Haustsýning Hafnarborgar 2015

Fréttir

Nú hefur farið fram lokaval á tillögum að haustsýningu í
Hafnarborg 2015 en það var tillaga Aðalheiðar Valgeirsdóttur og Aldísar
Arnardóttur sem varð fyrir valinu.

Nú hefur farið fram lokaval á tillögum að haustsýningu í Hafnarborg 2015 en það var tillaga Aðalheiðar Valgeirsdóttur og Aldísar Arnardóttur sem varð fyrir valinu. Sýningartillagan sem ber vinnutitilinn Heimurinn án okkar leiðir saman íslenska listamenn af ólíkum kynslóðum sem vinna með hugmyndir um alheiminn í verkum sínum. Sýningartillagan fjallar um tíma og rúm þar sem massi og kraftur koma saman og mörk fjarlægðar og nálægðar verða óræð. Það er því óhætt að segja að spennandi sýning er í vændum.

Í haust kynnti Hafnarborg í fimmta sinn, verkefni sem hafði það markmið að gefa sýningarstjórum kost á að senda inn tillögu að haustsýningu í Hafnarborg 2015. Höfundar tillaganna sem bárust eiga að baki ólíkan náms og starfsferil sem tengist myndlist og menningartengdum verkefnum en hafa þó ekki tekið að sér hlutverk sýningarstjóra áður. Það er síðan Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinnings tillöguna ár hvert.

Aðalheiður Valgeirsdóttir útskrifaðist af Grafíkdeild MHÍ 1982. Hún hóf ferill sinn sem myndlistarmaður með grafíkverkum og teikningum en sneri sér fljótlega alfarið að málverkinu í listsköpun sinni. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á landi og erlendis. Aðalheiður lagði stund á listfræði við Háskóla Íslands og hlaut þaðan BA gráðu árið 2011 og MA gráðu árið 2014. Lokaritgerð Aðalheiðar ber titilinn Pensill, sprey, lakk og tilfinning. Málverkið á Íslandi á 21. Öld.  Þar fjallar hún um eðli málverksins, nálgun íslenskra samtímalistamanna á því í listsköpun sinni og endurskilgreiningu málverksins með tilkomu nýrra miðla.

Aldís Arnardóttir útskrifaðist með MA gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA prófi árið 2012. Í masters ritgerð sinni fjallar hún um norrænu myndlistarsýninguna Experimental Environment II sem haldin var að Korpúlfsstöðum árið 1980. Í störfum sínum hefur Aldís fengist nokkuð við skrif og hefur hún gert sýningartexta fyrir bæði listamenn og gallerí. Einnig sat hún í ritstjórn og skrifaði greinar fyrir Sirkústjaldið, vefrit rekið af MA –nemum í menningar greinum við íslensku- og menningardeild HÍ.

Ábendingagátt