölur úr fjárhagsáætlun 2024 

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta jákvæð um 1.894 milljónir króna 
  • Rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 1.031 milljón króna 
  • Skuldaviðmið áætlað um 86% í árslok 2024  
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta 2.788 milljónir króna eða 5,7% af heildartekjum 
  • Útsvarsprósenta óbreytt eða 14,70% 
  • Álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúða- og atvinnuhúsnæði lækkuð til þess að koma til móts við hækkun fasteignamats 
  • Gert er ráð fyrir almennri hækkun gjaldskrár um 9,9% til þess að mæta verðlags- og launahækkunum umfram áætlanir þessa árs og væntanlegri verðbólgu næsta árs. Gjaldskrá vegna sorphirðu er almennt að hækka um 9,9% en breytt samsetning sorpíláta hjá íbúum getur dregið talsvert úr þeirri hækkun 
  • Áætlaðar fjárfestingar nema tæplega 8,5 milljörðum króna 

„Þar sem rekstur bæjarsjóðs er skilvirkur og fjárhagur sveitarfélagsins traustur munum við koma til móts við íbúa með því að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts milli ára. Á það við um bæði íbúða- og atvinnuhúsnæði. Nú þegar efnahagsaðstæður í þjóðfélaginu eru krefjandi kemur sér vel hve mikils aðhalds hefur verið gætt í rekstri Hafnarfjarðarbæjar á undanförnum árum“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. „Það er jákvætt að sjá að áætlun okkar gerir ráð fyrir að ríflegur afgangur verði af rekstri Hafnarfjarðarbæjar á næsta ári og að skuldahlutföll bæjarsjóðs munu halda áfram að lækka. Lögð er áhersla á að halda lántökum í lágmarki. Þessu náum við á sama tíma og við viðhöldum góðri þjónustu við bæjarbúa og stöndum í mikilli innviðauppbyggingu.“  

Helstu framkvæmdir árið 2024 

Fjárheimild til framkvæmda árið 2024 er tæplega 8,5 milljarðar króna. Í fjárhagsáætlun er lögð áhersla á forgangsröðun í grunnþjónustu, svo sem umhverfismálum, samgöngum, íþróttaaðstöðu og húsnæðis- og fráveitumálum. Haldið verður áfram frágangi á nýbyggingarsvæðum víðs vegar um bæinn, svo sem við malbikun, umferðaröryggismál, gerð stétta, stíga og leiksvæða og almenna grænkun svæða. Unnið verður að endurgerð gatnamóta, gangstétta og gönguleiða, sem og endurnýjun eldri leiksvæða. Sérstöku fjármagni er veitt í að efla hjólreiðaleiðir. Verið er að fjölga grenndarstöðvum og verður farið í frágang við þær. Þá er lögð áhersla á að auka gróður í hverfum bæjarins. Farið verður í ýmis verkefni, endurbætur og viðhald á skólahúsnæði og -lóðum auk þess sem hafinn er undirbúningur að nýjum leik- og grunnskóla í Hamranesi. Þá hefst endurskipulagning á húsnæði ráðhússins. Áfram verður haldið með endurbætur á aðstöðu Suðurbæjarlaugar og undirbúningur hefst að hönnun á útisvæði við Ásvallalaug.  Unnið er að uppbyggingu á nýju knatthúsi á félagssvæði knattspyrnufélagsins Hauka en áætlanir gera ráð fyrir að húsið verði tekið í notkun í lok árs 2024. Einnig er unnið að byggingu nýrrar reiðhallar á félagssvæði hestamannafélagsins Sörla og mun henni ljúka á næstu tveimur árum. Lokið verður við gerð hybrid-grasvallar Fimleikafélags Hafnarfjarðar og aðstaða í íþróttahúsinu við Strandgötu verður lagfærð.  

Afgreiðsla fjárhagsáætlunar 

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar er lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 8. nóvember 2023. Fjárhagsáætlun nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2025-2027. Gert er ráð fyrir að seinni umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar í bæjarstjórn verði mánudaginn 4.  desember 2024. 

Fjárhagsáætlun og málaflokkayfirlit 2024-2027

Ábendingagátt