Grænfáni til vinnuskóla

Fréttir

Vinnuskóli Hafnarfjarðar tók í dag í fyrsta sinn á móti Grænfánanum, umhverfisviðurkenningu frá Landvernd fyrir árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Vinnuskólinn hefur nú í eitt ár unnið markvisst að því að öðlast þessa viðurkenningu meðal annars fyrir ríka áherslu skólans á umhverfisfræðslu, umhverfisverndun, endurnýtingu og orkusparnað.

Vinnuskóli Hafnarfjarðar tók í dag í fyrsta sinn á móti Grænfánanum, umhverfisviðurkenningu frá Landvernd fyrir árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Vinnuskólinn hefur nú í eitt ár unnið markvisst að því að öðlast þessa viðurkenningu meðal annars fyrir ríka áherslu skólans á umhverfisfræðslu, umhverfisvernd, endurnýtingu og orkusparnað. Við afhendinguna las Geir Bjarnason, íþrótta- og
æskulýðsfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, upp ljóðið Grjót. Mosi. Vatn. eftir Anton Helga Jónsson. 

Allir geta gert eitthvað en enginn getur gert allt

„Allir geta gert eitthvað en enginn getur allt“ er slagorð Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Sumarið 2015 markar fyrsta tímabilið sem Vinnuskóli Hafnarfjarðar tekur þátt í Grænfánastarfinu. Flokkstjórar Vinnuskóla byrjuðu á því að setja saman sérstakan umhverfishóp, með ungmennum á aldrinum 15-18 ára, sem sinnir meðal annars því mikilvæga hlutverki að sjá umhverfisfræðslu með flokkstjóra. Umhverfishópurinn starfar sem umhverfisnefnd yfir sumarið og fundar þannig reglulega með viðeigandi aðilum þar sem árangur í flokkun, fræðslu og verndun er meðal annars ræddur. Meðal ákvarðana umhverfishóps er að vinna með það fyrir augum að „ekkert sé einnota“ og að úrgangur sé minnkaður. Umhverfishópurinn hefur frá síðasta sumri sett upp vel merktar flokkunartunnur, moltutunnu og losað skólann við öll umhverfisspillandi efni auk þess að bera áfram þekkingu og fræðslu til annarra ungmenna sem við skólann starfa og áfram út í samfélagið.  Verkfæri hafa verið endurnýtt, allri notkun á einnota plasti og pappa hætt og margnota mál tekin í notkun í staðinn. Umhverfishópurinn sá til þess að sett markmið næðust með reglulegu eftirliti, upplýsingum og endurgjöf auk þess að starfa eftir aðgerðaáætlun. 

Ungur fræðir ungan

Vinnuskólinn starfar ekki eins og hefðbundinn skóli heldur vinnur með óhefðbundnar aðferðir eins og jafningjafræðslumódelið sem í grunninn gengur út á það að „ungur fræðir ungan“. Lögð er áhersla á að sýna og kynna hafnfirskum ungmennum fyrir því hvernig allt passar saman í „stóru myndina“. Sjálfbærni, lýðræði, mengun, matarsóun, tískusóun, gróðurhúsaáhrif og loftlagsbreytingar eru meðal málefna sem í umræðu eru innan hópsins. Áhersla er lögð á góða og innihaldsríka fræðslu til ungmenna í umhverfishópi svo þau geti haldið áfram að fræða önnur ungmenni. Árangur kennslu er síðan kannaður með könnun. Hópurinn hélt starfi sínu áfram allt síðasta sumar, færði fræðslu heim til fjölskyldu og vina, kynntu starf sitt til bæjarbúa, ungmenna á námskeiðum ÍTH, bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar, starfmanna bæjarins og fleiri aðila. Þá hefur hópurinn haldið skiptimarkað, verið með andlitsmálningu fyrir börn þar sem þemað var „móðir jörð“ og gert plakat sem vísar til framlags einstaklingsins og umhverfismeðvitundar hans. Að auki tók hópurinn þátt í hálendisverkefni Landverndar „Hjarta Landsins“ sem fól m.a. í sér fræðslu til gesta og gangandi við Strandgötuna í Hafnarfirði. Eftir vinnu umhverfishóps síðasta sumar stendur eftir hvorutveggja umhverfissáttmáli og umhverfisstefna fyrir vinnuskólann. Sáttmáli sem settur var í upphafi til að marka leiðina og stefna sem unnin var jafnt og þétt yfir sumarið.


Umhverfissáttmáli Vinnuskóla Hafnarfjarðar

  • Vinnuskóli leggur áherslu á umhverfisfræðslu með það að markmiði að starfsfólk geri sér grein fyrir gildi umhverfisverndunar og móti sér lífstíl í anda hennar
  • Vinnuskóli leggur áherslu að endurnýta allt efni sem er hægt að endurnýta t.d. pappír, flöskur, dósir og fleira
  • Vinnuskóli leggur áherslu á að spara orku
  • Vinnuskóli leggur áherslu á að nota lífrænan úrgang fyrir jarðveg
  • Vinnuskóli leggur áherslu á að vera til fyrirmyndar í umhverfisverndun
  • Stofnað hefur verið umhverfisráð á vegum vinnuskólans og fundar það eitt sinn í viku hverri 


Umhverfisstefna Vinnuskólans

  • Vinnuskóli stefnir á að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum
  • Vinnuskóli vill vekja starfsmenn sína til umhugsunar um umhverfismál
  • Vinnuskóli stefnir á að skapa jákvæða umræðu varðandi umhverfismál
  • Vinnuskóli hefur sem stefnu að kynna Grænfána starfið og mikilvægi þess til starfsmanna


Um Grænfánann

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni sem miðar að því að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. Skólar ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Þegar því marki er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Grænfáninn er viðurkenning sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum og sjálfbærni innan skólans. Jafnframt sýnir reynslan að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri. Grænfánaverkefninu á Íslandi er stýrt af Landvernd sem er aðili að alþjóðlegu samtökunum FEE. Stýrihópur um Grænfána er Landvernd til fulltingis um allt sem viðkemur verkefninu.

Ábendingagátt