Haustsýning Hafnarborgar 2022 flæðir að – flæðir frá

Fréttir

Listráð Hafnarborgar hefur valið tillöguna flæðir að – flæðir frá sem haustsýningu ársins 2022 úr hópi þeirra tillagna sem bárust undir lok síðasta árs en vinningstillagan var send inn af Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur. Í sýningarhugmyndinni er sjónum beint að strandlengjunni, sem er jafnt stórbrotin og uppfull af smáum lífverum, viðkvæmum gróðri og fjölbreyttum steinategundum. Takast þar á hið stóra og ofsafengna, hið smáa og viðkvæma, er öldurnar skella með krafti á ströndinni.

Vinningstillaga Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttur

Listráð Hafnarborgar hefur valið tillöguna flæðir að – flæðir frá sem haustsýningu ársins 2022 úr hópi þeirra tillagna sem bárust undir lok síðasta árs en vinningstillagan var send inn af Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur. Í sýningarhugmyndinni er sjónum beint að strandlengjunni, sem er jafnt stórbrotin og uppfull af smáum lífverum, viðkvæmum gróðri og fjölbreyttum steinategundum. Takast þar á hið stóra og ofsafengna, hið smáa og viðkvæma, er öldurnar skella með krafti á ströndinni. 

HaustsyningHafnarborgar2022

Á sýningunni verður strandlengjan skoðuð í gegnum verk listamanna frá ólíkum löndum þar sem sjórinn og strandlengjan mótar bæði menningu og atvinnulíf. Íbúar við sjávarsíðuna hafa í gegnum aldirnar byggt lífsviðurværi sitt að stórum hluta á nálægðinni við hafið en ströndin skilgreinir bæði mörk heimsins fyrir íbúana og er tenging þeirra við aðra heima. Hlutverk strandlengjunnar í þessu sambandi kann því að varpa ljósi á margvísleg viðhorf til umhverfisins, ábyrgð og stöðu mannsins í náttúrunni á mannöld.

Á tímum loftslagsbreytinga má líta á strandlengjuna sem eins konar átakasvæði. Hækkandi sjávarborð hefur bein áhrif á strandlengjuna – lífverur við ströndina eiga eftir að hverfa og aðrar nema land með hækkandi hitastigi og svo getur farið að hugsa þurfi byggð og búsetu við sjóinn út frá nýjum forsendum. Þá mun sýningin draga fram hversu samlíf okkar við náttúruna er viðkvæmt og dýrmætt, í þeirri von að hreyfa við áhorfendum og fá gesti til að hugsa um viðhorf sitt til strandlengjunnar á nýjan hátt og í nýju samhengi.

Listi yfir þátttakendur sýningarinnar verður birtur síðar

Sigrún Alba Sigurðardóttir er sjálfstætt starfandi sýningarstjóri en hún hefur sett upp sýningar í Listasafni Íslands, Listasafni Árnesinga, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og Þjóðminjasafni Íslands. Þá vinnur hún nú að sýningu í samstarfi við Fotografisk Center í Danmörku, Landskrona Foto í Svíþjóð, Northern Photographic Center í Finnlandi og Listasafn Akureyrar. Sýningin verður opnuð í Kaupmannahöfn í janúar 2022. Sigrún Alba er stundakennari í listfræði við Háskóla Íslands og við hönnunardeild Listaháskóla Íslands. Hún hefur gefið út sjö bækur og fjölda fræðigreina, m.a. um íslenska myndlist og ljósmyndun.

Þessi sýning verður sú tólfta í haustsýningarröð Hafnarborgar en markmið hennar er að safnið sé vettvangur þar sem myndlist fái að njóta sín, mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Ábendingagátt