Hafnarfjarðarbær kominn á kaf í spunagreind

Verkefnasögur

Mávurinn Auður; spjallmenni Hafnarfjarðarbæjar fékk athygli á ráðstefnu Skýs, Heitustu tölvumálin framundan, sem haldin var á dögunum.

Mávurinn Auður er spjallmenni í fremstu röð

„Spunagreind. Með henni koma breyttar kröfur, bæði frá notanda og þeim sem vinna með hana,“ sagði Ingvar Högni Ragnarsson, verkefnastjóri starfrænnar þróunar Hafnarfjarðarbæjar á ráðstefnu Skýs sem haldið var í Norðurljósasal Hörpu á dögunum. Yfirskriftin ráðstefnunnar var; Heitustu tölvumálin framundan.

„Þessi tækni gerir nýjar kröfur um framsetningu, strúktur og hvernig við geymum gögn. Öryggi er einnig risastór spurning; hvað má og hvað má ekki,“ sagði hann og lýsti því hvernig stafræna teymi Hafnarfjarðarbæjar hafi metið verkefnin og hvernig mætti halda inn á þessa braut. „Við vildum ekki stoppa, heldur halda áfram og taka þátt,“ sagði hann úr pontu.

Ingvar Högni Ragnarsson, verkefnastjóri starfrænnar þróunar Hafnarfjarðarbæjar.

Fundu mesta virðið fyrir þjónustuna

„Við þurfum að hugsa skynsamlega sem sveitarfélag og við hugsuðum: Hvar byrjar maður og hvernig? Svo hugsar maður: Hvað má og hvað ekki?“ Síðan hafi leitin að mesta virðinu fyrir íbúa Hafnarfjarðar hafist; ytri og innri aðstæður hafi verið metnar.

Við leitina hafi verið ljóst hafi að ChatGPT hafi skilað betri og skýrari niðurstöðum við fyrirspurnum en fyrri leitarvel bæjarvefjarins. „ChatGPT var betri í að finna nákvæmari upplýsingar,“ lýsti Ingvar. Ljóst hafi verið að þessi leið væri að ryðja sér leið því leitarvélanotkun hjá Google sé að minnka. Bærinn hafi við þessa vitneskju horfið frá hönnun dýrkeypts, tímafreks spjallmennis, sem hafi verið í þróun, og hafið þróun á snjallmenni sem nýtti ChatGPT. En hver er munurinn?

Miklir kostir með ChatGPT

„Jú, með ChatGPT fæst ákveðinn aðstoðarmaður, góður í að semja texta og umorða, góður í þýðingum,“ sagði hann. Hafnarfjarðarbær hafi unnið lausnina með Avista.

„Þeim leist vel á hugmyndina og fannst spennandi að fara í þessa vinnu.“ Spjallmennið styðjist við vefi Hafnarfjarðar, HMS, skattsins, vef Alþingi og áþekkra vefja til að dýpka svörin til íbúa. „Við gátum stillt svörun. Ef spurt var flókið, var svarið samt stutt.“

Ingvar segir að það hafi verið mikilvægt að Auður spjallmenni fylgdi hönnunarstaðli Hafnarfjarðarbæjar. En Auður hafi líka komið á óvart. „Það sem gerðist eftirá, og við báðum hana ekki um, var að hún lærði Hafnarfjarðarbrandara.“

Ingvar segir spjallmennið greina hvernig fólk spyr og birta á mælaborði. „Við þurfum þá ekki að fara yfir endalaus spjöll við Auði.“ Hún geri það sjálf.

Þróa líka leitarvélina

Ingvar sagði frá því á fundinum að nú væri ný leitarvél í vinnslu. Gefa mætti henni aðrar forsendur en spjallmenni. „Hún fær aðgang að fundargerðum, fréttum, viðburðum,“ sagði hann.

„Leitin þar er hugsuð sem stikkorðaleit. Ef að leitin skilar ekki niðurstöðu getur sá sem spyr fært leitina til spjallmennisins. Þú getur líka sameinað þetta. Þetta er það sem við erum að vinna og þróa og skilgreina í þessari flokkun. Út frá þessu má leita að ákveðnu efni í fundargerðum og biðja Auði að gera samanburð úr fundargerðum og þrengja leitina niður, eða útbúa samantektir.“

Já, ljóst var þennan morgun að Hafnarfjarðarbær stendur afar framarlega í þróun þjónustu við íbúa. Áfram Auður – Áfram starfræna teymi Hafnarfjarðar, en einmitt þessi vinna og stafræn umbreyting Hafnarfjarðar leiddi til nýsköpunarverðlauna hins opinbera fyrr á árinu.

Ábendingagátt