Hafnarfjarðarbær fær jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs

Fréttir

Í dag afhenti Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs við hátíðlega athöfn í Hannesarholti. Framsækin og metnaðarfull stefna Hafnarfjarðarbæjar gerir sveitarfélagið að heildstæðum brautryðjenda á sviði jafnréttismála segir í rökstuðningi Jafnréttisráðs. 

 Það var Haraldur L. Haraldsson sem tók á móti verðlaununum fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar ásamt hópi frá hinum ýmsu starfsstöðum bæjarins og fulltrúum í bæjarráði sem fer með jafnréttismál sveitarfélagsins. „Við erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð á undanförnum árum og það var sannarlega ánægjulegt að uppfylla þær kröfur sem lagðar eru fram samkvæmt jafnlaunastaðlinum fyrst sveitarfélaga.“ 

Haraldur fór yfir árangurinn og frekari markmið sveitarfélagsins í málaflokknum. Svo bætti hann við. „Mig langar að nota tækifærið og þakka öllu starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar. Jafnréttisviðurkenning jafnréttisráðs er enn ein rósin í hnappagat starfsfólksins og fyrir hana erum við afar þakklát.“

Hafnarfjarðarbær var fyrst íslenskra sveitarfélaga til að fá vottað jafnlaunamerki frá velferðarráðuneytinu. Markmiðið með innleiðingunni var að koma á og viðhalda launajafnrétti hjá Hafnarfjarðarbæ og uppfylla skyldur atvinnurekenda um að tryggja jafnan rétt kvenna og karla, greiða þeim jöfn laun og tryggja að þau njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Starfshópurinn sem stýrði innleiðingunni var skipaður af Andra Ómarssyni verkefnastjóra, Berglindi Guðrúnu Bergþórsdóttur mannauðsstjóra, Haraldi Eggertssyni verkefnastjóra  og Lúvísu Sigurðardóttur gæðastjóra.  

Druslugangan fékk einnig sömu verðlaun í dag fyrir mikilvægt grasrótarstarf sem hefur haft afgerandi áhrif á samfélagið og opnað umræðuna um kynferðisofbeldi. 

Rökstuðningur fyrir jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs:

Hafnarfjarðarbær er framsækið sveitarfélag á sviði jafnréttismála og hlaut í sumar, fyrst íslenskra sveitarfélaga, vottun um að það starfræki launakerfi sem stenst kröfur jafnlaunastaðalsins.

Hafnarfjarðarbær hefur unnið markvisst að launajafnrétti frá árinu 2013 en þá hóf sveitarfélagið þátttöku í tilraunaverkefni fjármála- og velferðarráðuneytisins um innleiðingu jafnlaunakerfis samkvæmt jafnlaunastaðli.

Markmið Hafnarfjarðarbæjar með þátttöku í verkefninu var að koma á og viðhalda launajafnrétti meðal starfsmanna bæjarins með því að tryggja jafnan rétt kvenna og karla til sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.   

Hafnarfjarðarbær vinnur samkvæmt starfsmatskerfi sveitarfélaga en þar er lagt samræmt mat á ólík störf. Starfsmatið gerir forsendur launaröðunar sýnilegar þannig að mögulegt er að ákvarða sömu laun fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf, óháð kyni, starfstöð eða stéttarfélagi.

Í dag starfar jafnlaunaráð hjá Hafnarfjarðarbæ og eru fulltrúar þess útnefndir af sviðsstjórum sveitarfélagsins og starfa þeir í umboði æðstu stjórnenda þess. Helstu verkefni ráðsins er að framfylgja aðgerðaáætlun og tryggja virkt eftirlit með launaákvörðunum sem m.a. felst í:

•             Rýni yfir launagreiningu og aðgerðaráætlun sem gerð er út frá henni
•             Rýni innsendra ábendinga
•             Framkvæmd innra eftirlits og úttekta
•             Að upplýsa æðstu stjórnendur um verkefnastöðu
•             Upplýsingagjöf til alls starfsfólks um jafnlaunakerfi bæjarins

Jafnlaunakerfið auðveldar sýnileika og eftirlit með því hvernig markmiðum sveitarfélagsins um að vinna að launajafnrétti og viðhalda því á opinn og gagnsæjan hátt, er fylgt eftir.
Annað markmið Hafnarfjarðarbæjar, fyrir utan vinnu við að tryggja konum og körlum jöfn laun, er að nýta jafnréttisáætlun sína til að stuðla að sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í stjórnunarstöðum og í ákveðnum starfsgreinum hjá sveitarfélaginu. Þessu er framfylgt með reglulegri úttekt á fjölda stjórnenda eftir kynjum og kynjahlutfall innan ákveðinna starfsgreina og brugðist er við kynjahalla eftir því sem við á.

Hafnarfjarðarbær setti sér Jafnréttis- og mannréttindastefnu í ársbyrjun 2017. Hún var unnin af þverpólitískum starfshópi sem mannauðsstjóri starfaði með en samkvæmt henni á að vinna markvisst gegn allri mismunun. Stefnan nær til ólíkra hlutverka sveitarfélagsins, þ.e. sem stjórnvalds, vinnuveitanda og veitanda þjónustu og til samstarfsaðila. Öllum stofnunum sveitarfélagsins ber að vinna samkvæmt henni og hver stofnun tilnefnir jafnréttisleiðtoga sem er ætlað að vera málsvari kynjasamþættingar í öllu starfi sveitarfélagsins.

Af framangreindu má sjá að Hafnarfjarðarbær rekur mjög framsækna og metnaðarfulla stefnu í jafnréttismálum. Þessi markvissa vinna sveitarfélagsins á sviði jafnréttismála, þar með talin jafnlaunavottunin, gerir Hafnarfjarðarbæ að heildstæðum brautryðjanda á sviði jafnréttismála á sveitarstjórnarstigi. Sú reynsla og þekking sem Hafnarfjarðarbær hefur byggt upp í gengum metnaðarfullt starf ætti að vera öðrum sveitarfélögum til eftirbreytni og hvatningar. Því teljum við Hafnarfjarðarbæ vel að jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs kominn. 

Ábendingagátt