Heilavinátta er nokkurs konar skyndihjálp

Fréttir

Hafnarfjarðarbær og Alzheimersamtökin skrifuðu í byrjun mars undir samstarfsyfirlýsingu um innleiðingu á samfélagi sem er vinveitt, styðjandi og meðvitað um þarfir fólks með heilabilun og aðstandendur þeirra. Þannig mun Hafnarfjarðarbær, með faglegri aðstoð og öflugum stuðningi Alzheimersamtakanna, markvisst varða leið þeirra sem eru með heilabilun með því að ýta undir vitund og þekkingu starfsfólks og íbúa sveitarfélagsins. 

Hafnarfjarðarbær og Alzheimersamtökin skrifuðu í byrjun mars undir samstarfsyfirlýsingu um innleiðingu á samfélagi sem er vinveitt, styðjandi og meðvitað um þarfir fólks með heilabilun og aðstandendur þeirra. Þannig mun Hafnarfjarðarbær, með faglegri aðstoð og öflugum stuðningi Alzheimersamtakanna, markvisst varða leið þeirra sem eru með heilabilun með því að ýta undir vitund og þekkingu starfsfólks og íbúa sveitarfélagsins. Eins og mörgum er kunnugt er í undirbúningi aðstaða fyrir Alzheimersamtökin á 3. hæð í Lífsgæðasetri St. Jó. 

Bæjarblaðið Hafnfirðingur ræddi þessi mál við Herdísi Hjörleifsdóttur, félagsráðgjafa og verkefnastjóra þessa verkefnis hjá bænum.

Herdis2

Frú Eliza Reid hefur verið verndari Alzheimersamtakanna um árabil. Mynd/Alzheimersamtökin

Talið er að fjögur til fimm þúsund einstaklingar búi við heilabilunarsjúkdóma á Íslandi, þar af u.þ.b. 250 manns undir 65 ára aldri. Búast má við verulegri fjölgun samhliða hækkandi aldri þjóðarinnar. Herdís segir að fræðsla og ráðgjöf um einkenni Alzheimer sjúkdómsins sé til þess fallin að ungir sem aldnir íbúar bæjarins sem bera slík einkenni upplifi sig öruggari í samfélaginu. „Markmiðið með innleiðingunni er að auka skilning sem flestra þannig að við getum öll stutt betur við fólk með heilabilun og ýtt undir virka þátttöku þeirra í samfélaginu. Verkefnið verður kynnt í skrefum fyrir íbúum bæjarins,“ segir Herdís. Starfsfólk á stofnunum, í heimaþjónustu, í Hraunseli og mötuneyti eldri borgara muni fara á námskeið þess efnis og svo verði opið hús fyrir eldri borgara um leið og aðstæður leyfa. „Markmiðið er að allir skólar og stofnanir bæjarins gerist Heilavinir og samhliða eða í framhaldinu sem flest fyrirtæki og stofnanir í Hafnarfirði. Til að öðlast slíka viðurkenningu þarf a.m.k. 50% starfsfólks á starfsstað að hafa fengið kynningu á heilabilunarsjúkdómum og áhrifum þeirra. Allir íbúar geta sjálfir gerst heilavinir með því að horfa á og meðtaka fróðleik í þriggja mínútna myndbandi á síðunni www.heilavinur.is. Þetta er ekki flóknara en það.“

0K1A9768Árni Sverrisson formaður Alzheimersamtakanna, Eliza Reid forsetafrú, Vilborg Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. Mynd/Hafnarfjarðarbær

Risastór nágrannavarsla sem eykur öryggi allra

Herdís tekur sem dæmi þegar fólk með byrjunareinkenni Alzheimer þá séu t.d. sjálfsafgreiðslukassar ekki vænlegir til notkunar en með viðeigandi fræðslu þá geti starfsmaður áttað sig og hjálpað til og þá upplifi sá með einkennin ekki ótta eða óöryggi. „Draumur okkar er að allir bæjarbúar verði meðvitaðir um einkenni og áhrif heilabilunarsjúkdóma eins og Alzheimer. Aukin þekking og fræðsla opnar betur augu okkar fyrir umhverfinu og ýtir undir meiri skilning á þörfum einstaklinga með heilabilun. Þá getum við frekar spurt réttu spurninganna og veitt viðeigandi aðstoð. Ef allir taka höndum saman þá verður til nokkurs konar risastór nágrannagæsla sem eykur einnig öryggi aðstandenda.“

Til stendur að fara af stað með leiðbeinendanámskeið 29. apríl nk. ef umhverfi og aðstæður leyfa sem opið verður öllum áhugasömum. „Þegar einstaklingur hefur lokið slíku námskeið þá fær viðkomandi nælu og viðurkenningu sem heilavinur og getur tekið að sér að leiðbeina öðrum og það á hvaða vettvangi sem er. Það er ávinningur fyrir alla starfsmannahópa, vinahópa, félagasamtök og í raun hvern sem er að þekkja þessi einkenni t.d. ef þau birtast hjá samstarfsfélaga eða vini. Aðstandendur geta líka leitað til Alzheimersamtakanna eftir ráðgjöf og stuðningshópum. Það má hugsa það að vera Heilavinur á svipaðan hátt og skyndihjálparnámskeið, verið er að koma fólki í neyð til aðstoðar,“ segir Herdís.

Herdis3Kór Öldutúnsskóla söng nokkur falleg lög  þegar upphaf innleiðingar í Hafnarfirði var markað. Mynd/Hafnarfjarðarbær

Langflestir þekkja einhvern í þessum sporum

Spurð segir Herdís að algengt sé að fólk sé lengi að samþykkja einkenni þessa erfiða sjúkdóms og viðurkenna þau. „Aðstandendur einstaklings sem sýnir einkenni um að eitthvað sé að ættu að leita til heilsugæslu sem ávísar tilvísun á Minnismóttökuna. Þar fer fram rannsókn, ákveðin próf og myndatökur. Það eru til lyf sem hægja á sjúkdómi þótt þau lækni hann ekki og einkennin eru misjöfn eftir einstaklingum. Það þekkja langflestir einhvern í slíkum sporum. Það geta allir geta orðið Heilavinir og það eina sem þarf að gera er að gefa til kynna að maður vilji auka þekkingu sína um heilabilun og vera tilbúinn til að sýna samhug og vinsemd. Saman getur samfélagið hér í Hafnarfirði orðið frábær fyrirmynd sem styðjandi samfélag og öðrum samfélögum og sveitarfélögum hvatning til framkvæmda.“

Viðtal við Herdísi birtist í Hafnfirðingi 31. mars 2021. Aðalmynd/OBÞ

Ábendingagátt