Haustsýning Hafnarborgar 2016 – Kallað eftir tillögum

Fréttir

Eins og undanfarin fimm ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að sýningu í Hafnarborg haustið 2016. Sýningin
Heimurinn án okkar sem nú stendur yfir í safninu var valin úr athyglisverðum tillögum sem sendar voru inn á síðasta ári.

Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra sem leggur fram áhugaverða tillögu að sýningu en jafnframt að kalla til leiks nýtt fólk. Þannig er sérstaklega hugað að því að veita tækifæri sýningarstjórum með stuttan feril að baki. Það hefur sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni, en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar og áhugaverðar sýningar sem vakið hafa athygli og verið vel sóttar.

 

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu.  

 

Frestur til að skila inn tillögum rennur út mánudaginn
12. október 2015. Aðeins er tekið við efni rafrænt á netfangið
haust2016@hafnarfjordur.is

 

Árið 2011 hóf haustsýningaröðin göngu sína með sýningunni
Í bili sem unnin var af Ólöfu Gerði Sigfúsdóttur mannfræðingi, 2012 var sett upp sýningin
SKIA í sýningarstjórn Guðna Tómassonar listsagnfræðings og Anna María Bogadóttir menningarfræðingur og arkitekt vann sýninguna
Vísar – húsin í húsinu árið 2013. Á árinu 2014 var hugmynd Helgu Þórsdóttur, menningarfræðings og myndlistarmanns, að sýningunni
Rás valin úr áhugaverðum tillögum. Núna árið 2015 voru þær Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir með tillögu að sýningu sem varð fyrir valinu og ber sýningin heitið
Heimurinn án okkar  þar sem leiddir eru saman íslenskir listamenn sem vinna með hugmyndir um alheiminn í verkum sínum og varpa ljósi á ákveðna þætti hans. Eins og fyrr þá komu tillögurnar frá fólki úr ýmsum geirum, listamönnum og fræðimönnum af ólíkum sviðum en einnig frá fólki með sérmenntun á sviði sýningarstjórnunar. Með haustsýningaröðinni vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir þannig að safnið verði vettvangur þar sem myndlist fær notið sín, mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Sýningarnar og málþing sem skipulögð hafa verið samhliða þeim hafa skapað markverðan vettvang umræðna og þróunar í Hafnarborg.

 

Sendið tillögur á netfangið
haust2016@hafnarfjordur.is

Merkið póstinn
Haust2016.

Nánari upplýsingar í síma Hafnarborgar 585 5790 og á heimasíðu safnsins
www.hafnarborg.is

Ábendingagátt