Hagir og líðan hafnfirskra ungmenna 2022

Fréttir

Ár hvert taka nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar þátt í stórri landskönnun Rannsókna og greininga um hagi og líðan ungmenna. Markmiðið er að skoða sem flesta félagslega þætti í lífi ungs fólks og gefa niðurstöður ákveðna mynd af lífstíl, líðan, viðhorfi og vímuefnaneyslu ungmenna í hverju sveitarfélagi. Vímuefnaneysla ungmenna á Íslandi er með því lægsta sem gerist í hinum vestræna heimi. Áskoranir tengdar nýjum vörum og varningi og tíðarandanum snúa í dag helst að notkun orkudrykkja og nikótínpúða, almennri líðan og ónægum svefni. Könnun ársins var framkvæmd í febrúar/mars.

Niðurstöður gefa ákveðna mynd af lífstíl, líðan og viðhorfi 

Ár hvert taka nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar þátt í stórri landskönnun Rannsókna og greininga um hagi og líðan ungmenna. Markmiðið er að skoða sem flesta félagslega þætti í lífi ungs fólks og gefa niðurstöður ákveðna mynd af lífstíl, líðan, viðhorfi og vímuefnaneyslu ungmenna í hverju sveitarfélagi. Vímuefnaneysla ungmenna á Íslandi er með því lægsta sem gerist í hinum vestræna heimi. Áskoranir tengdar nýjum vörum og varningi og tíðarandanum snúa í dag helst að notkun orkudrykkja og nikótínpúða, almennri líðan og ónægum svefni. Könnun ársins var framkvæmd í febrúar/mars.

Skýrsla með niðurstöðum fyrir Hafnarfjörð

HelstuTolurHafnarfjordur2022

Kynnum okkur niðurstöðurnar, þekkjum áskoranirnar og tökum virkan þátt 

Foreldrar, forsjáraðilar og allir þeir sem vinna með börnum og ungmennum eru hvattir til að kynna sér niðurstöðurnar fyrir Hafnarfjörð. Í grunninn eru niðurstöðurnar nokkuð góðar en ákveðin þróun að eiga sér stað sem nauðsynlegt er að bregðast við og fylgjast vel með. Neysla á vímuefnum er áfram lág en neysla á orkudrykkjum og niktótínpúðum hefur aukist og svefn minnkað milli ára auk þess sem hafnfirsk ungmenni meta andlega líðan sína lakari nú samanborið við fyrri ár. Niðurstöður sýna að verndandi þættir eins og samvera við foreldra og félagsstarf dregur úr áhættuhegðun og eykur vellíðan.

Nokkur dæmi um verndandi þætti sem hafa jákvæð áhrif á líðan barna:

  1. Samvera foreldra og
    barna
  2. Nægur svefn
  3. Foreldrar sýni umhyggju
    og setji skýr mörk
  4. Foreldrar þekki vini
    barna sinna og foreldra vinanna
  5. Þátttaka barna í
    skipulögðu frístundastarfi
  6. Virða útivistartíma
    og barnaverndarlög
  7. Skýr afstaða gegn neyslu
    áfengis, vímuefna, tóbaks, nikótínpúða og rafretta
  8. Samstarf, traust og
    þátttaka í foreldrastarfi, t.d. foreldraráðum og
    foreldrarölti

Mikilvægt er að allir rói í sömu átt, þekki áskoranirnar og taki þátt í samtali og forvörnum þannig að sem bestur og mestur árangur náist.

Skýrsla með niðurstöðum fyrir Hafnarfjörð

Rannsóknir mikilvægt innlegg í öflugt forvarnarstarf 

Forvarnarstarf meðal ungmenna hefur verið mjög öflugt á Íslandi undanfarin ár og er hið svokallaða „Íslenska forvarnarmódel“ nú notað sem fyrirmynd forvarnarstarfs víðsvegar um heiminn. Rannsóknir og greining hefur kappkostað að hámarka nýtingu niðurstaðna með því að greina staðbundnar niðurstöður fyrir sveitarfélög, hverfi, skóla og aðra hagsmunaaðila ár hvert. Markmið og tilgangur er að færa niðurstöðurnar til þeirra sem vinna með íslenskum ungmennum og vinna að því að bæta líf þeirra og umhverfi. Rík áhersla er lögð á að kortleggja og meta þá þætti sem skipta máli í lífi ungmenna hverju sinni og fylgjast með breytingum í samfélaginu. Hver og einn grunnskóli fær til að mynda niðurstöður fyrir sinn skóla sem nýttar eru endurmat, áherslubreytingar og skipulagningu á skóla- og frístundastarfi. 

Ábendingagátt